Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrir mitt leyti harðlega mótmæla því að þessari umræðu verði fram haldið með þeim hætti sem hún hefur haldið áfram hér. Það var búið að lofa okkur því, þm. Borgfl. í Ed., að hér færi fram umræða um lækkun söluskatts á matvælum og af því tilefni báðum við um að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur þá umræðu. Hann gekk hér í salinn rétt eftir kl. hálfþrjú en á sama augnabliki setti hæstv. varaforseti deildarinnar það mál á dagskrá sem hér hefur verið til umræðu. Svo virðist sem hér hafi verið eitthvert sjónarspil á ferðinni. Að það hafi verið búið að panta fjölda áheyrenda á áheyrendapalla til að vera viðstadda hér allsherjar kjaramálaumræðu kennara í tengslum við umræðu um framhaldsskólafrv. sem er allt annað mál. Ég ætla ekki að draga úr mikilvægi þess að ræða hér kjaramál kennara. Ég er sjálfur kennari og ég er að fara í verkfall sem háskólakennari 28. apríl nk. ef ekki verður búið að ná samningum við Félag háskólakennara fyrir þann tíma svo að dæmi sé tekið. En engu að síður tel ég að sú umræða sem hér átti að fara fram um söluskatt, þ.e. lækkun söluskatts á matvælum, sé ekki síður mikilvæg því að kannski hefði verið hægt að ná fram kjarabót handa bæði kennurum og öðrum launþegum í landinu ef því hefði verið sinnt betur að hlusta á okkur borgaraflokksmenn þegar við vildum fara í það að lækka bæði skatta og þá einkum söluskatt á matvælum til þess að ná fram einhverjum raunhæfum kjarabótum.