Framhaldsskólar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Meining mín var ekki að fara út í umræður um kjaramál kennara. Ég tel farsælast að þau mál verði rædd og krufin til mergjar við samningaborðið en ekki hér í umræðum um frv. til laga um framhaldsskóla.
    Ég hef að sjálfsögðu jafnmiklar áhyggjur og hv. 6. þm. Vesturl. af kjörum kennara og því hvað kennarar hafa þurft að hrökklast frá kennarastarfi til annarra starfa, en samt tel ég ekki rétt þegar þetta mál er rætt að fara út í efnislega umræðu um þessi samningsmál.
    Mitt mál verður ekki langt hér. Það sem ég ætlaði aðallega að gagnrýna í frv. er það að ekki skuli koma fram hvaðan þessar tillögur eru upprunnar. Koma þær frá menntmrn., frá Skólastjórafélaginu, kennurum eða kannski beint frá Alþb.? Mér finnst vítavert af hálfu menntmrh. að upplýsa ekki í frv. hver hafi unnið þessar tillögur og þá hvaða mat þessir aðilar, og þá sérstaklega skólamenn, leggi á einstakar greinar frv. Ég vil taka hér fram að á síðasta þingi voru samþykkt lög um framhaldsskóla og í menntmn., þar sem ég sat, var almenn ánægja með að þáv. menntmrh. skyldi hafa lagt fram frv. Flestir voru sammála um að það frv. væri spor í rétta átt, en þó voru ýmsar raddir um það að einstök ákvæði væru ekki nógu góð. Nú eru aðeins nokkrir mánuðir liðnir frá því að það frv. var samþykkt og svo miklar breytingar sem hér er mælt fyrir um vekja undrun mína.
    Ég ætla ekki, eins og fyrri ræðumenn, að tíunda álit mitt á einstökum greinum þessa frv., ég ætla að bíða með það til 2. umr. og fá þær forsendur sem ég tel nauðsynlegar frá kennurum, frá skólastjórum og frá öðrum aðilum sem þessi mál varða áður en ég læt mína skoðun beint í ljós.
    Ég tel hins vegar, eins og ég sagði þegar frv. um framhaldsskóla var til umræðu, að það yrði ekki langt að bíða að brtt. yrðu settar fram þegar þingmaður úr öðrum stjórnmálaflokki settist í stól menntmrh. þar sem hér er um mikið og erfitt pólitískt mál að ræða.
    Ég vil sem sagt bíða með það að ræða um einstök atriði þessa frv. þangað til ég hef heyrt rödd þessara aðila, en ég á sæti í hv. menntmn. þar sem þetta mun eflaust verða krufið til mergjar.