Frv. til laga um breytingar á umferðarlögum
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég er sammála því. Það liggur hérna líka fyrir frv. sem hv. 8. þm. Reykn. að ég hygg og hv. 14. þm. Reykv. hafa flutt um breytingu á lögum um söluskatt. Þetta frv. hefur líka verið tekið til 1. umr. en umræðunni frestað. Ég vil mjög taka undir það með forseta að hægt verði að ljúka umræðunni um söluskattinn og umræðunni um frv. til breytinga á vegalögum áður en farið er að taka á dagskrána frv. sem ekki er byrjað að ræða í deildinni. Það er mjög óheppilegt ef svo fer að ekki vinnst tími til að ljúka umræðu um þessi tvö mál í deildinni nú í dag. Það er samkomulag um að deildarfundi ljúki fyrir kl. 5 þannig að við höfum aðeins tæplega fjórar klukkustundir til að ræða þau mál sem hér liggja fyrir. Það eru hér mjög umdeild og flókin mál á dagskránni. Ég legg áherslu á að ég er sammála því sem formaður þingflokks Alþfl. sagði um umferðarlögin, sammála þeim mikla þunga sem forseti deildarinnar lagði á umferðarlögin og vil að það komi alveg skýrt fram að við sjálfstæðismenn leggjum mjög mikið upp úr því að hægt sé að ljúka þeirri umræðu nú á þessum fundi.