Framhaldsskólar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það er um þetta frv. eins og ýmis önnur frv. sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á Alþingi nú síðasta dag þingsins sem til þess er heimild að þau bera þess merki að ekki er mjög til þeirra vandað og greinilegt að breytingar á frv. hafa verið að berast inn á skrifstofur ráðuneytanna alveg fram á síðasta dag. Það sést m.a. á því að ekki aðeins er það frv. til laga sem hér liggur fyrir prentað upp heldur er það endurprentað upp eins og hér segir á því þskj. sem ég er með og hef ég raunar ekki hugmynd um hvort þetta er frv. nr. 2 eða 3. Væri kannski rétt að segja önnur útgáfa eða þriðja útgáfa á þessu plaggi.
    Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því að í grg. --- ég hygg að það sé svo líka þó þetta sé endurprentað upp, já það er rétt --- kemur ekkert fram um það hver hafi samið frv. né hvernig það sé undirbúið eða tilkomið og er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hér sé um hans einkahugmyndir að ræða eða hvort hugmyndirnar hafi komið frá embættismönnum eða skólamönnum og þá hvaða skólamönnum, með öðrum orðum hvaða orsakir lágu til þess að hæstv. ráðherra taldi sér nauðsynlegt að leggja þetta fram nú á síðasta degi þingsins. Loks vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hvort skólameistarar hafi látið í té álit sitt á þeim atriðum sem hér koma fram í frv.
    Ég vil taka það fram að ég tel frv. vera mikla afturför að því leyti að það dregur úr sjálfstæði skólanna, því frumkvæði sem ég tel að nauðsynlegt sé í framhaldsskólunum og á það einkum við um fjárhagslega kafla frv. eins og ég kem nánar að hér á eftir.
    En áður en ég fer að ræða einstakar greinar frv. er óhjákvæmilegt að minna á það að nú stendur yfir verkfall kennara. Og eftir þeim síðustu fréttum sem ég hef fengið blasir ekki beint við að samningsstaða sé í augsýn. Ég vil í því sambandi vekja athygli á ummælum sem hæstv. forsrh. viðhafði á fundi í Kópavogi í gær og skýrt er frá í DV í dag. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þegar láglaunafólk í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Verkamannasambandinu sýnir þann skilning sem það hefur gert á stöðu þjóðarbúsins þá er sorglegt að háskólamenn skuli koma með kröfur eins og þessar. Það er alveg sama hvort þær fela í sér 70 eða 30% hækkun, en hún er einhvers staðar á því bili, þá er það vitfirring. Þjóðarbúið þolir ekki slíka hækkun,,, segir hæstv. forsrh.
    Nú hafði mér skilist að samningamálin hefðu e.t.v. verið komin í einhvern þann farveg að búast mætti við því að samningar gætu tekist en á hinn bóginn er það öldungis ljóst að ummæli af þessu tagi eru síst til þess fallin að greiða fyrir því að samningar geti tekist á milli ríkisvaldsins og opinberra starfsmanna sem hér eiga hlut að máli, háskólamenntaðra manna. Að vísu hygg ég að það sé rétt að uppi séu hugmyndir um að reyna að semja við Kennarasambandið, semja fyrst við þá kennara sem eru í grunnskólanum og reyna að geyma hina þangað til á eftir og veit ég ekki hvernig úrvinnsla þess máls er nú. Ég skal ekki biðja hæstv.

menntmrh. að bera ábyrgð á óheppilegum ummælum hæstv. forsrh. Það er samkomulag á milli mín og hæstv. forseta að sá þáttur umræðunnar sem lýtur að hæstv. forsrh. skuli bíða næsta máls þegar við förum að ræða söluskattinn og þegar við förum að ræða það háa matarverð sem er hér á landi, og blandast auðvitað ekki beint inn í það frv. sem hér liggur fyrir. Þó ég minnist þess þegar grunnskólafrv. lá fyrir á sínum tíma að einn af þingmönnum Vesturl. gerði skreiðarútflutning sérstaklega að umræðuefni.
