Kafbátsslys við Bjarnarey
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Sl. þriðjudag fór ég þess á leit við hæstv. forseta að mega gera hv. Alþingi grein fyrir þeim atburðum sem urðu föstudaginn 7. apríl sl., þegar kjarnorkuknúinn sovéskur kafbátur sökk, og enn fremur gera Alþingi grein fyrir þeim upplýsingum sem aflað hefur verið um þetta mál sem með ýmsum hætti getur varðað íslenska lífshagsmuni.
    Föstudaginn þann 7. apríl, kl. 11.41 að Greenwich-meðaltíma, kom upp eldur í sovéskum kjarnorkuknúnum kafbáti af svokallaðri MIKE-gerð samkvæmt flokkunarkerfi Atlantshafsbandalagsins. Báturinn var smíðaður árið 1983. Hann var staddur á Vestur-Barentshafi, um 180 km suðvestur af Bjarnarey, 500 km frá Noregsströndum, 1600 km frá Íslandsströndum. Báturinn var á alþjóðlegri siglingaleið.
    Samkvæmt upplýsingum norska landvarnarráðuneytisins barst neyðarskeyti frá bátnum um þremur stundarfjórðungum síðar eða um kl. 12.30. Báturinn var þá á yfirborði sjávar en talið er að hann hafi verið neðansjávar þegar eldur kom upp. Samkvæmt norskum heimildum lögðu þrjú sovésk skip og tvær flugvélar þegar af stað í átt að slysstaðnum þegar líða tók á föstudaginn. Mikill eldur mun hafa komið upp í einum hluta bátsins. Fyrir hádegi tók eldurinn að dreifast til fleiri hluta skipsins. Sprenging varð í honum og báturinn fékk á sig slagsíðu. Áhöfnin hóf þá að yfirgefa bátinn sem byrjaði að sökkva. Sovésk stjórnvöld fullyrða að þá hafi þegar verið búið að slökkva á kjarnaofni bátsins. Báturinn sökk síðan kl. 17.15 og er dýpið á þessum slóðum talið 1500--1600 metrar. Búist er við því að báturinn liðist í sundur en tveir kjarnaofnar sem eru í bátnum eru taldir það sterkbyggðir að þeir standist þrýsting á þessu dýpi.
    Kafbáturinn er búinn tundurskeytum og eru tvö þeirra samkvæmt sovéskum upplýsingum með kjarnahleðslum. Talið er ólíklegt að þau skeyti og kjarnaofnarnir muni valda geislavirku úrfelli.
    Mörgum úr áhöfninni tókst að yfirgefa bátinn áður en hann sökk, en talið er að 42 áhafnarmenn hafi farist og 27 komist lífs af. Sovésk yfirvöld afþökkuðu hjálp Norðmanna við björgunaraðgerðir sem boðin var. Talsmaður norska landvarnarráðuneytisins, Erik Sendstad, sagði að Sovétmenn hefðu hafnað boði þeirra Norðmanna um að svokallaðar SEA-KING-þyrlur frá norskum flugvelli um 370 mílur frá slysstaðnum kæmu til hjálpar, en hann neitaði að láta uppi álit um það hvort Norðmönnum hefði verið kleift að bjarga fleiri mannslífum. En samkvæmt sovéska dagblaðinu Komsomolskaja Pravda er því haldið fram að ef þetta boð hefði verið þegið hefði það örugglega dugað til þess að bjarga fleiri mannslífum. Þess skal getið að utanrrh. hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar flutt utanríkisráðherra Sovétríkjanna samúðarkveðjur vegna þessa mannfalls.
    Daginn eftir að þessi tíðindi gerðust, þ.e. laugardaginn 8. apríl, létu norsk stjórnvöld taka sýni úr sjónum á slysstað til þess að kanna hvort þar væri

geislamengun að finna og samkvæmt síðustu upplýsingum finnst þar engin slík mengun. Sýnin voru tekin strax á laugardag og niðurstöðum rannsókna á hinum fyrstu sýnum var lokið á aðfaranótt mánudagsins kl. 3 og á því voru þessar niðurstöður byggðar. Hins vegar hefur verið frá því skýrt að komið hafi verið fyrir á hafsbotni í grennd við kafbátinn útbúnaði til þess að halda áfram mælingum.
