Reglur þingskapa um umræður um fyrirspurnir
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Við ræðum hér afar þýðingarmikið mál, þar sem eru starfshættir þingsins og þingsköp. Ég held að það hljóti að vera áhugaefni okkar allra, og ekki síst hæstv. forseta, að heyra hver er hugur þingmanna í sambandi við þau efni. Ég hygg því að þeim stutta tíma sem ég tek til að ræða þessi mál sé ekki illa varið.
    Ég er þeirrar skoðunar að það geti ekki og eigi ekki að fara eftir því hvort margar fyrirspurnir liggja fyrir í þinginu eða ekki hvernig þingsköp eru túlkuð í sambandi við þann tíma sem tekinn er til að svara. Þann tíma sem mönnum er heimill til að bera fram fsp. og sem ráðherra er heimill til þess að svara fsp. og varðandi þær athugasemdir sem öðrum þingmönnum er gefinn kostur á og það eigi síst af öllu að vera í valdi forseta eftir því hvort hann metur umræðu áhugaverða eða ekki hvaða svigrúm þingmönnum er gefið til að taka þátt í umræðu.