    En mín spurning til hæstv. menntmrh. er þessi: Hvernig hyggst hæstv. menntmrh. leysa úr vandamálum þess unga fólks sem nú getur ekki lokið prófum ef kennaraverkfallið dregst á langinn? Má þá búast við því að hæstv. menntmrh. grípi til þess ráðs að láta miðsvetrareinkunn eða vetrareinkunn gilda þar sem hún liggur fyrir? Og þá kannski með þeim fyrirvara að þeir nemendur sem þess óska og komast ekki áfram geti tekið haustpróf eða með einhverjum öðrum hætti látið á það reyna að þeir hafi bætt ráð sitt? Það er augljóst að eitthvað af þessu tagi er hægt að gera þar sem gamla bekkjarkerfið er við lýði. En í framhaldsskólum sumum er líka um að ræða sérstök áfangapróf sem gefa tiltekin réttindi og get ég ekki almennilega séð að hægt sé að leysa það mál með einföldu ráðherrabréfi. Ég held að það sé nauðsynlegt í tengslum við þetta mál að hæstv. menntmrh. geri deildinni nokkra grein fyrir því hvernig kjaradeilan við kennara stendur. Það er nauðsynlegt að spyrja hann jafnframt um það hvort hann hafi gert ráðstafanir til þess að nemendur verði ekki fyrir mjög miklum óþægindum. Og síðast en ekki síst, spyrja hann að því hvort það komi til greina í hans huga að ekki verði samið við kennara fyrr en á hausti komanda þannig að ríkisstjórnin geti kannski talað um bættan fjárhag ríkissjóðs fyrir næstu áramót þar sem tekist hafi að skera kennaralaunin niður um þriðjung á þessu ári vegna kjaradeilu þeirra við ríkissjóð. Ég held að það sé mikilvægt að fá þetta fram um leið og ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er auðvitað afskaplega óheppilegt þegar forsrh. landsins talar um vitfirringu í sambandi við þá kjaradeilu sem nú er uppi.
    Varðandi einstakar greinar frv. vil ég segja þetta: Ekki liggur ljóst fyrir hver er tilgangurinn með 1. gr. frv. þar sem það er ótvírætt í núgildandi lögum um framhaldsskóla með orðalaginu ,,við grunnskóla sem menntmrn. heimilar`` að það tekur til framhaldsdeilda við grunnskólana. Það er ljóst að heimildin til að reka framhaldsdeildir í grunnskóla tekur bæði til þeirra deilda sem heimilaðar hafa verið og þeirra sem munu verða heimilaðar. Ég hygg að best fari á því fyrir hæstv. menntmrh. að láta þríprenta frv. og fella niður þessa 1. gr. Ef hann á hinn bóginn telur að einhver merkingarmunur sé á 1. gr. frv. og lögunum eins og þau liggja nú fyrir, þá er nauðsynlegt að um það komi gleggri upplýsingar en nú liggja fyrir.
    Í lögunum segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Enn fremur framhaldsdeildir við grunnskóla sem menntmrn. heimilar.``
    Í brtt. hæstv. menntmrh. segir: ,,Enn fremur

framhaldsdeildir við grunnskóla sem menntmrn. hefur heimilað og mun heimila.`` Ég hygg, hæstv. forseti, að það sé mikil spurning hvort ekki sé nauðsynlegt að ég biðji um úrskurð forseta deildarinnar um það hvort í þessu felist einhver breyting, efnisbreyting, hvort það sé kannski rétt að vísa þessari grein frá af því að hún sé þarflaus og óþörf og óþingleg. Þetta stenst nú sennilega ekki hjá mér því auðvitað má alltaf lagfæra orðalag í lögum. Svo þetta er nú kannski ekki alveg rétt. En hitt liggur fyrir ( EgJ: Það er nú betra að hafa þetta á hreinu.) að greinin er óþörf úr þessu.
    Ég hélt satt að segja fyrst, þegar ég sá fyrstu útgáfu frv., að þá hefði hæstv. menntmrh. tekið eftir því að greinarnar voru 13 og þess vegna hafi hann viljað bæta við einni grein, því hæstv. ráðherra er hjátrúarfullur, og búið til einhverja grein til þess að ná 14. greininni. Nú er hins vegar búið að strika grein út þannig að greinarnar eru aftur orðnar 13, þannig að nú er þess vegna óhætt að sleppa þessu.