    Þess skal getið að upplýsingar voru að berast í dag frá þeirri stofnun norska ríkisins sem nefnist Statens Institutt for Stralhygiene. Þar er gerð nánari grein fyrir niðurstöðum af sýnatöku og rannsóknum á þeim og mér hefur skilist að hæstv. heilbrrh. muni gera grein fyrir þeim niðurstöðum hér á eftir. Ég læt mér því nægja í þessari greinargerð að vísa til þessara niðurstaðna sem staðfesta það sem nú þegar hefur verið sagt að geislavirkni hafi ekki mælst umfram náttúrleg mörk samkvæmt þessum rannsóknum, en ég legg áherslu á það að menn bíða enn eftir niðurstöðum af seinni sýnatökum og ég geri ráð fyrir því að heilbrrh. geri nánari grein fyrir því hér á eftir, enda þær upplýsingar á hans verksviði þar sem Geislavarnir ríkisins heyra undir hann.
    Það er staðreynd að sovésk stjórnvöld sinntu ekki samningsbundnum skuldbindingum sínum um tilkynningarskyldu í þessu tilviki. Þær upplýsingar sem íslensk stjórnvöld fengu í hendur á föstudagskvöldið eru þess vegna fyrst og fremst byggðar á tvennum heimildum, þ.e. annars vegar upplýsingum frá varnarliðinu hér á Íslandi en þó fyrst og fremst á upplýsingum sem komnar eru frá norskum stjórnvöldum fyrir milligöngu norska utanríkisráðuneytisins.
    Um leið og íslenskum stjórnvöldum barst vitneskja um þessa atburði á föstudagskvöldið 7. apríl, þá var það mat okkar á þeim upplýsingum að ekki væri yfirvofandi hætta á ferðum fyrir Íslendinga og hafsvæðið umhverfis landið. Um leið og sæmilega áreiðanlegar upplýsingar höfðu borist hafði utanrrn. þegar samband við varnarliðið og var í tíðum samtölum við fulltrúa þess, sem og við sendiráð Sovétríkjanna hér í Reykjavík, við utanríkisráðuneytið í Osló og síðan sendiráð Bandaríkjanna í Reykjavík og
sendiráð Noregs í Reykjavík. Óskað var eftir nákvæmari og ítarlegri upplýsingum frá öllum þessum aðilum um þetta mál. Þá var einnig haft samband við Geislavarnir ríkisins og Hafrannsóknastofnun og þær beðnar um að meta ýmsa þætti þeirra upplýsinga sem voru að berast föstudagskvöldið. Utanrrh. gerði forsrh. grein fyrir tíðindunum sem aftur hafði samband við dómsmrh. sem mun hafa kvatt almannavarnaráð saman eða óskað eftir því að það kæmi saman og mun það hafa gerst á aðfaranótt laugardagsins.
    Það er rétt að upplýsa það hér að beint skilvirkt samband er á milli varnarliðsins, Landhelgisgæslunnar, Almannavarna, lögreglunnar og varnarmálaskrifstofu. Komi til hættuástands að mati varnarliðsins þá hefur það samstundis samband við þessar stofnanir og almannavarnakerfi þeirra fer þá strax í gang. Ekki

þótti ástæða til að stíga það skref miðað við þær upplýsingar sem borist höfðu eins og síðar kom á daginn. Á tíunda tímanum um kvöldið náði varnarmálaskrifstofan sambandi við utanrrh. og upplýsti hann um málið og um svipað leyti náðist einnig í helstu yfirmenn utanrrn.
    Utanrrh. var jafnóðum gerð grein fyrir þeim upplýsingum sem bárust um slysið, m.a. hvar og hvenær slysið varð og það mat tilkvaddra dómbærra aðila að ekki stafaði bráðri hættu af því gagnvart íslenskum hagsmunum og eins að talið var þá þegar að einhver mannbjörg hefði orðið. Fréttatilkynning var send Ríkisútvarpinu á aðfaranótt laugardags og önnur fréttatilkynning var gefin út um málið á laugardag. Vakt var í ráðuneytinu og samband við upplýsingaaðila alla helgina.
