Flm. (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hér hafa talað þó að þeir einir hafi eiginlega tekið til máls sem eru í miklum vafa um þetta mál. Við því er ekkert að segja. Það var vitað. En ég vil leitast við að svara nokkrum atriðum sem hér hafa komið fram.
    Ég vil í fyrsta lagi minna hv. þingheim á að þetta er ekki hugmynd okkar núv. forseta þessa þings. Þessa hugmynd heyrði ég fyrst þegar ég var nýkomin á þing fyrir næstum því tíu árum. Ef mig brestur ekki minni var einn ötulasti talsmaður kaupa á Hótel Borg þá hv. 8. þm. Reykv. Hann hefur greinilega skipt um skoðun síðan.
    Ég var ein af þeim sem studdu hugmyndir að nýju þinghúsi. (Gripið fram í.) Ég var að segja að hv. 8. þm. Reykv. hefði talað af hita hjartans fyrir nokkrum árum um að kaupa Hótel Borg. ( EKJ: Hver? Ég? Hvar gerði ég það?) Svona í samræðum hér í þinginu. En ég vil einnig taka fram að ég var ein af þeim sem studdu og styðja að þingið ( EKJ: Í hvaða hefti af þingtíðindum er það?) byggi yfir sig, auðvitað. Og auðvitað er allt annað ósæmandi. En hitt er annað mál að í fyrsta lagi megum við ekki gleyma einu mikilvægu atriði, að þegar samkeppni fór fram um byggingu nýs þinghúss lá ekki fyrir að ráðhús Reykjavíkurborgar yrði byggt hér á torfunni líka. Það breytir verulega allri mynd af þessu umhverfi. Þar með er ég ekkert að segja að þetta geti ekki rúmast saman. En ég held að ýmsum hv. alþm. leiki nokkur hugur á að vita hvernig það hús rýmist hér með þeirri umferð sem óhjákvæmilega kemur til með að fylgja. Ég get ekki varist því að mér finnst ráðlegt að doka við og sjá hvernig sá rekstur rýmist hér.
    Vandi þingsins, eins og hér kom fram, er m.a. sá að það er næstum ógerlegt að skipuleggja rekstur þingsins meðan við búum við það að vera í átta húsum. Það er afskaplega erfitt að halda utan um slíkan rekstur. Ég held að við séum öll sammála um það hér, jafnt við núv. forsetar sem fyrrv. hæstv. forsetar, að nútímaþjóðþing krefjist töluvert mikils annars en þingið gerði hér á árum áður. Þetta eru allir sammála um og hafa allir löngu gert sér ljóst. En við skulum ekki gleyma því hvað við höfum í raun og veru fylgst hægt með þeirri þróun. Við sem erum búin að vera hér innan við áratug bjuggum við það í fyrstu að hafa ekki skrifstofu. Okkur er auðvitað óskiljanlegt hvernig við fórum að því, en þetta var auðvitað ekki sæmandi. Það er kannski ekkert að undra þó að hv. alþm. sem ekki höfðu sitt eigið herbergi til að vinna hér í húsinu fyndist nokkuð mikið í lagt að kaupa Hótel Borg. En ég held að viðhorf okkar til þessara hluta hafi breyst æðimikið í áranna rás.
    Menn hafa talað mikið um að þetta hljóti að kosta miklu meira en skýrsla starfshópsins gefur til kynna. Því ráðum við sjálf. Ef við ætlum að eyða 60 millj. eyðum við 60 millj. og ekki meiru. Það heita fjárhagsáætlanir og við þær á að standa. (Gripið fram í: Er það venjan?) Það er ekki venja, en það væri nú kannski tilraunarinnar vert að hafna þeirri venju sem viðgengist hefur.

    Eins og ég gat um áðan er ekki hægt að breyta innréttingum á Hótel Borg nema rífa húsið niður. Og eins og ég sagði áðan hyggjumst við ekki gera það. Það kemur að vísu fram í skýrslu starfshópsins hvað menn hyggjast gera og ég hef gert ráðstafanir til þess að sú skýrsla verði á borðum hv. þm. annaðhvort í dag eða á morgun. Munurinn á vinnubrögðum okkar og þeim sem voru með þessar hugmyndir hér fyrr á tímum er sá að við höfum gert öllum alþingismönnum kleift að fylgjast náið með þessu máli.
