Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu um heimild til handa forsetum Alþingis að ganga til samninga um kaup á Hótel Borg.
    Ég hlýt að lýsa undrun yfir því að þessi tillaga skuli tekin fram fyrir mjög margar aðrar tilllögur og hefði kosið að svo yrði ekki gert, en það mun hafa verið gert í samráði við formenn þingflokka og því ekkert frekar við því að segja. Mér finnst hálfpartinn að hér sé á ferðinni eitthvert óðagot og þessi lausn á húsnæðisvanda Alþingis sé kannski ekki nægilega vel og rækilega undirbúin. Mín tilfinning er sú eins og fleiri sem hér hafa talað að kostnaður verði miklu meiri en menn vilja vera láta. Það fer að verða stór spurning hvað Alþingi getur leyft sér í þessu sambandi.
    Á síðustu sex árum, sem eru þau ár sem ég þekki af eigin raun, hefur útþensla verið slík í húsakosti Alþingis að við hefur bæst aðstaða í þremur húsum hér á svæðinu, þ.e. í Skólabrú 2, Kirkjuhvoli og nú síðast í Austurstræti 14. Vitaskuld hefur þessi þensla ekki aðeins þýtt stofnkostnað heldur einnig aukinn rekstrarkostnað. Mikið fé hefur farið í innréttingar sem fara þá væntanlega fyrir lítið ef enn á að breyta til. Og vissulega hefur aðstaðan batnað, skárra væri það nú, einkum hjá þingmönnum sjálfum. Sú aðstaða var sannarlega bágborin. Úr því vil ég ekki draga þó mér hafi reyndar runnið meira til rifja sú aðstaða sem starfsliði hefur verið boðið upp á. Aðstaða þess hefur líka batnað mikið að undanförnu. Annað er reyndar óviðunandi eins og t.d. í skjalavörslunni í kjallara Skólabrúar 2. Þá aðstöðu þarf vissulega að bæta. Hún er tæpast mönnum né skjölum bjóðandi og þessa aðstöðu þekkjum við kvennalistakonur manna best. Úr því mætti nú vafalaust bæta með öðrum hætti en þeim að kaupa Hótel Borg.
    Ég hefði kosið að kynna mér þetta miklu betur en hér hefur gefist kostur á áður en ég tek þátt í að veita forsetum heimild til þessara kaupa. Hins vegar er ljós punktur í þessu máli, mjög stór og ljós punktur. Og hann er sá að með kaupum á þessu húsi og innréttingu þess í þágu Alþingis yrði væntanlega slegið á langan frest og helst ævarandi byggingu ,,þinghússkassans`` sem fyrirhuguð var um nokkurt skeið. Ég átti nokkurt frumkvæði að því að vinna gegn þeim hugmyndum og hef ekki skipt um skoðun í þeim efnum. Ég verð hins vegar að segja að ég deili mikilli eftirsjá með þeim sem helst ekki vilja sjá á bak þeirri starfsemi sem þetta gamla fallega hús hefur nú geymt og leyft undir sínu þaki, þar á meðal marga og sögulega fundi eins og við kvennalistakonur þekkjum vel. Ég hefði verið fúsari að veita forsetum Alþingis umbeðið leyfi ef um ýmis önnur hús hefði verið að ræða. Til dæmis hús Pósts og síma gegnt Borginni eða eitthvert annað hús hér í grenndinni.
    Hitt vil ég svo nefna strax að ef út í þessi húsakaup og innréttingar verður farið á vitaskuld að endurskipuleggja starfsemina í því húsi sem við nú stöndum og sitjum í. Þá finnst mér einboðið að aðsetur þigflokkanna verði flutt úr þessu húsi til að

rýma til m.a. fyrir bókasafni og annarri aðstöðu sem er brýnt að hafa við höndina. Ég hef reyndar ekki enn gert það upp við mig hvernig ég endanlega greiði atkvæði um þessa tillögu. En ég legg áherslu á að það verði haft fullt samráð við alla þingflokka um framvindu þessa máls og það allt kannað til hins ýtrasta.