    Við 2. gr. frv. eru brtt. í tveim stafliðum. Í staflið a er ákvæði um að ríkið greiði allan stofnkostnað við byggingar heimavistar en um það er skýrt ákvæði í 6. mgr. 3. gr. núgildandi laga. Mér sýnist ákvæðið eins og það er alveg ótvírætt, en út af fyrir sig er ekkert á móti því að skerpa það enn frekar. En tæplega virðist að tilefni sé til sérstakrar lagasetningar. Í staflið b í 2. gr. er heimild til ríkissjóðs með samþykki Alþingis að greiða hærra hlutfall stofnkostnaðar en 60% þegar í hlut eiga fámenn og févana byggðarlög. Ákvæði af þessu tagi kann að eiga rétt á sér, en hins vegar er ákvæðið mjög óljóst og spurning í hvers valdi það er að meta hvenær um stærstu og öflugustu sveigarfélögin er að ræða. Spurning er t.d. hvort Akureyri gæti fallið undir þetta undanþáguákvæði. En með nýju framhaldsskólalögunum eru lagðar allþungar byrðar á Akureyri þar sem tveir öflugir framhaldsskólar, Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn, eru í því byggðarlagi.
    Um 3. gr. er það að segja að hún fjallar um samstarfsnefnd framhaldsskóla. Er þar kveðið nánar á um verkefni slíkrar samstarfsnefndar og jafnframt að menntmrh. sé heimilt að skipta landinu í framhaldsskólasvæði.
    Ég minni á í þessu sambandi að á síðasta þingi flutti Alþb. brtt. við framhaldsskólafrv. þess efnis að landinu yrði skipt upp í fræðsluumdæmi á framhaldsskólastigi eins og á grunnskólastigi, en þær tillögur náðu ekki fram að ganga. Var talið ástæðulaust að flækja svo mjög stjórnsýslu hinna tiltölulega fáu framhaldsskóla í landinu. Þess vegna hlýtur sú spurning að vakna hvort hér sé verið að endurtaka þessa hugmynd og opna leið fyrir slíkt þunglamalegt stjórnsýslukerfi varðandi framhaldsskólana.
    Ég vil í framhaldi af þessu minna á að umræða einmitt um þetta atriði hefur gengið í gegnum umræður um framhaldsskólann og umræður um skólamál ár eftir ár og hefur það jafnan verið svo að Alþb. hefur verið mikill miðstýringarflokkur að þessu leyti, hvort sem við rifjum upp umræðurnar sem voru

hér í deildinni fyrst á áttunda áratugnum eða förum í þær umræður um framhaldsskólann sem orðið hafa síðar. Hitt væri fróðlegt að fá að vita hvernig Alþfl. og Framsfl. muni bregðast við þessari brtt., hvort svo sé komið að þeir séu líka búnir að taka hornbeygju þarna eins og í skattamálunum og séu nú annarrar skoðunar um þetta mikilvæga ákvæði framhaldsskólalaganna eins og þingmenn þessara tveggja flokka hafa fullkomlega breytt um skoðun t.d. varðandi ýmis mjög þýðingarmikil ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt og ýmis önnur lög sem hafa gengið aftur nú á þessu þingi sem maður hélt satt að segja að maður væri búinn að koma í sæmilega gott horf á síðasta þingi.
    En það er auðvitað ekki bara í þessu frv., það er á mörgum sviðum öðrum sem maður verður var við það að baráttan stendur ekki um það hvað Framsfl. eða Alþfl. vilji, heldur stendur baráttan um það hvort Sjálfstfl. tekst að toga þessa flokka inn á sínar brautir eða hvort Alþb. tekst að toga þá inn á sínar. Þeir eru svona eins og kólfurinn í klukkunni þessir tveir flokkar til hægri og vinstri og vinstri og hægri eftir atvikum. Og það undarlega við þessa flokka er það, gagnstætt því sem er um kólfinn, að stundum geta þeir farið hringsnúning og alltaf til vinstri. En það er auðvitað óhugsandi um venjulegar Borgundarhólmsklukkur sem eru ágæti annarra klukkna.
