Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Því er til að svara að skattlagning á happdrætti var ekki rædd í tengslum við framlagningu þessa frv. Það kunna að vera uppi hugmyndir um það í núverandi ríkisstjórn að það verði gert, um það veit ég ekki neitt og hef ekki rannsakað svo hjörtun og nýrun í einstökum stjórnarþingmönnum að ég geti svarið fyrir það að eitthvert frjókorn af þeim hugmyndum kunni að finnast á þeim slóðum, en málið var ekkert rætt í tengslum við þetta frv. Þetta er einfaldlega um það að framlengja starfsleyfi til handa SÍBS til að reka happdrætti.
    Í öðru lagi er mér kunnugt um að hæstv. dómsmrh. hefur haft í undirbúningi frv. til þess að sett verði heildarlöggjöf um starfsemi happdrætta hér á landi. Undirbúningur að þessu hygg ég að hafi hafist í tíð forvera hans, bæði í tíð hæstv. núv. viðskrh. og hæstv. núv. forseta efri deildar, þannig að þessi vinna er örugglega í gangi varðandi undirbúning að frv. að heildarlöggjöf um starfsemi happdrætta hér á landi, en skattlagning happdrætta í tengslum við þetta frv. sem hér er á dagskrá var aldrei rædd í ríkisstjórninni.