    Samkvæmt heimild íslenska sendiráðsins í Osló gerði sendiráð Sovétríkjanna fyrst opinberlega grein fyrir málinu kl. 04.20 laugardaginn 8. apríl, níu klukkustundum eftir að atburðurinn hafði átt sér stað. Þar var um að ræða skilaboð frá Gorbatsjov, forseta Sovétríkjanna, til Gro Harlem Brundtland forsætisráðherra Noregs. Opinberlega hafa samkvæmt þessari heimild Norðmenn lýst óánægju með hversu seint Sovétmenn gerðu grein fyrir málinu og hefur Stoltenberg, utanríkisráðherra Noregs, m.a. látið þá skoðun sína í ljósi í fjölmiðlum.
    Johan Jörgen Holst, varnarmálaráðherra Noregs, sagði á laugardagsmorgni 8. apríl að sovéskir embættismenn hefðu fullvissað sig um það að engin hætta væri á geislamengun frá bátnum. Anna Alvik, yfirmaður neyðarráðs norsku stjórnarinnar, þ.e. svokallaðs ,,aksjons utvalg ved atomulykke``, sagði einnig á fréttamannafundi að hún lýsti þessum atburði sem ,,ikke kritisk``. Þessi nefnd, ,,aksjons utvalg ved atomulykke``, var kvödd saman kl. 24, þ.e. á miðnætti föstudaginn 7. apríl í Osló.
    Það er ekki fyrr en á laugardagsmorgun sem Gorbatsjov Sovétleiðtogi kemur boðum áleiðis til forsrh. Noregs, Gro Harlem Brundtland, um það að tekist hefði að slökkva á kjarnaofni kafbátsins áður en hann sökk og fullyrti að ekki væri ástæða til að óttast geislamengun. Í skeytinu voru einnig staðfestar ýmsar fréttir af slysinu eins og t.d. að kafbáturinn hefði sokkið, manntjón hefði orðið, tímasetningar og fleira. Milli kl. 10 og 11 á föstudagskvöldið var samkvæmt mínum fyrirmælum haft samband við sendiherra Sovétríkjanna á Íslandi og hann beðinn um að koma þegar í stað á framfæri við íslensk stjórnvöld þeim upplýsingum sem Sovétmenn hefðu fram að færa um þetta mál. Það var ekki fyrr en kl. 13.40 laugardaginn 8. apríl eða um 15 klukkustundum síðar sem utanrrn. barst fyrst tilkynning frá sovéska sendiráðinu. Það var reyndar fréttatilkynning Tass-fréttastofunnar um málið og var samhljóða orðsendingu Gorbatsjovs til Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, og eins og síðar er orðið upplýst, orðsendingum til forseta Bandaríkjanna og forsætisráðherra Bretlands. Þessi fréttatilkynning var samtímis send til íslenskra fjölmiðla.

    Eins og áður er vikið að var þá um kvöldið haft samband við Geislavarnir ríkisins og stofnunin beðin um álitsgerð um málið strax á grundvelli þeirra upplýsinga sem þá voru fyrir hendi. Í greinargerð sem síðan var tekin saman, og dagsett er þriðjudaginn 11. apríl, af hálfu Geislavarna segir, með leyfi forseta:
    ,,Ekki er hægt að leggja raunhæft mat á afleiðingar slyssins fyrr en Sovétmenn veita upplýsingar um kjarnakljúfinn og brennsluefnið, svo og um kjarnaflaugarnar. Fremur ólíklegt verður að telja að þeir veiti slíkar upplýsingar vegna þeirrar leyndar er hvílir yfir þeim. Yfirlýsingar Sovétmanna gefa til kynna að brennsluefnið leysist ekki upp í sjónum svo og að hlífarnar umhverfis kjarnakljúfinn séu traustar. Mikilvægt er að utanrrn. afli upplýsinga frá Norðmönnum um þær spurningar varðandi kjarnakljúfinn og brennsluefnið sem þeir hafa óskað eftir svörum við frá Sovétmönnum.``
    Á miðvikudagsmorgun, gærmorgun kl. 9, kvaddi utanrrh. sendiherra Sovétríkjanna á sinn fund. Á þeim fundi flutti ég sendiherra Sovétríkjanna enn samúðarkveðjur fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar vegna dauðsfallanna. En það sem gerðist á þeim fundi var annars í aðalatriðum þetta: Ég lýsti mikilli óánægju íslensku ríkisstjórnarinnar með það að svo langur tími skyldi líða frá því að slysið á sér stað án þess að sovésk stjórnvöld sæju ástæðu til að
tilkynna þeim þjóðum sem augljósra hagsmuna áttu að gæta um slysið, sem og að svo langur tími skyldi líða frá því að af hálfu íslenska utanrrn. er leitað til sovéska sendiráðsins með kröfu um upplýsingar þar til þær berast. Jafnframt lýsti ég því yfir að því færi fjarri að þær upplýsingar væru nægilegar. Jafnframt spurðist ég fyrir um það hvort rétt væri hermt að sovésk stjórnvöld hefðu afþakkað boð um hjálp sem borist hefði, og vitnaði þar til norskra heimilda. Meginatriðið væri hins vegar það að enn skorti mikið á að sovésk stjórnvöld hefðu fullnægt sjálfsagðri og reyndar samningsbundinni tilkynningarskyldu sinni, skyldu sinni um að koma á framfæri við hið alþjóðlega samfélag ítarlegum upplýsingum sem dygðu til þess, m.a. fyrir vísindamenn annarra þjóða, að reyna að leggja sjálfstætt mat á þær upplýsingar og gildi þeirra.
