Umferðarlög
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Þegar þessu máli var frestað á síðasta fundi hafði ég beðið um orðið. Ég ætlaði ekki að tala langt mál varðandi þetta frv. heldur aðeins staðfesta það sem kom fram í máli flm., hv. 3. þm. Vesturl., að það var í raun og veru samkomulag okkar á milli þar sem við vorum bæði að vinna að frv. um breytingu á umferðarlögum en ég hafði gengið frá mínu frv. að við mundum flytja þessi frv. hvort í sínu lagi, þ.e. að hann legði fram sérstakt frv. þó að það fjalli um sama atriði og er í frv. sem ég flyt ásamt fleiri hv. þm. þessarar deildar og þá er það fyrst og fremst varðandi öryggisbelti í aftursætum bifreiða.
    Ég vil þess vegna lýsa stuðningi mínum við frv. sem hér er til umræðu og ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni með b-liðinn í 5. gr., þ.e. varðandi börn og öryggisbúnað í bifreiðum, sem vantaði í raun og veru inn í okkar frv. Að öðru leyti sé ég ekki annað en þau atriði sem tekið er á í frv. séu öll til bóta.
    Þetta vildi ég aðeins láta koma fram við 1. umr., hæstv. forseti.