    Hér er einungis verið að biðja um að málið fái að ganga til hv. fjvn. Þar sitja m.a. þrír hv. þm. sem hér hafa talað. Hér er því langt frá því verið að flana að neinu. Auðvitað viljum við forsetar þingsins að þetta mál sé gaumgæft mjög vel. En við teljum að miðað við fjárhagsstöðu og nýtingu sé þetta æskilegur kostur.
    Ég skal ekki trúa því að skipulagsyfirvöld borgarinnar fari að hafna þessari starfsemi þingsins í húsinu eins og hér var hótað, enda vil ég minna hv. þm. á að þar höfum við vald yfir borgaryfirvöldum og við ráðum því nákvæmlega sjálf hvort við nýtum húsið til þessarar starfsemi ef við fáum það keypt. En allt er það auðvitað óráðið enn.
    Ég er alveg sammála hv. borgarráði um áhyggjur af miðbænum, en þær áhyggjur hefðu átt að koma frá borgarráði fyrr og út af allt öðru en því hvort hið háa Alþingi keypti Hótel Borg. Það er búið að flytja miðbæinn á annan stað í borginni og ég er hrædd um að þeirri þróun verði erfitt að snúa við. Ég leyfi mér að halda því fram að ef Alþingi flytti inn í Hótel Borg færði það miklu meira líf í miðbæinn en það líf sem nú fylgir rekstri Hótel Borgar.
    Menn hafa harmað, þó aðeins einn þm., hv. 2. þm. Reykv., fyrirsögn í Morgunblaðinu í dag. Nú vill það svo til að ég bý ekki til fyrirsagnir í Morgunblaðið. Það gera blaðamenn. Ég tel því alveg nauðsynlegt að ég lesi örstutt svar sem ég gaf fréttaritara Morgunblaðsins í síma í gærkvöldi. Hann rakti samþykkt borgarráðs sem mér hefur reyndar ekki borist enn þá. Um hana frétti ég í símtali við þennan ágæta fréttaritara Morgunblaðsins og hafði hann rétt og satt eftir mér. Ég sagði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég minni borgarráð á að engum á þeim bæ datt í hug að ræða við alþingismenn`` --- og það er satt, það kann að hafa verið rætt við forseta þingsins --- ,,þegar þeir höfðu verulegar áhyggjur af því að ráðhús Reykjavíkur væri sett niður svo til á byggingarlóð Alþingis. Ég held því að ég hafi ekkert um að ræða við borgarstjórann í Reykjavík um húsnæðisvanda Alþingis. Þann vanda munum við leysa sjálf.``
    Og ég sagði þetta ekkert í neinni illsku. Ég held að Alþingi Íslendinga hljóti að geta leyst sinn húsnæðisvanda sjálft. Ég held að það sé óheyrt í sögu Alþingis að borgin og borgaryfirvöld hafi þurft að aðstoða Alþingi við að ráða ráðum sínum um eigin rekstur og lái mér hver sem vill þó að ég telji það ekki brýna nauðsyn að ræða við borgarráð um húsnæðisvanda Alþingis. Ég hygg að einhverjum hefði þótt það allkyndugt hefði ég haft frumkvæði um það eða við forsetar þingsins. Ég ber engan kala til

borgarstjórans í Reykjavík og hina mestu virðingu fyrir stjórn hans á höfuðborginni samkvæmt þeim skoðunum sem hann hefur á rekstri borgarinnar. Ég er ekki sammála öllu sem hann gerir, en það þýðir ekki að ég sé ekki tilbúin að ræða við hann um hvað sem er. Ég vil hins vegar taka það fram að ég reit honum raunar bréf á síðasta ári og óskaði eftir samræðum við hann um bílastæði sem við erum með sameiginleg, öllu heldur sem Alþingi lánar honum og borgarbúum, hér á torfunni. Ég hef ekki fengið svar við því enn þá þannig að það er nú kannski ráð að ræða um það fyrst áður en farið verður að angra hann með húsnæðisvanda þingsins.
    En ég ítreka það, svo að hv. 2. þm. Reykv. þurfi ekki að bera kinnroða fyrir forseta sínum, að það er svo langt í frá að einhver lítilsvirðing fælist í því sem ég sagði og fyrirsögnin í Morgunblaðinu er kannski dálítið misvísandi.
