Umferðarlög
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég sé mig knúna til að koma í ræðustól og svara nokkru sem hv. 2. þm. Norðurl. e. fjallaði um varðandi það frv. sem ég ásamt fleirum hv. þingdeildarmönnum hef þegar mælt fyrir og komið er til hv. allshn. og bið velvirðingar á því að það mál er ekki til umræðu, en tengist þó óbeint því sem hér er verið að fjalla um.
    Ég þakka í fyrsta lagi hv. 2. þm. Norðurl. e. fyrir að hafa vakið athygli á þessu frv. og sýnt því svo mikinn áhuga sem raun ber vitni og sem fær nú meiri umræðu en þegar ég mælti fyrir því fyrir nokkrum dögum og fékk enga umræðu hér í hv. deild. Það er af hinu góða. En hann gerði athugasemdir við 3. gr. þess frv. um að dómsmrh. skuli skipa sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa. Ég leyfi mér hér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa greinina. Næsta setning er svohljóðandi:
    ,,Í nefndinni skulu eiga sæti fimm menn með sérfræði- og tækniþekkingu sem varðar slysalækningar, umferðarskipulag, bifreiðaeftirlit, löggæslu- og tryggingamál. Nefndin starfar undir eftirliti Umferðarráðs.``
    Ég held að það sé mikill misskilningur hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að halda að þarna eigi að fara að setja á laggirnar nefnd sem á að taka að sér hlutverk umferðarlögreglu. Það er byggt á algjörum misskilningi. Hér er verið að tala um nefnd á sama grunni og nefndir sem ég er viss um að hv. 2. þm. Norðurl. e. er mér sammála um að eru mjög nauðsynlegar, svo sem rannsóknarnefnd sjóslysa annars vegar og rannsóknarnefnd flugslysa hins vegar. Það er þess konar rannsóknarslysanefnd sem hér er verið að fjalla um en ekki að þessi nefnd eigi að taka að sér hlutverk lögreglu. Slík nefnd er hugsuð í þeim tilgangi að komast að raun um hvað hafi valdið tilteknu slysi og þá er fyrst og fremst verið með í huga alvarlegu slysin, stóru slysin þegar og ef þau verða í umferðinni, að það sé hægt að gera sér grein fyrir því hvað hafi orsakað slysið og hvað sé þá til bóta til að koma í veg fyrir slíkt. Þetta er sem sagt ætlað til að geta betur unnið forvarnarstarf til þess að fækka alvarlegum slysum eins og ég þóttist skilja og skynja að hv. 2. þm. Norðurl. e. er sammála okkur um að sé mjög brýnt.
    Annars vegar minntist hann á hitt atriðið í frv., því fyrra, og það er varðandi börn tíu ára og yngri sem skuli nota hlífðarhjálma þegar þau hjóla á reiðhjólum eða eru reidd. Ég get alveg verið sammála hv. þm. um að það væri æskilegt að allir hjólreiðamenn notuðu slíka hjálma og ég efast ekki um að margir geri það, en þarna er fyrst og fremst verið að líta raunsætt á hlutina. Ég held að ef það tækist að koma því í lög að tíu ára og yngri börn, sem er stærri áhættuhópur en þeir sem eru eldri og öruggari á reiðhjólum, notuðu hlífðarhjálma væri nokkuð unnið. Og auðvitað er engum bannað að nota slíka hjálma. Hér er stuðst við þær reglur sem gilda í öðrum löndum þar sem þetta þykir sjálfsagt og engum dettur annað í hug en að börn noti slíka hjálma.

    Ég taldi nauðsynlegt, hæstv. forseti, að fjalla um þessi tvö atriði, þó þau séu ekki í þessu frv. eins og ég sagði áðan, vegna þeirra athugasemda sem komu fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e.
    Ég vil svo ljúka máli mínu með því að minna á að hér erum við að fjalla um eitt af þeim málum sem koma til kasta Alþingis og eru hafin yfir öll flokksbönd, góðu heilli. Hér erum við að fjalla um umferðaröryggismál og þau snerta sérhvern einstakling ungan sem gamlan og þar með fjölskylduna alla. Ég held að það mættu margir hafa í huga að umferðaröryggismál eru fjölskyldumál. Þetta eru mál sem foreldrar ættu að láta sig varða, hvernig búið er að börnum á leiðinni á milli heimilis og skóla svo dæmi sé tekið, hvernig er búið að þeim í umferðinni á þeim umferðaræðum sem þau þurfa að ferðast daglega eftir sem gangandi vegfarendur.
    Ég vildi aðeins ítreka þetta, hæstv. forseti. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð.