Söluskattur
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka virðulegum forseta fyrir þann úrskurð hans að heimila hér að umræða um frv. okkar þingmanna Borgfl. í Ed. á þskj. 603, um breytingu á lögum um söluskatt, þ.e. um lækkun á söluskatti á matvæli. Ástæðan fyrir því að við lögðum mikla áherslu á það að þessi umræða færi fram hér í dag var sú að við höfum viljað ná fundi forsrh. og fá að spyrja hann nokkurra spurninga, en eins og alþjóð er kunnugt er hæstv. forsrh. mjög umsetinn maður og önnum kafinn í sínu starfi og erfitt að fá hann hingað á vorn fund. Hann er oft á ferðalögum eins og alþjóð veit.
    Þegar við skildum við þessa umræðu hér í síðustu viku, þá hafði ég áhyggjur af því að mér virtist sem hæstv. forsrh. hefði ekki sett sig nógu vel inn í það frv. sem við vorum með til umræðu og langar mig til að rifja það aðeins upp hvað málið snerist um og ég ætla því, með leyfi hæstv. forseta, að lesa 1. gr. frv. en hún hljóðar svo:
    ,,Á eftir 1. mgr. 2. gr. laganna komi ný málsgrein svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal aðeins greiða 12% söluskatt af eftirtöldum vöruflokkum: fiski og fiskmeti, kjöti og unnum kjötvörum, mjólk og mjólkurafurðum, eggjum, brauði, grænmeti og ávöxtum. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar málsgreinar, svo og um bókhald og söluskattsframtal þeirra sem versla með þessar vörur.``
    Hæstv. forsrh. taldi að þetta mundi kosta ríkissjóð 3,7 milljarða kr., ef farið væri út í slíka breytingu sem við leggjum til, en ég vildi vekja athygli á því að samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið og reyndar lágu fyrir þegar þessi mál voru til athugunar í janúar sl., þá er um mun lægri upphæð að ræða eða um það bil 2,5 milljarða kr. Í því sambandi er athyglisvert að velta fyrir sér, eins og ég hef reyndar vakið athygli á áður úr þessum ræðustóli, að minnkandi sala á bifreiðum og hugsanlega minnkandi áfengisneysla, sem ber að fagna, virðist valda því að ríkissjóður verði fyrir tekjutapi sem er um það bil þessi upphæð sem við erum að tala um hér. En ég hef ekki séð einn einasta ráðherra í hæstv. ríkisstjórn lýsa neinum áhyggjum út af því að ríkissjóður verði fyrir því tapi.
    Í janúar sl. áttu fulltrúar Borgfl. í viðræðum við formenn og fulltrúa stjórnarflokkanna um samstarfsgrundvöll fyrir nýja ríkisstjórn með aðild Borgfl. Í þeim viðræðum lögðum við áherslu á nokkra punkta, sem við kölluðum reyndar umræðugrundvöll, sem lýstu hugmyndum Borgfl. bæði í skattamálum og ýmsum öðrum málaflokkum. Því miður slitnaði upp úr þessum viðræðum þar sem ekki náðist samkomulag um að fara þá leið sem við lögðum til og mig langar til að lýsa hér í örstuttu máli strax á eftir.
    Okkar hugmynd var einfaldlega sú að í stað þess að bíða kjarasamninga og fara út í hefðbundna kjarasamninga með miklum krónutöluhækkunum --- sem þá var útlit fyrir og reyndar hefur orðið raunin á þegar samningurinn við BSRB er skoðaður, en það

lætur nærri að hann muni þýða um 10% launahækkun til opinberra starfsmanna innan vébanda BSRB á árinu eða á samningstímanum og reyndar er um það að ræða að stórir hópar innan BSRB fá allt að 20% hækkun á launum á samningstímabilinu --- þá töldum við eðlilegast á þeim tímapunkti í viðræðunum í janúar að það yrði reynt að ná samkomulagi við launþegasamtökin í landinu um allsherjar kjarasátt sem byggði á beinum og óbeinum skattalækkunum til að auka eða tryggja umsamið kaupmáttarstig í stað krónutöluhækkana. Því miður hafa nýgerðir kjarasamningar við BSRB kannski eyðilagt þessa leið, en þó mundum við vilja benda öllum hv. þm. á að enn þá ber að reyna að fara þessa leið því að ef við ætlum að halda áfram á hefðbundinni braut með því að semja um miklar launahækkanir í krónutölu, þá erum við náttúrlega að fara inn í nýja verðbólguholskeflu, þá höldum við áfram á þeirri sjálfsmorðsbraut sem hæstv. ríkisstjórn leiðir okkur á.
    Ein af þeim hugmyndum sem við lögðum til var að söluskattur á hefðbundnum innlendum matvælum og innfluttum ávöxtum og grænmeti yrði færður til sama horfs og var fyrir alþingiskosningarnar 1987. Reyndar vorum við tilbúnir að fara málamiðlunarleið, þ.e. að lækka söluskattinn um helming í stað þess að fella hann alveg burtu þó að það hefði kannski verið miklu betra og eðlilegra vegna þess að verð matvæla á Íslandi er svo óheyrilega hátt að það hlýtur að þurfa að fara út í harkalegar aðgerðir til þess að ná hér niður verðlagi og verði á matvælum. Því flytjum við þetta frv. til laga um breytingu á lögum um söluskatt sem gerir ráð fyrir því að söluskattur á hefðbundnum innlendum matvælum og innfluttum ávöxtum og grænmeti verði lækkaður í 12%.
    Þá lögðum við einnig til að eignarskattsauki, þ.e. stóreignaþrepið sem sett var á um sl. áramót yrði lækkað og fellt niður hjá tekjulágum einstaklingum og ellilífeyrisþegum. Sömuleiðis lögðum við til að vörugjald yrði endurskoðað til lækkunar. Við lögðum til að vörugjald yrði fyrst um sinn lækkað í 5%, þ.e. svo fljótt sem auðið yrði, þegar á þessu ári og í staðinn yrði athugað að setja á lága ytri tolla á fullunnar vörur frá svæðum þar sem ekki er um að ræða viðskiptasamninga sem hindra slíkt. Enn fremur voru ræddar hugmyndir þar að lútandi að setja 10% jöfnunargjald á innfluttar iðnaðarvörur, m.a. skip frá
löndum sem Noregi sem stunda ólöglega samkeppni við íslenskan iðnað með ríkisstyrkjum. Þá lögðum við til að það yrði lagður sérstakur sykurskattur eða sykurtollur á allan sykur, hvort sem hann er fluttur inn sem hráefni eða sem hluti af efnainnihaldi vöru. Með þessum aðgerðum ætluðum við að ríkissjóður yrði skaðlaus þótt vörugjaldið yrði lækkað úr 9% í 5%. Síðan var það hugmynd okkar að á næsta ári yrði vörugjaldið fellt niður.
    Við bentum einnig á þann möguleika að hækka skattleysismörk í takt við það kaupmáttarstig lágtekjuhópa sem samkomulag næðist um. T.d. gæti það verið að kaupmáttur fyrir lágtekjuhópa sem var á miðju síðasta ári héldist óbreyttur.

    Þá yrði að sjálfsögðu eftir föngum reynt að draga úr ríkisrekstri og umsvifum ríkisins og miða aðgerðir við að halli á ríkissjóði yrði sem minnstur. Við vissum fullvel að það yrði vart hjá því komist að einhver halli yrði á ríkissjóði, enda verður hann hvort sem er vegna aðgerða í efnahagsmálum og reyndar vegna þeirra samninga sem eru í vændum. Það er í raun búið að gefa leiðina þar með samningunum við BSRB. Ég held að það hljóti allir að gera sér ljóst hvernig það fer að lokum, samningar allra launþega í landinu munu hækka um að meðaltali 10% a.m.k.
