Kafbátsslys við Bjarnarey
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir hér þakka báðum hæstv. ráðherrum fyrir þá skýrslu sem var gefin um þá atburðarás sem varð eftir slysið rétt norðan við Bjarnarey. Auðvitað getur slíkt slys eða óhapp sem þarna átti sér stað haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir okkar þjóð og efnahagslíf og verður auðvitað að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig. Það sem vekur mann samt til umhugsunar eftir þetta tiltekna tilfelli er náttúrlega það tillitsleysi sem mér finnst að sovésk yfirvöld hafi sýnt, ekki einungis vegna okkar sem búum í nágrenni við þetta hafsvæði og byggjum allt okkar á fiskistofnum þess heldur einnig gagnvart þeim mannslífum sem þarna hefur e.t.v. verið fórnað með því að þiggja ekki þá aðstoð sem fram var boðin af Norðmönnum.
    Þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um það hvað gæti hafa gerst ef þetta óhapp hefði verið í stærri mælikvarða, t.d. ef ekki hefði verið unnt að loka kjarnaofninum.
    Meðan við höfum svona mikla umferð, bæði í hafinu og yfir okkur af kjarnorkuknúnum skipum, kafbátum og e.t.v. flugvélum með slík vopn, hlýtur það að vera okkar stærsta ósk að koma í veg fyrir slíkt. Ég er ekki viss um að okkur takist alveg á næstunni að koma á fullkominni afvopnun þessarar tegundar vopna, þó að ég voni auðvitað að það takist sem allra fyrst. Að gefnu þessu tilefni tel ég að við ættum að beita okkur fyrir því á alþjóðavettvangi að kalla saman fund þeirra aðila sem búa við norðanvert Atlantshafið og eiga verulegra hagsmuna að gæta til að ræða um það á hvern hátt ætti að bregðast við óhöppum sem þessum. Í fyrsta lagi til að tryggja björgun mannslífa sem þar yrðu í hættu, sama frá hvaða þjóð slíkt skip eða kafbátur væri, og síðast en ekki síst til að reyna að koma í veg fyrir þá mengun sem hætta er á við slík tilfelli.
    Auðvitað ætti þegar að vera hafið samstarf stórveldanna og fleiri aðila um það að reyna að bjarga kafbátnum af hafsbotni. Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum síðan missti bandarísk flugvél flugskeyti, eða einhvern slíkan hlut sem hlaðinn var kjarnorkuoddi, í hafið og Bandaríkjamenn gerðu mjög fljótlega ráðstafanir til þess að reyna að bjarga honum af hafsbotni. En þegar þeir komu voru Rússarnir búnir að fjarlægja hann. Út af fyrir sig var það mjög gott að það skyldi takast en í tilfellum þegar um slíka stóratburði er að ræða, eins og þegar kafbátur sekkur á þetta miklu dýpi, þá hlýtur að þurfa samvinnu allra aðila sem tækni og fjármagnsgetu hafa til björgunar. Það finnst mér að ætti að vera lærdómur okkar af þessu slysi og ég held að íslensk yfirvöld hafi staðið vel að þessu máli miðað við þær aðstæður sem við höfum hér til þess að afla upplýsinga sem nauðsynlegar eru til þess að yfirvöld geti gert sér grein fyrir því hvort til einhverra sérstakra ráðstafana þyrfti að grípa. En við ættum að kalla saman fund þeirra aðila sem gerst vita og hafa verulegra hagsmuna að gæta hér í nágrenni við okkur til þess

að vera viðbúnir því að takast á við slík óhöpp með eins konar almannaverndarnefnd eða -ráði.
    Ég vil svo aftur þakka ráðherrum skýrslu þeirra.