Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það þarf að ráða bót á aðstöðuleysi og vinnuaðstöðu þingmanna og starfsfólks þingsins. Það er sýnt að bygging ráðhússins mun tefja eða gera að engu áform um nýbyggingu á vegum Alþingis á þeim stað sem henni var fyrirhugaður. Kvennalistakonur lýstu reyndar efasemdum og andúð gegn því að bygging Alþingis risi á þeim stað sem henni var ætlaður á sínum tíma þegar það mál var hér til umræðu.
    Það er bæði óhagræði og dýrt fyrir þingið að þurfa að dreifa þingmönnum og starfsfólki í átta hús þó svo að þau séu öll hér í nágrenninu. Þess vegna þarf að huga vel að því hvernig leysa megi húsnæðisvanda þingsins og því er þessi tillaga fram komin að húsnæði Hótel Borgar er til sölu, eins og hér hefur komið fram í umræðum áður.
    Eftir nokkra athugun var sú leið talin ráðleg af forsetum þingsins og þingflokkum að kanna hagkvæmni þess að kaupa þetta húsnæði þó slík ráðstöfun yrði fyrst og fremst til bráðabirgða. Ég lít svo á að áður en af slíkum kaupum yrði þyrfti að kanna málið mjög vel, bæði af fjvn., forsetum og fulltrúum þingflokka áður en gengið yrði frá kaupum. Öllu varðar þó að aðstoð og þjónusta við þingmenn batni. Það er meginefni. Tími og starfsorka þingmanna nýtist illa vegna lélegrar starfsaðstöðu og skipulags. Hvaða breytingar sem gerðar verða á húsnæðismálum þingsins verða að taka mið af bættri aðstoð við þingmenn og þeim viðbúnaði og starfsfólki sem hún krefst. Það er algjört aðalatriði. Húsnæðið er jafnvel aukaatriði miðað við það.
    Á sl. þingi unnu norskir ráðgjafar frá Habberstad-fyrirtækinu að því að gera tillögur um hagræðingu og breytt skipulag og starfshætti Alþingis. Þessir ráðgjafar hafa þegar endurskipulagt starfshætti norska, danska og sænska þingsins. Margar þær tillögur sem komu frá þeim eru hinar ágætustu og yrðu til verulegra bóta ef þær kæmust til framkvæmda.
    Ég átti sæti á fundum með þessum ráðgjöfum og starfsfólki þingsins sem fulltrúi Kvennalistans og fylgdist með störfum þeirra. Þar lagði ég m.a. til að þeir þingflokkar, sem hér eru nú í þinghúsinu með starfsemi sína, flyttu í önnur hús, en í staðinn kæmi nauðsynleg aðstoð við þingmenn sem hlýtur að þurfa að vera hér í þinghúsinu. Sem dæmi má nefna bókasafn sem afleitt er að hafa ekki í þessu húsi og er reyndar mjög vannýtt af þingmönnum vegna þess að það er í öðru húsi þó svo að það sé rétt í nágrenninu. Þetta var reyndar reynsla frá öðrum þjóðþingum þar sem nýting bókasafns hafði aukist til muna eftir að það var fært inn í þinghúsið frá því að hafa verið annars staðar. Tillaga þessi var reyndar tekin upp í tillögur ráðgjafanna ásamt ýmsum öðrum sem komu fram frá þingmönnum og starfsfólki þingins. Það væri reyndar mjög viðeigandi og nauðsynlegt að dreifa þeirri skýrslu sem ráðgjafarnir sendu frá sér og ræða hana meðal þingmanna og starfsfólks því að innra starfið sem hér fer fram og

skipulag þess skiptir meginmáli og af því ætti í raun húsakosturinn að ráðast ef vel væri.
    Ég mun ekki lengja mál mitt nú með því að ræða vanda gamla miðbæjarins þó svo að þess væri sannarlega þörf. Vandi hans ræðst ekki einungis af því hvort Hótel Borg verður áfram rekin sem hótel. Sá vandi er fjölþættari og flóknari og tengist skipulagsákvörðunum og þenslu borgarinnar, þéttingu menningar-, verslunar- og athafnakjarna á öðrum stöðum í bænum, búsetu manna, bílastæðum og mörgu, mörgu fleiru. Ég vil einnig leggja áherslu á það að engar verulegar breytingar eru fyrirhugaðar á húsnæði Hótel Borgar ef til kæmi að það hýsti starfsemi Alþingis um tíma. T.d. alls ekki niðurbrot á veggjum sem minnst var á að væru burðarveggir, mjög þykkir og erfitt að hreyfa. Því mætti auðveldlega breyta húsinu í hótel aftur þó síðar yrði.
    Ég tel eðlilegt að fjvn. fái tækifæri til að kanna þetta mál og fjalla um það og taka alla þætti málsins til skoðunar, svo sem eins og hvernig megi losna við leiguhúsnæði sem Alþingi hefur þegar umráð yfir ef til kaupanna kæmi. Alla þessa þætti þarf að skoða gaumgæfilega í samhengi og meta síðan hagkvæmni þeirra. Meginatriði er þó að mínu viti, eins og ég hef áður sagt, að bæta verulega skipulag og starfsaðstöðu þingmanna.