    Þetta voru í stórum dráttum þær hugmyndir sem við lögðum fram varðandi það að reyna að ná kjarasátt við öll launþegasamtökin í landinu með því, í stað þess að fara út í krónutöluhækkanir, að lækka skatta með þeim hætti sem ég hef hér lýst. Þá gerðum við einnig ráð fyrir að það yrði ekki umflúið að endurskoða gengisskráningu íslensku krónunnar með tilliti til þess að útflutningsframleiðslan og samkeppnisiðnaðurinn yrði reistur úr þeirri öskustó sem bæði sjávarútvegsfyrirtækin og iðnaðarfyrirtækin eru í þessa stundina. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að við verðum að fara að gera það upp við okkur hvort við ætlum að reisa atvinnulífið við í þessu landi eða við ætlum að lofa því að lognast endanlega út af. Ég tel að ekki sé um annað að ræða, en það verður að tryggja að útflutningsframleiðslan og samkeppnisiðnaðurinn sé rekinn með hagnaði, a.m.k. 2--4% hagnaði. Það þýðir ekkert að vera að tala um neitt annað. Annaðhvort höldum við uppi atvinnu í landinu sem borgar sig eða við getum bara hreinlega gefið þetta allt upp á bátinn. Kannski ættum við bara að gera það, hætta þessu, semja við eitthvert stórt bandarískt fyrirtæki um að taka að sér stjórn þessa lands og senda alla þingmenn heim á biðlaun í ein þrjú ár. Kannski ættum við að leita eftir beinum samningum við General Motors eða eitthvert álíka stórt fyrirtæki og fela þeim stjórn landsins og fara á biðlaun á meðan. Athuga hvort þeim takist ekki betur.
    Ég held að í þessu tilliti hefði verið miklu einfaldara að lækka gengið með einni gengisfellingu þegar það hefur verið reiknað nákvæmlega út hversu stór hún þyrfti að vera til þess að útflutningsfyrirtækin og samkeppnisiðnaðurinn færi að skila hagnaði og tengja það þeirri kjarasátt sem ég hef verið að lýsa hér á undan. Síðan verður að sjálfsögðu að skrá gengi krónunnar eftirleiðis þannig að útflutningsframleiðslan borgi sig, þ.e. að fyrirtæki sem standa í útflutningsframleiðslu verði rekin með hagnaði og að sjálfsögðu verður einnig að hafa hliðsjón af þeim mikla viðskiptahalla sem við búum við.
    Þá lögðum við enn fremur til að allar vísitölubindingar yrðu afnumdar. Í stað þeirra teljum við að vel geti komið til greina að heimila að nota gengisviðmiðun, bæði í sambandi við innlán og útlán banka og annarra peningastofnana, þannig að einstaklingum verði boðið upp á það að stofna til sparireikninga sem í raun eru tengdir hvaða gjaldmiðli sem vera skal. Þá gætu vaxtakjörin verið í samræmi við þau vaxtakjör sem gilda í viðkomandi landi. Eins

mætti haga útlánum á sama hátt, að bæði einstaklingum og fyrirtækjum væri boðið upp á að taka lán sem væru tengd einhverjum erlendum gjaldmiðli eða gjaldeyriskörfu og/eða alþjóðlegum reiknieiningum, svo sem SDR eða ECU og þá þeim vaxtakjörum sem gilda fyrir viðkomandi mynt eða gjaldeyriskörfu. Þetta er ekkert óeðlilegt með hliðsjón af því að mest allt lánsfé sem er í umferð hér á landi er hvort eð er af erlendum uppruna.
    Þá teljum við sjálfsagt að leyfa einstaklingum og fyrirtækjum að taka erlend lán án ríkisábyrgðar og eiga erlend bankaviðskipti að vild undir eftirliti Seðlabankans og áfram verði reynt að halda vöxtum innan hóflegra marka. Ég held að þessi fyrri ábending, um að leyfa einstaklingum og fyrirtækjum að taka upp erlend bankaviðskipti og taka erlend lán að vild án ríkisábyrgðar, sé orðin mjög nauðsynleg til þess að fyrirtæki sem standa í útflutningsframleiðslu sitji við sama borð og samkeppnisaðilar og samkeppnisfyrirtækin erlendis.