    Ég óskaði þess vegna eindregið eftir því að sovéski sendiherrann leitaði eftir því hið fyrsta við yfirboðara sína að slíkar upplýsingar yrðu látnar í té, tæknilegar upplýsingar, m.a. um tegund kjarnakljúfs, brennsluefni og fleiri tæknileg atriði. Jafnframt hvað sovésk stjórnvöld hygðust gera strax á næstunni til þess að rannsaka hugsanlegar afleiðingar slyssins sem og hver væru áform sovéskra stjórnvalda að því er það varðaði að reyna að ná flakinu af hafsbotni og þá að sjálfsögðu kjarnakljúfinum sjálfum og eins þeim eldflaugum sem upplýst var að væru hlaðnar kjarnaoddum. Ég skýrði sendiherranum frá því að ég hefði fyrir alllöngu síðan gengið eftir því við bandarísk stjórnvöld að fá greinargerð um öryggi og slysatíðni að því er varðaði kjarnorkuknúna bandaríska kafbáta og mér hefði nýlega borist slík greinargerð

sem ég mundi gera ráðstafanir til þess að birta. Ég sagði í framhaldi af því að ég óskaði hér með eftir því að sendiherrann hefði milligöngu um það að af hálfu sovéskra stjórnvalda yrði okkur látin í té sams konar greinargerð um öryggisferil að því er varðaði sovéska kjarnaknúna kafbáta, slysatíðni o.s.frv.
    Ég skýrði sendiherranum frá því að ég hefði í hyggju að flytja Alþingi tilkynningu um málið og veita þar þær upplýsingar sem utanrrn. byggi yfir og óskaði þess vegna eindregið eftir því að þess yrði freistað að fá þessar upplýsingar frá sovéskum stjórnvöldum áður en þessar umræður hæfust. Það skal tekið fram að þessar upplýsingar hafa ekki borist.
    Þess skal getið að þriðjudaginn 11. apríl birtist í sovéskum fjölmiðlum viðtal við Dimitri Yasov, varnarmálaráðherra Sovétríkjanna, um þetta mál. Í þessu viðtali fullyrðir varnarmálaráðherrann að geislavirkunarmengun af völdum slyssins sé útilokuð, eins og þar segir orðrétt, og að eyðilegging, eins og það er orðað, ,,destruction``, á kafbátnum sjálfum sé einnig, eins og þetta er orðað í enska textanum ,,ruled out``.