    Um 4. gr. frv. er það að segja að þar er fjallað um skipan skólanefnda. En einmitt í þeim efnum hefur hæstv. menntmrh. sýnt mikla þráhyggju. Hefur hennar orðið vart alveg frá fyrsta degi eftir að hann settist í stólinn. Þá hefur hann verið að hugsa um þessar skólanefndir framhaldsskólanna sí og æ og sýknt og heilagt. Samkvæmt núgildandi lögum eiga að sitja í skólanefndum fimm menn, þ.e. fjórir tilnefndir að hlutaðeigandi sveitarfélagi eða sveitarfélögum og jafnframt einn sem menntmrh. skipar án tilnefningar og er formaður. Með þessum skólanefndum var fyrirhugað að treysta samstarf við borgarana í viðkomandi sveitarfélögum og hefur það gefið góða raun þar sem slíkt hefur tíðkast. Samkvæmt þessu ákvæði nú eiga sveitarstjórnir að skipa minni hluta skólanefnda, þ.e. þrjá af sjö, en síðan starfsmenn tvo, nemendur einn og svo ráðherra einn. Með því eru fulltrúar fólksins í viðkomandi byggðarlögum komnir í minni hluta í skólanefndir en skólanefndir orðnar nefndir starfsmanna, nemenda og menntmrh. Ekki hefur það gefist vel þar sem slíkar starfsmannanefndir hafa náð yfirtökum í stjórn stofnana. Nægir þar að nefna stjórnir spítalanna eins og t.d. Borgarspítala og hafa einmitt miklar umræður staðið um það á síðustu dögum í tengslum við frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Vert er að benda á að gert er ráð fyrir því að 8. gr. laganna verði breytt, en þar er fjallað um verkefni skólanefnda. Þar er í 1. mgr. tilgreint að skólanefnd og skólameistari ákveði námsframboð með samþykki menntmrn. Hér er fyrst og fremst átt við það að skólanefnd, þ.e. nefnd fulltrúa sveitarfélaganna á

staðnum, fjalli um það hvers konar nám er í boði í hverjum framhaldsskóla fyrir sig. En það er auðvitað mikið hagsmunamál fólksins í hinum ýmsu byggðarlögum. Ég nefni sem dæmi framhaldsdeildina á Dalvík, þar sem tekin hefur verið upp kennsla bæði í skipstjórnarfræðum og eins í fiskvinnslu, sem er auðvitað mjög nauðsynlegt þar sem fiskveiðar og fiskvinnsla er mjög ríkur þáttur í atvinnulífi einmitt Eyfirðinga, og raunar ekkert kjördæmi á landinu sem dregur meiri þorsk að landi en einmitt þetta.
    Þá er í 2. mgr. 8. gr. laganna fjallað um afskipti skólanefndanna af fjárlögum og fjármálastjórnun skólanna. Á hinn bóginn er í lögunum gert ráð fyrir að skólaráð, en það er vettvangur skólameistara, kennara og nemenda, verði skólameistara til aðstoðar við ýmiss konar faglega stjórnun skólans.
    Þá er í 4. gr. einnig gerð sú breyting að menntmrh. skipi ekki formann skólanefndar heldur velji nefndin sér formann til tveggja ára í senn. Það er rökstutt með því að þetta auki á lýðræðislegan hátt sjálfstæði skólans. Mikið vafamál er að þetta verði til bóta þegar haft er í huga hvernig skólanefndir verða skipaðar ef þessi brtt. nær fram að ganga.
    Þá er það einnig nýmæli í 4. gr. að nú er gert ráð fyrir að tveir eða fleiri skólar í sama kjördæmi geti sameinast um eina skólanefnd og talið að það geti stuðlað að nánara samstarfi skóla en verið hefur. Við undirbúning framhaldsskólafrv. sem varð að lögum á sl. vori var þetta einmitt mikið rætt, en niðurstaðan varð sú að hafa eina skólanefnd við hvern skóla, einmitt til að tryggja sjálfstæði skólanna. Enginn vafi er á því að t.d. í Reykjavík gætu embættismenn vel hugsað sér að skipta einungis við eina skólanefnd framhaldsskólanna og sama kann vafalaust að vera á stöðum eins og t.d. á Akureyri, en það stríðir mjög gegn þeim hugmyndum sem lágu að baki framhaldsskólalögunum um aukið sjálfstæði hvers skóla fyrir sig.
    Í 5. gr. er sú breyting að í staðinn fyrir orðið ,,skólaráð`` komi: skólastjórn, þ.e. einungis er breytt nafni á skólaráðinu, en hlutverki þess er ekki breytt. Hins vegar sýnist vafamál að nauðsynlegt sé að halda skólaráði eða skólastjórn í þessu formi ef skólanefndirnar verða skipaðar eins og lagt er til í 4. gr. Þá hefur enn fremur verið gert ráð fyrir að inn í skólaráð eða -stjórn komi áfangastjóri ef hann starfi við skólann og er að sjálfsögðu ekkert við það að athuga.