    Þá höfum við líka bent á eitt atriði enn, en það lýtur að húsnæðismálunum. Við teljum að sá málaflokkur þurfi að fara í gagngera endurskoðun. Ég bendi t.d. einfaldlega á þetta: Er það eitthvert vit að ætla að fara að dæla 14 milljörðum út í einstaklingsbundnum lánum á einu ári í því ástandi sem þjóðfélagið er í þessa stundina? Væri ekki hægt að ná betri árangri t.d. með því að taka aðeins hluta af þeirri upphæð, þó ekki væri annað, svo sem eins og 5 milljarða kr. og nýta betur? Tökum sem dæmi að 5 milljarðar kr. af þeirri heildarupphæð, sem á að fara til einstaklingsbundinna útlána á vegum
húsnæðislánakerfisins, væru teknir frá og Húsnæðisstofnun falið í samvinnu við sveitarfélög og launþegasamtök að láta byggja leigu- og eignaríbúðir með stórútboði á verktakamarkaði. Að við sæjum kannski gerast annað eins ævintýri og gerðist hér fyrir rúmlega 20 árum síðan þegar samið var um að byggja 1200 íbúðir á vegum launþegahreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar sem öllum ætti að vera kunnugt og allir hljóta að muna eftir.
    Eins og ég sagði virðist því miður sá samningur sem var gerður við opinbera starfsmenn innan vébanda BSRB útiloka þær leiðir sem ég hef verið að lýsa hér. Ég vildi þó spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé algjörlega útilokað að nota það sem samkomulagsatriði í komandi kjarasamningum að lækka söluskattinn með þeim hætti sem við höfum lýst þegar á þessu ári. Og enn fremur vildi ég spyrja: Nú kom það fram í samningunum sem gerðir voru við BSRB, að mig minnir, að lofað var að verð matvæla skyldi ekki hækka, þ.e. verð á hefðbundnum landbúnaðarafurðum, það sem eftir er ársins. Ég vildi fá nánari skýringar á þessu ef hæstv. forsrh. hefur þær á reiðum höndum.
    Þá vil ég enn fremur spyrja: Er hæstv. forsrh. með einhverjar tillögur á prjónunum um það með hvaða hætti matarverð skuli lækkað, þ.e. hyggst ríkisstjórnin yfirleitt hafa einhverjar áhyggjur af því og koma með einhverjar raunhæfar tillögur í því efni að matarverð lækki á Íslandi? Vill hæstv. forsrh. t.d. leyfa

innflutning á kartöflum og kjúklingum til þess að þó með þeim hætti væri hægt að lækka matvælaverð?
    Nú kom það fram hér í blöðum í gær eða fyrradag, að mig minnir, að í tilraunaskyni hefur verið heimilaður innflutningur á smjörlíki. Nú er smjörlíki hluti af matarkostnaði okkar. Það hefur reyndar alltaf vakið furðu mína hvers vegna það ríkir og hefur ríkt innflutningsbann á smjörlíki. Smjörlíki er að minni vitund ekki landbúnaðarafurð. Smjörlíki er iðnaðarvara. Og nú vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Brýtur það ekki í bága við fríverslunarsamning þann sem við höfum gert við Fríverslunarbandalag Evrópu að banna innflutning á smjörlíki?
    Þá langar mig að lokum að spyrja hæstv. forsrh. hvort honum sé kunnugt um að söluskattur á matvæli hafi orðið þess valdandi að innheimta á söluskatti hafi gengið betur og orðið skilvirkari en hún var áður. Ég gleymi því seint þegar við hlustuðum hér á ræður fyrrv. hæstv. fjmrh., núv. hæstv. utanrrh., þegar hann stóð hér í ræðustól í þessari virðulegu deild og tíundaði að með því að breikka söluskattsstofninn og fækka undanþágum yrði söluskattskerfið í fyrsta lagi skilvirkara, í öðru lagi einfaldara og í þriðja lagi réttlátara. Hefur þetta gengið eftir? Er söluskattskerfið orðið skilvirkara við það að leggja fullan söluskatt á matvæli? Hefur söluskattskerfið orðið réttlátara við það að leggja söluskatt á matvæli? Og hefur söluskattskerfið orðið einfaldara við það að leggja söluskatt á matvæli?
    Ég held að ég þurfi ekki að hafa þessi orð mín fleiri í þessari atrennu.