Loftmengun á höfuðborgarsvæðinu
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég skal vera stuttorður. Það var ekki beint fyrirspurnum til mín frekar en áður var fram komið. En ég vil aðeins ítreka að mengunarvarnareglugerð er nú alveg á lokastigi. Það er búin að fara í það verkefni mikil vinna og að því hafa komið margir eins og kom fram í svari mínu áðan, en nú er mér sagt að þetta sé alveg á lokastigi og ég vona sannarlega að við náum þeim áfanga að setja hana fyrr en síðar. Þá þarf að skoða ítarlega þær hugmyndir sem þar eru settar fram um viðmiðunarmörk. Eins og hér kom fram áðan erum við e.t.v. að komast nú þegar í þau hættumörk sem tillaga mengunarvarnareglugerðarinnar gerir ráð fyrir í þeirri mengun sem mælst hefur nú þegar. En hitt vildi ég þó sérstaklega nefna, sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, að ástand mála er auðvitað alvarlegt og kemur einu sinni enn fram í umræðum á þingi að sú aðstaða sem Hollustuvernd ríkisins er búin er algerlega ófullnægjandi og hefur reyndar verið svo um langt árabil. Fjárveitingavaldið, Alþingi, stjórnvöld, ríkisstjórn og fjvn., hafa í gegnum tíðina verið fremur treg til að viðurkenna það þegar þurft hefur að setja fjármuni til þessarar stofnunar hversu mikil, margvísleg og mikilvæg verkefni hún hefur á sinni könnu, þessi stofnun. Það er oft á tíðum, þetta hef ég reyndar sagt áður í umræðum, fjargviðrast út í þessar eftirlitsstofnanir sem verið er að setja á fót. Þetta eru mikil bákn og þetta er kostnaðarsöm starfsemi. En svo kemur aftur ítrekað upp hér í þingi krafan um að þessar stofnanir geri þetta og geri hitt, sinni sínum lagaskyldum betur en þeim hefur tekist, en þeim er ekki búinn grundvöllurinn til þess. Það er ágætt að fá stuðning úr sem flestum áttum í þessu sambandi. En þó vil ég nefna að vissulega varð nokkur breyting á við fjárlagagerð þessa árs. Þar var hlutur Hollustuverndar réttur verulega. Þar voru heimilaðar stöður sem Hollustuverndin hafði sótt um ár eftir ár en ekki fengið og fjárveitingar auknar nokkuð til þess að mæta þeim nýju verkefnum sem verið var að leggja Hollustuvernd ríkisins á herðar m.a. í sambandi við innflutningseftirlit.
    Þetta var kannski ekki alveg tilheyrandi fsp., en þó má segja að það hafi verið óbeint vegna þeirra starfsskilyrða sem Hollustuvernd býr við og að sjálfsögðu er það líka fagnaðarefni að áhugi Reykjavíkurborgar á ástandi hér skuli vera svo sem raun ber vitni og að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar fái tækjabúnað til þess að fylgjast með mengun. En það vekur hins vegar þá upp spurninguna um samstarf og verkaskiptingu milli heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og Hollustuverndar ríkisins, en það er of langt mál að fara út í það hér og nú.