Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það að þessi till. er komin fram, ekki vegna þess að ég muni styðja þetta mál heldur vegna þess að nú hafa menn kippst við, hvar við stöndum, alþingismenn, og hver fyrirhyggjan hefur reynst sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson var að ræða um. Hver hefur fyrirhyggjan verið? Það er ekki nokkur vafi á því að bæði alþingismenn ýmsir og aðrir sem þekkja til mála eru sannfærðir um að það verður ekki til langframa sem verður Alþingi á þessum stað út af þeim þrengslum sem eru orðin út af ráðhúsbyggingunni, út af því að það hefur verið liðið að ganga á rétt Alþingis í því máli.
    Það er sérkennilegt oft um störf Alþingis. Það er að vísu ekki nýtt. Sá sem hér stendur skrifaði opið bréf til forseta Alþingis í byrjun júní 1988 og benti á til hvers það mundi leiða ef ráðhúsið yrði byggt á þeim stað sem við vitum hvar er. Það ber ekki svo lítið á því. Ég flutti þáltill. um þetta mál, 34. mál. Ég hef ekki heyrt neitt um þessa tillögu. Tillagan var um að þetta mál yrði athugað og yrði athugað um möguleika Alþingis að byggja það fyrirhugaða hús sem samþykkt var að reisa fyrir átta árum. Það eru átta ár síðan þessi tillaga var samþykkt. Það er nú verið að tala um eina bráðabirgðalausnina enn.
    Væri ekki skynsamlegra að alþingismenn reyndu að athuga þessi mál og hugsa um framtíðarstað fyrir Alþingi úr því sem komið er og vera ekki endalaust með bráðabirgðalausnir og eyða fjármunum stórkostlega til þeirra hluta? Ég held að það sé búið að eyða nógum peningum í að gera tillögu um hvernig alþingishús verður byggt sem sennilega verður aldrei byggt, hvað þá ef ætti að fara að halda áfram að fullvinna þá teikningu.
    Hvar á Alþingi að standa í framtíðinni? Það verður að athuga það. Það eru ýmsir staðir sem koma til greina, eins og t.d. á Álftanesi eða upp við Elliðavatn og fleiri staði mætti nefna. En ég vara við því að grípa til einhverrar bráðabirgðalausnar nú sem kostar mikið fé. Það er í þessari greinargerð að það muni kosta 200 millj. að kaupa og breyta. Það er ágiskunartala. Reynslan er að þegar ríkið er annars vegar og ríkið hefur áhuga verður ekki verðið í lægri kantinum.
    Ég harma að þessi tillaga, sem ég flutti í nóvember sl., skuli ekki hafa verið rædd og komið fram til síðari umræðu. Ég harma hvernig stjórnendur Alþingis á undanförnum árum hafa staðið að þessum málum. Ég harma líka að hæstv. félmrh. skyldi ekki sýna meiri rögg í sambandi við þetta mál áður en í óefni var komið. En ég vil að það verði sett í Alþingistíðindi hér og nú þegar er verið að ræða þessi mál að það er mín sannfæring og er búin að vera það alla tíð frá því að ég skrifaði opna bréfið í júní 1988 að hér verði ekki Alþingi til frambúðar, það sé blátt áfram ekki pláss fyrir það.