Umræða um söluskattsfrumvarp
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Þó mér þyki leitt að trufla hér umræðu um jafnmikilvægt mál og framhaldsskólana get ég þó ekki látið hjá líða að vekja athygli á því að það bíður hér umræða um söluskatt á matvæli og lækkun hans, þ.e. það frv. sem við tveir þm. Borgfl. í Ed. höfum lagt fram. Við höfum beðið rólegir alla vikuna eftir því að reyna að ná tangarhaldi á hæstv. forsrh. til að fá hann hingað í deildina til að svara nokkrum spurningum en hann, eins og öllum er kunnugt, er mjög önnum kafinn maður og mjög erfitt að ná tali af honum. Maður fréttir gjarnan af honum á mjög merkilegum fundum úti í bæ. Nú virðist atburðarásin farin að líkjast eilítið þeirri sömu atburðarás og var hér fyrir rúmlega ári síðan þegar hæstv. forsrh. hélt mikla fundi úti um borg og bý og lýsti því yfir að Róm væri að brenna og ríkisstjórnin væri kolómöguleg og allt sem hún gerði væri fyrir neðan allar hellur. Þess vegna tel ég mjög brýnt að við getum fengið að halda þessari umræðu um lækkun á söluskatti á matvælum áfram en ég tek undir og ítreka það að mér þykir leitt að þurfa að trufla hér umræðu um þetta mikilvæga mál.