Yfirlýsing um stofnun nýs þingflokks
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ákvörðun þingflokks Borgfl. í gær um að hafna tillögum okkar hv. 5. þm. Vesturl. Inga Björns Albertssonar án nokkurra vafninga sýnir að ekki var vilji til frekara samstarfs né ætlunin að láta af stuðningi við ríkisstjórnina. Sú bábilja er hlægileg að það varði við ákvæði stjórnarskrárinnar hvort þingflokki séu settar starfsreglur, enda eru samsvarandi reglur í gildi hjá öðrum. Á það má benda að engar starfsreglur eru í gildi hjá þingflokki Borgfl.
    Ég vil líka undirstrika að í gær harmaði varnarmálaráðherra Noregs í þinginu mistök sín og hann er maður að meiri. Það er einmitt það sem skiptir máli að menn geti viðurkennt mistök sín.
    Ég vil svo minna á að við höfum lagt okkur alla fram um að ná sáttum, en án árangurs. Í þeim tilgangi kom fram ósk um að kalla saman aðalstjórn Borgfl. þegar í stað eins og gert var hjá Alþb. nú fyrir stuttu. Á þeim fundi yrði mótuð afstaða til þessara ágreiningsmála sem við vorum tilbúnir að fara eftir, en þeirri ósk var hafnað af formanni flokksins.
    Það eru okkur mikil vonbrigði hvernig málin hafa þróast og má nánast segja að flokknum hafi verið stolið af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar. Borgfl. hefur lokið hlutverki sínu og er nú einn af fimm vinstri flokkum landsins.
    Ég vil að lokum þakka þeim fjölmörgu sem hafa látið mig vita af stuðningi sínum við baráttu okkar hv. 5. þm. Vesturl. fyrir stefnu Borgfl. í anda mannúðar og mildi. Anda þeirrar stefnu munum við halda á loft á hinu háa Alþingi Íslendinga sem þingmenn í þingflokki frjálslyndra hægrimanna. Með víðsýni og réttsýni munum við berjast gegn úrræðalausri ríkisstjórn og stuðningsforeldrum hennar hér í þingsölum.