Yfirlýsing um stofnun nýs þingflokks
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Í gær rituðum við, hv. þm. Hreggviður Jónsson og ég, þingflokki Borgfl. svohljóðandi bréf, með leyfi forseta:
    ,,Hér með tilkynnist yður að við undirritaðir segjum okkur úr þingflokki Borgfl. Ástæður þessa eru margvíslegar og yrði of langt mál að tíunda þær í þessu bréfi. Sérstaka áherslu verður þó að leggja á eftirfarandi atriði:
    Borgfl. var stofnaður við óvenjulegar aðstæður vorið 1987 þegar Albert Guðmundsson var flæmdur úr Sjálfstæðisflokknum og bauð fram undir merkjum Borgfl. um land allt. Stefnuskrá flokksins var samin og samþykkt þegar að loknu framboði og síðan endurbætt á fyrsta landsfundi flokksins þá um haustið.
    Þrátt fyrir glæstan sigur undir forustu Alberts Guðmundssonar hafa mál nú skipast þannig að hann hefur hætt sem formaður og leiðandi afl Borgfl. og tekið við stöðu sendiherra Íslands í Frakklandi. Slíkt hefði ekki gerst hefði hann notið órofa stuðnings þingflokksins og unnið hefði verið með honum af heilum hug að framgangi stefnuskrár flokksins.
    Sú skattastefna sem hefur náð yfirhöndinni í landinu með aðstoð Borgfl. gengur þvert á stefnuskrá hans og er alfarið á ábyrgð þingflokksins. Þá liggur fyrir yfirlýsing einstakra þingmanna flokksins um að þeir muni hafa samþykktir meiri hluta þingflokksins að engu ef svo beri undir.
    Undirritaðir hafa því ekki treyst sér til að sitja þingflokksfundi um nokkurt skeið. Forusta þingflokksins hefur ekki haft frumkvæði að því að lagfæra það ástand. Tilraunir, sem til þess hafa verið gerðar, hafa fyrst og fremst verið á höndum annarra flokksmanna og undirritaðra sem hafa gert allt sem í þeirra valdi hefur staðið til að jafna ágreininginn og ná einhug í þingflokknum. Í ljós hefur komið að ekki er vilji til að stefna flokksins í skattamálum sé virt og að þingflokkurinn standi einhuga gegn óvinsælustu ríkisstjórn allra tíma hér á landi. Sumir þingmenn flokksins hafa glatað áttum og með því brugðist kjósendum og stuðningsmönnum Borgfl.
    Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að við getum hvorki tekið þátt í því að styðja þessa ríkisstjórn né setið í þingflokki þar sem ekki er hægt að reiða sig á að meirihlutaákvarðanir þingflokksins séu virtar þegar um örlög ríkisstjórnar er að tefla.
    Borgfl. var stofnaður í anda hugsjóna Alberts Guðmundssonar um mannúð og mildi. Sá ríkissósíalismi sem núverandi ríkisstjórn hefur leitt yfir þjóðina með aðstoð Borgfl. er andstæður þeim hugsjónum. Við sem þetta ritum munum hins vegar starfa áfram í anda Borgfl. og með stefnuskrá hans að leiðarljósi. Því höfum við myndað nýjan þingflokk á Alþingi Íslendinga --- þingflokk frjálslyndra hægrimanna. Við fögnum samstarfi við alla þá sem vilja starfa á þessum grundvelli af alhug og einlægni. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort leiðir okkar og þingmanna Borgfl. muni liggja saman aftur.``
    Undir þetta rita Ingi Björn Albertsson og Hreggviður Jónsson.