    Nú er þess að geta að áleitnar spurningar hljóta að vaka í hugum manna um það hvað gerist, hvaða afleiðingar þetta kunni að hafa á næstunni og í framtíðinni jafnvel þótt menn treysti því, bæði samkvæmt sovéskum heimildum og eins rannsóknum t.d. Norðmanna, að það sé ljóst að ekki sé um að ræða mengun eins og mælinganiðurstöður gefa til kynna nú. En til þess að geta gengið úr skugga um það verða að berast ítarlegar upplýsingar frá Sovétmönnum sem enn hafa ekki borist, t.d. um brennsluefnið. Þess skal getið að af hálfu Norðmanna hefur einnig frá og með mánudagi, þ.e. 10. apríl, verið gengið eftir þessum upplýsingum og ég vitna hér til orðsendingar sem norsk stjórnvöld hafa komið á framfæri og norska sendiráðið í Moskvu afhenti sovéskum yfirvöldum. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    Hinn 10. apríl, þremur dögum eftir að slysið átti sér stað, afhenti norska sendiráðið í Moskvu sovéskum yfirvöldum erindi þar sem óskað var eftir upplýsingum varðandi kjarnaofna og tækjabúnað kafbátsins. Lögð var áhersla á eftirfarandi atriði:
    1. Tegund kjarnaofnsins.
    2. Afkastagetu ofnanna, þeir eru reyndar tveir, það er rétt að það komi fram.
    3. Brennsluefni, þ.e. úraníum 235 og/eða plútoníum 239, hversu mikið auðgað það er.
    4. Heildarmagn hins kjarnakleyfa efnis um borð.
    5. Lýsingu á umbúnaði ofnanna.
    6. Lýsingu á framleiðslueiningunni sjálfri.
    7. Lýsingu á hlífum umhverfis ofnana.
    8. Kæliefni, tegund, hitastigi og þrýstingi.
    9. Hversu mikið af brennsluefninu innan borðs hafði verið notað.
10. Brennsla ofnanna á síðustu 14 dögum, mæld í megawatt-sólarhringum.
    Spurningum þessum hefur enn ekki verið svarað. Norðmenn segjast jafnvel ekki eiga von á að

Sovétmenn svari þeim öllum í bráð. Að sögn Geislavarna ríkisins er nauðsynlegt að öll framangreind atriði verði upplýst áður en unnt er að segja til um mögulega mengun á hafsvæðinu í framtíðinni.
    Getgátur hafa verið uppi um að kafbáturinn hafi haft nýja tegund kjarnaofna innan borðs sem full reynsla hafi ekki verið komin á og að Sovétmönnum sé í mun að halda upplýsingum um þá leyndum. Sódíum og síðar natríum hafa til þessa
verið einu kæliefnin sem notuð hafa verið. Margir hafa hins vegar leitt getum að því að Sovétmenn hafi nú fundið aðferð til að kæla kjarnaofnana með efnunum bísmút og blýi. Sé svo er þeim mun erfiðara að segja til um áhrif slyssins og þeim mun meiri nauðsyn á því að þær upplýsingar sem norsk stjórnvöld hafa krafið Sovétmenn um berist refjalaust.
    Eins og ég sagði áður fer það mjög mikið eftir því hvaða upplýsingar er að fá um brennsluefnið sjálft hvernig menn meta áhættuna að því er framtíðina varðar. Það getur tekið 100--200 ár að mati vísindamanna áður en ryðgun er komin á það stig að efnin leysist út í hafið. Brennsluefnið dreifist þá bæði lárétt og lóðrétt en berst síðan með yfirborðsstraumum. Það geti falið í sér staðbundna aukningu á mengun, en þynning í svo gríðarlegu vatnsmagni mun hins vegar að öllum líkindum valda því að ytri geislun, þ.e. mælanleg í hafinu sjálfu verði hverfandi. Ég tek það skýrt fram að þetta er einungis mat vísindamanns sem við höfum haft samband við, en hann tók það jafnframt skýrt fram að niðurstöður um þetta fengjust engar með óyggjandi hætti öðruvísi en að fá milliliðalausar og refjalausar upplýsingar frá sovéskum stjórnvöldum.
    Þess skal getið að af minni hálfu verður gerð um það tillaga á ríkisstjórnarfundi að íslenska ríkisstjórnin áskilji sér rétt til kröfu um skaðabætur vegna þessa máls vegna hugsanlegrar geislamengunar, ef hún kann að berast inn í íslenska fiskveiðilögsögu. Það er sjálfsögð varúðarráðstöfun. Þess skal einnig getið að íslenskir söluaðilar hafa fengið kröfur um að upplýsa með óyggjandi hætti þessa aðila um allar staðreyndir málsins í því skyni að fullvissa þá um það að engin hætta sé á mengun í íslensku umhverfi og íslenskum afurðum. Og ef ég skil rétt, þá hafi borist tilkynning um það að japönsk stjórnvöld hafi hert á slíkum kröfum. Þessum upplýsingum hefur verið svarað eftir réttum niðurstöðum af mælingum og það er með hliðsjón og vísan til þessa sem ég tel rétt að Íslendingar áskilji sér sinn rétt til skaðabóta í víðtækasta skilningi fyrir fram.