    Ég hef ekki mikið meira um þetta mál að segja. Ég hafna því algerlega að hér hafi verið farið að í einhverju fljótræði. Menn sjá það þegar þeir sem ekki hafa séð skýrslur starfshópsins fá þær í hendur, og hann held ég að hafi skipað menn sem harla má treysta til að meta fasteignakaup. Ég vona að þegar menn hafa fengið þá skýrslu í hendur geti þeir skoðað þetta mál í rólegheitum og gert sér grein fyrir hvaða nýting er fyrirhuguð í húsinu. Það tæki allt of langan tíma að rekja það. Þarna er um að ræða mikla og stóra fasteign. Við mundum láta áætlanir okkar standast. Það er enginn að segja að við þyrftum að gera þær lagfæringar allar undir eins sem e.t.v. eru æskilegar, en hér er fyrst og fremst um að ræða eins og gengur þegar flutt er í nýtt hús málningu og einhverja endurnýjun kannski á annaðhvort gólfteppum eða gólfdúk og annað slíkt þannig að það er ekki gert ráð fyrir neinum húsbrotum þarna og þess vegna engin ástæða til að halda að í það þurfi að fara hundruð milljóna eða 300--400 millj. eða hvað í ósköpunum sem menn hafa fengið í höfuðið að við ætlum að eyða þarna.
    Hæstv. forseti. Eftir að hafa heyrt álit formanna þingflokka og hv. þm. tel ég að við höfum ástæðu til að halda að yfirgnæfandi meiri hluti hv. alþm. sé hlynntur því að þetta mál sé skoðað mjög vandlega og ég treysti því að hv. fjvn. líti á málið sem fyrst. Við hljótum að verða að taka ákvörðun um þetta mál áður en þingi verður slitið í vor. Húsið var eins og menn hafa heyrt selt á gjaldþrotauppboði eða uppboði heitir það víst fyrir nokkrum mánuðum og slegið fyrri eigendum sínum. Þeir eigendur hafa ekki ótæmandi þolinmæði til að komast að niðurstöðu um hvort þeir hafa kaupanda að húsinu eða ekki. Hótelrekstri á Hótel Borg getum við held ég ekkert okkar bjargað og honum verður varla bjargað. Það verða þá einhverjir aðrir að gera. Auðvitað er öllum frjálst að bjóða í eignina á móti Alþingi. En ég tel að mjög vandlega skoðuðu máli og við forsetar allir að hér sé um tiltölulega kostnaðarlítinn og hentugan kost að ræða sem væri fásinna að sleppa út úr höndunum. En það er auðvitað komið undir því hvort hv. þm. vilja

leggja á sig að skoða þennan kost vandlega og taka ákvörðun. Þetta mál kemur upp að ég hygg í þriðja skipti í sögu þingsins sem hugsanlegur kostur og í bæði hin skiptin dagaði það uppi vegna þess að ekkert var gert til þess að kanna málið í alvöru. Nú hefur það verið gert og sá hópur sem málið vann fyrir okkur hefur lagt eindregið til að þessi kostur verði tekinn ef mögulegt er. Hæstv. fjmrh. hefur sagt að hann telji svo einnig vera og fjórir þingflokkanna hafa veitt okkur vilyrði fyrir stuðningi, en vitaskuld kann að vera að einn og einn þingmaður hyggist hafa þar sérstöðu og við því er auðvitað ekkert að segja. En það er alveg ljóst að af þessum kaupum verður ekki með mikilli andstöðu stórs hóps þingmanna. Það ætlar sér enginn að þröngva þessum kosti upp á hið háa Alþingi. Um það þarf að ríkja vinsemd og friður og nær þá ekki lengra þó ekki verði af, en ég teldi það afar illa farið og einkum með það í huga að ég held að hér sé um ótrúlega ódýran kost að ræða til lausnar á húsnæðisvanda Alþingis. Og ég vil benda þeim sem hafa áhuga á hinni húsmóðurlegu hagsýni að skoða vandlega hvar slíkan kost væri að finna fyrir sama verð.
    Ég vona svo að hv. fjvn. verði við þeirri beiðni að vinna vel og hratt að því að kanna þessa tillögu.