    Hæstv. forseti. Eins og öllum er kunnugt hafa þeir atburðir nú orðið undanfarið að þingmenn Borgfl. hafa ekki borið gæfu til að standa sem órofa fylking um stefnu og störf flokksins. Þessu til skýringar skulu nefnd nokkur dæmi:
    Í stefnuskrá Borgfl. segir, með leyfi forseta: ,,Skattheimta ríkisins verði gerð einfaldari og réttlátari en nú er.`` Getur nokkur vafi leikið á því að skattastefna ríkisstjórnarinnar gengur á svig við stefnu Borgfl. í þessum málaflokki? Með samþykkt tekju- og eignarskattsfrumvarpsins fyrr í vetur hefur hluti þingflokks Borgfl. gerst guðfaðir þessarar ríkisstjórnar. Það getur ekki talist réttlætanlegt að samþykkja lækkun skattleysismarka og hækkun eignarskatta sem valda því að fjöldi fólks mun eiga í hinum mestu erfiðleikum með að halda eignum sínum. Að Borgfl. sé ábyrgur fyrir slíkum sköttum gengur þvert á stefnuskrá hans að okkar mati.
    Í stefnuskrá Borgfl. segir enn fremur, með leyfi forseta: ,,Borgfl. vill tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld með mannlegri reisn.`` Þó styður hluti þingmanna flokksins eignarskatta sem íþyngja öldruðum verulega og eru í raun dulbúin eignaupptaka. Þetta er andstætt meginstefnu flokksins.
    Þá hefur það einnig verið baráttumál Borgfl. að vörugjald verði lækkað eða fellt niður. Með hjálp Borgfl. var hins vegar vörugjald hækkað og þar með stuðlað að hækkun framfærsluvísitölu og skerðingu kaupmáttar ráðstöfunartekna. Slíkt samræmist ekki stefnuskrá Borgfl.
    Rauði þráðurinn í stefnu Borgfl. og stofnanda hans felst í orðunum mannúð og mildi sem flokkurinn notaði óspart við síðustu alþingiskosningar. Í stefnu núverandi ríkisstjórnar felst hvorki mannúð né mildi gagnvart einstaklingum eða heimilum. Það er því sorgleg staðreynd að Borgfl. skuli í raun vera guðfaðir hennar.
    Opinberar yfirlýsingar sumra þingmanna flokksins um að þeir telji sér ekki skylt að hlíta ákvörðunum meiri hluta þingflokksins eru einstakar. Stefnuskrá Borgfl. ítrekar að flokkurinn byggi á samstarfi fjöldans. Þingmenn sem ekki treysta sér til að fylgja ákvörðunum sem byggjast á stefnuskrá flokksins og vilja meiri hluta flokksmanna hafa með því brugðist kjósendum Borgfl.
    Við, hv. þm. Hreggviður Jónsson og ég, höfum ítrekað gert tilraunir til að ná sáttum og það hafa einnig nokkrir góðir borgaraflokksmenn reynt. Því miður hafa þessar tilraunir ekki borið neinn árangur annan en þann að þingflokkur Borgfl. hafnaði í gær öllu samstarfi við okkur.
    Sundrung sú sem hér hefur verið lýst og þær árangurslausu sáttatilraunir sem fram hafa farið að okkar frumkvæði hafa leitt til þess að við höfum stigið þau þungbæru skref sem fram koma í bréfi því sem hér hefur verið lesið. Ákvörðun þessi hefur reynst okkur ákaflega erfið en því miður óumflýjanleg.
    Við viljum nota þetta tækifæri til að þakka öllum flokksmönnum og stuðningsmönnum Borgfl. fyrir ákaflega góðan og dyggan stuðning þann tíma sem við

höfum starfað í Borgfl. Jafnframt fögnum við þeim mikla fjölda flokksmanna sem lýst hefur stuðningi við sjónarmið okkar og bjóðum þá alla velkomna til áframhaldandi samstarfs á nýjum vettvangi á grundvelli þeirra hugsjóna sem við sameinuðumst um með stofnun Borgfl. Við verðum því miður að vinna að framgangi þeirra hugsjóna utan raða hans og höfum því stofnað þingflokk frjálslyndra hægrimanna.