    Virðulegi forseti. Það er ekki mikla vitneskju að fá um óhöpp um borð í sovéskum kjarnorkuknúnum kafbátum. Þó er talið að á síðustu 26 árum hafi 8 óhöpp orðið í slíkum bátum. Þessi atvik hafa ekki öll fengist staðfest af sovéskum yfirvöldum. Sem dæmi má nefna að kafbátur fórst undan ströndum Spánar árið 1970 og í október 1986 varð sprenging um borð í sovéskum jankí-báti svokölluðum á Atlantshafi og hann sökk 600 mílur austur af Bermúda. Tveir

bandarískir kjarnorkuknúnir kafbátar hafa sokkið, þ.e. US-Fresher og US-Scorpion. Geislamælingar hafa reglulega verið gerðar á slysstöðunum báðum og sýna þær að þrátt fyrir að bátarnir hafi skemmst mikið komst geislavirkt efni ekki út í umhverfið. Eina geislavirknin sem mældist var af völdum tæringar í kælikerfi. Þessi geislavirkni var minni en náttúrleg geislavirkni á hafsbotni.
    Ég vék að því áðan að ég hefði fengið yfirlýsingu eða greinargerð frá bandaríska flotanum um öryggi við starfrækslu kjarnorkuknúinna skipa í bandaríska flotanum. Í þessari greinargerð er fullyrt að öryggismál kjarnorkuknúinna herskipa í eigu Bandaríkjamanna séu mjög öflug og það er fullyrt að aldrei hafi átt sér stað kjarnorkuslys í 35 ára sögu slíkra kjarnorkuknúinna skipa. Tæknibúnaði þessara skipa er lýst, öryggiskerfum o.s.frv. Þessar upplýsingar sé ég ekki ástæðu til að lesa hér úr ræðustól á Alþingi, heldur mun gera ráðstafanir til þess að þær verði birtar almenningi.
    Þess skal síðan getið að Sovétríkin og Bandaríkin undirrituðu árið 1971 samning um kjarnorkuslys, Nuclear Accidents Measures Agreement, þar sem ríkin skuldbinda sig til að tilkynna hvort öðru strax þegar kjarnorkuslys verður. Og það er við ákvæði þess samnings sem er átt þegar sagt er að Sovétríkin hafi í þessu tilviki brugðist tilkynningarskyldu sinni samkvæmt samningsskuldbindingum. Alþjóðlegur samningur sem stórveldin urðu strax aðilar að var einnig undirritaður í september 1986 í kjölfar Tsjernóbíl-slyssins þegar Rússar viðurkenndu ekki í þrjá daga að slys hefði orðið. Sendu þeir hins vegar síðar Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni í Vín afar ítarlega og opinskáa sýrslu upp á 380 síður.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess hér um leið og ég upplýsi þetta mál að efna til umræðu um pólitískt mat á afleiðingum. Ég læt mér nægja að segja að þetta atvik minni okkur enn einu sinni á nauðsyn þess að knýja á um gagnkvæma samninga um afvopnun og eftirlit með vopnabúnaði á og í höfunum. Að öðru leyti vísa ég til þess að hv. alþm. gefst gott tilefni til að ræða þau mál nánar þegar umræða fer fram í byrjun næstu viku um skýrslu utanrrh. til Alþingis.
    Ég vil geta þess að lokum að af hálfu stjórnvalda hefur rækilega verið farið ofan í saumana á viðbragðakerfi okkar Íslendinga af þessu tilefni og sérstakur fundur hefur verið boðaður með öllum þar til bærum aðilum. Frumkvæði að þeirri fundarboðun hefur varnarmálaskrifstofa utanrrn. og á þann fund hafa verið boðaðir fulltrúar frá dómsmrn., Almannavörnum, Geislavörnum, Landhelgisgæslu, Hafrannsóknastofnun og lögregluyfirvöldum.