Kjararannsóknir
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Nál. er á þskj. 749, svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna á mörgum fundum. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Hagstofu Íslands, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Þjóðhagsstofnun. Allir þessir aðilar taka undir efni tillögunnar og mæla með samþykkt hennar. Í umsögn Þjóðhagsstofnunar og fleiri umsagnaraðila koma fram ábendingar um hvernig efla megi kjararannsóknir frá því sem nú er.
    Nefndin mælir með því að tillagan verði samþykkt með breytingu á orðalagi sem fram kemur á sérstöku þingskjali.``
    Undirritað er þetta af öllum fulltrúum í félmn.
    Till. eins og hún var er prentuð á dagskrárskjali þingsins í dag, en félmn. leggur til að tillgr. orðist svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að kjararannsóknir verði efldar og samræmdar. Í því skyni verði launamiðar og skattagögn þannig úr garði gerð að fram komi á launamiðum sem öruggastar upplýsingar um fjölda vinnustunda að baki dagvinnulaunum, yfirvinnulaunum og öðrum launagreiðslum. Jafnframt verði starfsheiti skilgreind og samræmd eins og þau eru tilgreind á launamiðum og skattframtali. Enn fremur verði settar reglur sem tryggi skil á launamiðum og réttum upplýsingum.``