    Í núgildandi 11. gr. framhaldsskólalaga segir, með leyfi forseta, um almenna kennarafundi: ,,og verksvið þeirra skal ákvarðað í reglum sem menntmrn. setur``. Í 6. gr. þessa frv. er nánar skilgreint hvert vera eigi hlutverk kennarafundar og geri ég enga athugasemd við það.
    Í 7. gr. er lagt til að fjórar nýjar málsgreinar komi inn í 12. gr. framhaldsskólalaga. En þar er gert ráð fyrir að menntmrh. setji eða skipi skólameistara framhaldsskóla að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólanefnda og er ekki gerð tillaga um að breyta því. Menntmrh. á samkvæmt lögunum að setja eða skipa

fasta kennara að fengnum tillögum skólanefndar eða skólameistara viðkomandi skóla. Skólameistari ræður stundakennara og aðra starfsmenn í samráði við skólanefnd. Hér er sú breyting hins vegar gerð að skólameistari á að ráða kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði að fengnum tillögum skólanefndar, en felld er niður setning þessara starfsmanna, eins og verið hefur til þessa. Hins vegar á menntmrh. að ganga frá skipun þeirra þegar um það er að ræða. Mjög er óljóst samkvæmt þessu ákvæði hvaða munur eigi að vera á ráðningu og setningu kennara, og þarf að fá nánari skýringar hjá ráðherra á því ákvæði.
    Inn í greinina er bætt ákvæði þess efnis að skólameistari ráði aðstoðarskólameistara til fimm ára í senn, áfangastjóra til fjögurra ára og deildarstjóra til tveggja ára að höfðu samráði við skólanefnd. Hér er um nýtt ákvæði að ræða en áður var gert ráð fyrir að skólameistari réði aðra starfsmenn í samráði við skólanefnd. Ekki er gert ráð fyrir tímabundinni ráðningu í núgildandi lögum.
    Við 8. gr. geri ég ekki athugasemd.
    Í 9. gr. er fjallað um inntökuskilyrði í framhaldsskóla, en 16. gr. laganna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Allir, sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun, eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla að fullnægðum kröfum um starfsþjálfun þar sem hennar er krafist. Nemendum er skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt ákvæðum í námsskrá hafi þeir ekki náð tilskildum lágmarksárangri.
    Nemandi, sem orðinn er 18 ára gamall, getur hafið nám við framhaldsskóla án þess að fullnægja inntökuskilyrðum samkvæmt þessari grein nema að því er varðar starfsþjálfun. Heimilt er að setja lágmarkskröfur til inntöku í tiltekna námsáfanga. Inntaka nemenda í skóla er á ábyrgð skólameistara.``
    Í frv. menntmrh. er gert ráð fyrir að í fyrri málsgreininni falli niður setningin ,,Nemendum er skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt ákvæðum í námsskrá hafi þeir ekki náð tilskildum lágmarksárangri.`` Enn fremur er ráðgert að niður falli setningin ,,Heimilt er að setja lágmarkskröfur til inntöku í tiltekna námsáfanga.``
    Er ekki svo að eftir endurprentanirnar allar sé þetta svo? ( Menntmrh.: Það er rétt.) Rökstuðningur með þessu er að það þyki ekki í samræmi við ákvæði greinarinnar um að allir eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskólum að geta skyldað nemendur til að stunda fornám í einstökum námsgreinum og það þyki ekki í samræmi við rétt nemenda til náms og að skólinn verði að gefa nemendum kost á námi við hæfi hvers og eins að setja hugsanleg skilyrði um lágmarkskröfur eingöngu í ákveðna námsáfanga.
    Með þessu er með öðrum orðum verið að afnema allar hömlur á inngöngu manna í framhaldsskóla en ég held að það geti haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér og er það reyndar mjög í ósamræmi við umræður meðal skólamanna sem fara fram einmitt þessa dagana, m.a. í Tímanum 11. apríl sl. Gagnrýni

skólamanna hefur fremur beinst að því að lögin sem sett voru séu of opin, þ.e. of litlar hömlur á inntöku manna í framhaldsskóla. Í Tímanum segir svo um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í viðtölum sem Tíminn átti við nokkra forsvarsmenn í framhaldsskólunum kom fram að þeir eru ekki ýkja hrifnir af þessari nýbreytni, fyrst og fremst vegna þess að ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á fjárveitingum til skólanna eða meiri fjölbreytni í námsvali sem mundi hugsanlega höfða til þeirra nemenda sem hefðu sýnt slakan árangur og takmarkaðan áhuga á bóklegu námi. Einnig er talið að þetta nýja fyrirkomulag valdi því að unglingar slái slöku við námið vitandi það að engin inntökuskilyrði eru fyrir hendi. Þó verður að telja fullvíst miðað við þróun undanfarinna ára að framhaldsskólarnir muni taka mið af einkunnum nemenda ef þeir fjalla um þær umsóknir sem berast.
