Yfirlýsing um stofnun nýs þingflokks
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Af því tilefni sem hér er gefið tel ég mér skylt að segja fáein orð. Það sem hér hefur gerst kemur mér ekki að öllu leyti á óvart, a.m.k. ekki miðað við þær yfirlýsingar Alberts Guðmundssonar um þetta efni nánast í þann mund er hann fór af landinu til annarra starfa. Enn fremur miðað við þann aðdraganda sem mál þetta hefur haft í fjölmiðlum.
    Hitt finnst mér nokkru skipta að komi hér fram að það var ekki fyrr en í gær, 12. apríl, raunar eftir að þingflokksfundur Borgfl. var hafinn kl. 4--4.30, að fyrsta og eina erindi þeirra tveggja hv. þm. sem hér um ræðir barst til þingflokksins um fjarveru þeirra frá þingflokksfundum sem staðið hafði frá 7. febr. sl. Þetta erindi var raunar skilyrði þeirra tvímenninga fyrir hugsanlegri endurkomu til starfa.
    Ég tel nauðsynlegt, þó ekki væri nema af sagnfræðilegum ástæðum, að þingheimur fái að heyra skilyrði þessi svo að ekki fari á milli mála að mönnum sé ljós kjarni þessa máls og það því fremur að ég hef tekið eftir því að í umfjöllun fjölmiðla hefur lokaskilyrði þeirra félaga gersamlega fallið niður, í Ríkisútvarpinu í gærkvöld, í ríkissjónvarpinu í gærkvöld, í morgunblöðunum í morgun.
    Hverju það sætir að menn kjósa að þegja um þetta meginatriði skal ósagt látið, en eftirtektarvert er það engu að síður.
    Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að fá að lesa þessi skilyrði sem þingflokksfundi Borgfl. bárust í gær. Þau eru svohljóðandi með áfestum miða með kveðju frá þeim tveimur félögum. Skilyrðin sem þingmenn Borgfl. áttu undir að rita eru svohljóðandi:
    ,,Þingmenn Borgfl. staðfesta að frekari stuðningur og frekari viðræður við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar um samstarf kemur ekki til greina og munu beita sér af öllu afli gegn ríkisstjórninni. Þingmenn Borgfl. staðfesta að stefna flokksins í skattamálum eins og hún birtist í stefnuskrá flokksins er sú stefna sem þingmenn flokksins munu starfa eftir. Því harmar þingflokkurinn þau mistök er áttu sér stað er frumvörp um tekju- og eignarskatt og vörugjald voru samþykkt fyrr á þinginu.
    Undirritist af öllum þingmönnum Borgfl. til frekari áréttingar.``
    Síðan segir:
    ,,Bókun borin upp til samþykktar: Gangi þingmaður gegn ákvörðun og vilja þingflokks er heimilt að víkja honum úr þingflokknum samþykki *y2/3*y hlutar þingmanna það.``
    Þetta lokaatriði brýtur ekki aðeins í bága við stefnuskrá Borgfl., tilurð hans á sínum tíma, grundvallaratriðið sem um var fjallað á hverjum einasta fundi í allri seinastliðinni kosningabaráttu, heldur og enn fremur við 48. gr. stjórnarskrárinnar sjálfrar sem hver og einn alþingismaður vinnur heit að að rjúfa ekki samkvæmt næstu grein á undan, nr. 47. Það er vafalaust ekki tilviljun að þessar tvær greinar standa saman. Þetta er hornsteinn lýðræðis hér á landi, þetta er hornsteinn þingræðis hér á landi. Þetta atriði var okkur borgaraflokksmönnum boðið að brjóta í

gær.
    Vitaskuld kom það ekki til greina. Vitaskuld kemur það ekki til greina hjá neinum heiðvirðum manni að brjóta það sem helgast er í öllu þessu starfi. Ég vænti þess að þingheimur beri gæfu til þess að í framtíðinni hvarfli það ekki að nokkrum manni að ganga þannig til leiks eins og því miður hefur orðið hér.