    Í einum menntaskólanna fengust þær upplýsingar að brottfall úr námi á fyrsta námsári væri á bilinu 20--30% og er ljóst að því lægri einkunnir sem nemandi hefur á grunnskólaprófi því meiri líkur eru á að hann hverfi frá náminu. Telja því margir þetta slæma breytingu á lögunum sem geri ungu fólki engan greiða. Það sólundi einu ári til einskis við að komast að því að bóklegt framhaldsskólanám er ekki við þess hæfi. Á sínum tíma var einn megintilgangur með grunnskólaprófinu að veita forspá um möguleika viðkomandi nemanda í bóknámi.
    Hinir sömu telja að vandinn sé raunverulega sá að ekki hefur verið til nám við hæfi þeirra einstaklinga sem ekki hafa náð grunnskólaprófunum og með þessum nýju lögum sé vandanum velt yfir á framhaldsskólana í stað þess að taka á honum í ráðuneytinu. Leiðin til að leysa þennan vanda sé ekki sú að fella niður inntökuskilyrðin. Vandinn verði áfram óleystur því ekki er gert ráð fyrir að skólarnir breyti kennsluháttum sínum eða að settar verði á fót nýjar námsbrautir.
    Þegar fyrstu fjölbrautarskólarnir voru settir á stofn var boðið upp á nám sem höfðaði til þeirra sem höfðu takmarkaðan áhuga á hefðbundnu bóknámi eða langskólanámi. Þessar brautir eru að mestu leyti horfnar í dag og telja margir ástæðuna fyrir því að foreldrar leggi hart að börnum sínum að sækja hefðbundið bóknám í framhaldsskólunum. Í þessu sambandi hefur verið nefnt að leggja þurfi meiri áherslu á námsráðgjöf fyrir unglingana.``
    Svo mörg voru þau orð.
    Ég vil aðeins bæta því við, herra forseti, sem ég hef raunar oft tekið fram áður í sambandi við umræður um skólamál hér í deildinni og í sameinuðu þingi, að ég taldi á sínum tíma og tel enn að það hafi verið mikil skyssa að leggja niður gamla gagnfræðaskólann eins og hann var. Þá var svo komið að 4.
bekkurinn hafði fest í sessi, fengið sérstakan tilgang, almennan tilgang innan skólakerfisins sem ekki var áður og hafði sama gildi og landspróf, tekið úr 3. bekk.

    Ég man að á þeim árum, árunum áður en nýju grunnskólalögin gengu í gildi, hafði sá merki skólamaður Jón Á. Gissurarson starfrækt svo árum skipti sérstaka bekkjardeild fyrir þá nemendur sem voru verst undir það búnir að fara í framhaldsnám og hafði honum tekist að hjálpa mjög mörgum einstaklingum til að ná góðum þroska einmitt með þeirri sérstöku áherslu sem hann lagði á það að sinna þeim nemendum sem verst voru settir. Ég skal ekki fara frekar út í þá sálma hér en aðeins minna á það að ég tel að með því að samþykkja frv. hæstv. menntmrh. eins og það liggur nú fyrir sé stigið skref aftur á bak. Þá sé í raun og veru verið að reyna að fela vanda sem blasir við í þjóðfélaginu og öllum er kunnur.
    Í 10. gr. eru lagðar til veigamiklar breytingar á kaflanum um fjárhagslegan rekstur framhaldsskóla. Veigamesta breytingin er sú að samkvæmt núgildandi lögum er rekstrarkostnaði framhaldsskóla skipt í tvo meginþætti, þ.e. launakostnað sem nánar er skilgreindur og annan rekstrarkostnað. Gert er ráð fyrir að launakostnað greiði ríkissjóður beint til starfsmanna en rekstrarframlagið greiðist fyrir fram til skóla ársfjórðungslega. Hér er um mjög veigamikið atriði að ræða til að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði skólanna og gera skólastjórnendur ábyrga fyrir hinum fjárhagslega rekstri. Gríðarleg áhersla var lögð á þetta atriði af skólameisturum og skólastjórnendum. Nú er þessu fjárhagslega sjálfstæði kippt af skólunum og í raun gert ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi frá því sem verið hefur en þó aðeins bætt inn ákvæði þess efnis að gerður skuli samningur milli menntmrn. og hvers skóla um tilhögun á greiðslum til skólanna af fjárlagalið þeirra. Gefur auðvitað auga leið að ekkert yrði samþykkt í þeim efnum annað en það sem menntmrn. og væntanlega fjmrn. leggja til.
    Vitað er að embættismenn, bæði í menntmrn. og fjmrn., voru mjög andvígir þessu ákvæði en í gegnum alla meðferð málsins tókst að halda því inni, m.a. vegna ötullar baráttu skólameistaranna og er því ljóst að hér hafa embættismennirnir náð yfirtökum og ráðherra fórnar fjárhagslegu sjálfstæði skólanna í þessari tillögu.
    Þá er og gert ráð fyrir að afnumið verði það ákvæði að framlög ákveðinna nemenda skuli vera sem næst jafnhá hvar sem er á landinu og að framlögin skuli ákveða sem tiltekna upphæð á hvern nemanda árlega. Þetta atriði var mjög umrætt þegar lögin voru til meðferðar á Alþingi á sl. vetri og óttuðust sumir að fámennari skólar mundu gjalda þessa ákvæðis, en í 34. gr. laganna, sem nú á að afnema, er kveðið á um það að taka þurfi tillit til sérstakra aðstæðna og skuli veitt sérgreint framlag til að mæta þeirri þörf.
    Nú er sem sagt lagt til að afnema þessar leiðbeiningar í lögunum um fjárframlög til skóla og það algjörlega lagt á vald fjárveitingavaldsins. Það er viðkomandi ráðuneytis og Alþingis að ákveða rekstrarkostnað fyrir hvern skóla.
    Ég vek sérstaka athygli á því að í athugasemd í kaflanum þar sem fjallað er um 10. gr. segir að í

upphafi sé stefnt að því að rekstrarframlag, annað en kennslulaun, laun fastra starfsmanna og meiri háttar viðhalds- og stofnkostnaður, yrði greitt hverjum skóla fyrir fram. Um þetta eru ekki stafkrókar í lagagreininni sjálfri. Þvert á móti hlýtur að verða að skilja hana svo að engin skuldbinding sé um slíkar fyrirframgreiðslur þar sem bein ákvæði í lögunum um það efni eru afnumin.
    Þessi breyting er í andstöðu við allan málflutning núverandi ráðherra um nauðsyn þess að auka sjálfstæði skólastofnana.
    Í 11. gr. er gert ráð fyrir að ný grein komi inn í lögin, þ.e. grein sem fjalli um starfrækslu framhaldsdeilda við grunnskóla og samkvæmt athugasemdum er helsta nýmælið í henni að ákveðið er að framhaldsdeildir skuli vera undir faglegri stjórn framhaldsskóla til að tryggja samræmingu á námsframboði og samstarfi milli nálægra skóla.
    Þegar frv. var til meðferðar voru ýmsir skólamenn, þar á meðal skólameistarar framhaldsskólanna, andvígir því að sett yrði inn í lögin ákvæði um framhaldsdeildir grunnskóla og báru því m.a. við að of mikil freisting væri á hinum ýmsu stöðum að setja framhaldsdeildir sem mundu útþynna framhaldsmenntunina og gera það að verkum að hinir eiginlegu framhaldsskólar sem sinntu því hlutverki eingöngu yrðu undir í baráttunni og nám þeirra yrði útþynnt.
    Við nánari athugun er ég ekki viss um að þessi rök skólameistaranna standist þannig að ég tel að það sé frekar til bóta að setja í lögin ákvæði um framhaldsdeildir við grunnskóla því enginn vafi er á því að það er vaxandi áhugi á því á hinum ýmsu stöðum úti á landi að halda nemendum í heimabyggð a.m.k. fyrstu tvö árin í framhaldsskóla. Þetta er þó mjög umdeilt.
    Í 13. gr. er gert ráð fyrir að felld séu úr gildi ákvæði 5. gr. laga um Heyrnleysingjaskóla og er ekkert við það að athuga miðað við þær skýringar sem gefnar eru í athugasemdunum.