Söluskattur
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég er ekki sammála hæstv. forsrh. um það að ástæða hafi verið til þess að draga á langinn lækkun matvæla vegna þess að uppi voru hugmyndir um skammtímasamninga milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ríkisstjórnarinnar. Ég held að við hljótum að vera sammála um það öll hér í deildinni að matarverð hér er óhugnanlega hátt eins og var rækilega rætt í Sþ. nú í vikunni og það bitnar ekki aðeins á lífskjörum manna. Þegar við erum að tala um laun hér á landi, þá eru almenn laun fyrst og fremst lág vegna þess hversu almennar nauðsynjar eru dýrar. Þess vegna hefði það áreiðanlega greitt mjög fyrir því að hægt hefði verið að draga á langinn samningagerð um nýjar kauphækkanir ef ríkisstjórnin hefði komið til móts við fólkið í landinu með því að draga úr matarskattinum, með því að lækka matarverð í landinu, með því að lækka verð á margvíslegri opinberri þjónustu og síðast en ekki síst með því að draga úr þeirri óhugnanlegu skattheimtu sem hér er.
    Það er hins vegar alveg ljóst að umræður um almenna kjarasamninga á hinum frjálsa vinnumarkaði voru komnar mjög skammt og það sýnir betur en flest annað þá miklu erfiðleika sem hinn almenni vinnumarkaður á við að stríða nú að verkalýðsleiðtogar sem sæti eiga í atvinnumálanefnd Alþýðusambandsins hafa lýst því yfir, síðast nú í Dagblaðinu í dag, að þeir telji óhjákvæmilegt að til gengisfellingar komi.
    Ég vil vekja athygli á því að á fundi í Kópavogi í gærkvöldi lýsti hæstv. forsrh. því yfir að sjávarútvegurinn væri ekki aflögufær og lét þess jafnframt getið að ef þær launahækkanir sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur nú samið um mundi ganga almennt yfir í þjóðfélaginu þýddi það að afkoma fiskvinnslunnar yrði verri um 1,5--2%. Ég hygg að ég fari rétt með það að talað sé um að þessi kjarasamningur jafngildi um 13% hækkun á launum í frystingunni.
    Nú sé ég á þessum tölum að hæstv forsrh. er eitthvað neðar. Hann virðist telja að þessir samningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja þýði innan við 8% hækkun á launum í fiskvinnslu. Það er þó ekki aðalatriðið heldur hitt að í þeim tölum sem fram koma hjá hæstv. forsrh. gerir hann ráð fyrir því að hlutur sjómanna verði óbættur. Þessi tala, 1,5--2%, þýðir með öðrum orðum að hann reiknar ekki með því að þessi launahækkun gangi yfir til sjómanna því ef svo væri, þá væru tölurnar hærri. Þá værum við að tala um að það kostaði fiskvinnsluna þrisvar sinnum meira. Ef tölurnar 1,5--2% eru réttar, þá mundum við tala um 4,5--6% þyngingu fyrir fiskvinnsluna.
    Það alvarlega við ástandið í sjávarútvegsmálum er ekki aðeins þetta heldur hitt að í ummælum hæstv. forsrh. í Kópavogi kemur fram í fyrsta lagi að hann gerir ekki ráð fyrir því að endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti haldi áfram eftir að maímánuður er allur, eftir þeim upplýsingum sem hér eru í Morgunblaðinu. Ég var að sjálfsögðu ekki á þeim fundi en eftir blaðafregnum að dæma gerir hann

ráð fyrir því að endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti ljúki í maímánuði og jafnframt talar hann um að nú standi fyrir dyrum að hætta niðurgreiðslum á fiski í maí, en þó sé hugsanlegt að halda þeim áfram fram í júlímánuð. Skulum við hugsa okkur að sú verði niðurstaðan að halda þessum niðurgreiðslum áfram fram í júlímánuð, en þá verðum við þó að skilja ummæli hæstv. forsrh. svo að greiðslum úr Verðjöfnunarsjóði frystiiðnaðarins ljúki. Þetta tvennt, að hætta greiðslum á uppsöfnuðum söluskatti og greiðslum úr Verðjöfnunarsjóðnum, þýðir þyngingu um 6%. Samkvæmt mati forsrh. bætist það við 1,5--2% og þessi 8,5% sem við tölum þarna um, sem er mat hæstv. forsrh., eiga síðan að bætast við það tap sem nú er þegar fyrir hjá fiskvinnslunni. Það þarf heldur ekki að taka það fram að eftir að lánskjaravísitölunni var breytt um áramótin, þá mælir hún verðbólguna með öðrum hætti en áður. Launin koma inn með miklu meiri þunga en áður. Þannig er verðbólgan nú í kringum 31--32% þó að lánskjaravísitalan hafi einungis hækkað um 27,5% t.d. nú í marsmánuði. Hins vegar mun launahækkunin koma með tvöföldum þunga inn í lánskjaravísitöluna, almenn launahækkun í landinu, þannig að þó svo að í kjölfar almennra kjarasamninga fylgi hvorki lækkun á gengi krónunnar og það verði heldur ekki um það að ræða að hækkunin gangi út í vöruverðið, þá mun það eftir sem áður valda því að lánskjaravísitalan hækkar verulega eða sem svarar þriðjungi þegar í stað af launahækkunum. Við sjáum því fyrir okkur að hækkunin á lánskjaravísitölunni mun halda áfram og það er óraunhæft að ímynda sér að lánskjaravísitalan verði undir 30% á næstu mánuðum sem þýðir þá, eins og ég skil hæstv. forsrh., að glíman við fjármagnskostnaðinn muni halda áfram og eftir því að dæma virðist mér sem ríkisstjórnin hafi tvo mánuði til þess að hugsa sig um. Það var þannig í síðustu ríkisstjórn að hæstv. forsrh., sem þá var utanrrh., hótaði þáv. forsrh. stjórnarslitum hvað eftir annað eftir svo og svo stuttan tíma, en nú sé ég ekki betur en hann sé farinn að hóta sjálfum sér.
    Ég vil líka minna á það að síðast þegar þetta mál var hér til umræðu lýsti hæstv. forsrh. því yfir að af 31 fyrirtæki sem væru til athugunar hjá Hlutafjársjóði væri búið að athuga umsóknir 15 fyrirtækja og þessi 15 fyrirtæki þyrftu 2 milljarða í sinn hlut ef vel ætti að vera. Ríkisábyrgð á
hlutabréfum í Hlutabréfasjóði tekur einungis til 600 millj. kr. Það er því óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi í hyggju að auka ríkisábyrgðina á aðildarbréfum að Hlutafjársjóðnum upp í 4 eða 5 milljarða, því minna virðist ekki duga ef maður reiknar með því að þau 16 fyrirtæki sem upp á vantar þurfi jafnmikið til sín og hin 15 sem búið er að athuga. Ég þarf ekki að taka fram að B-deildarbréf Hlutabréfasjóðs eru svo skrýtnir og óvissir pappírar að engir trúnaðarmenn stofnana geta tekið við slíkum pappírum án þess að fyrir því liggi beinar heimildir frá Alþingi því að það eru slíkir áhættupappírar að ríkisstjórnin treystir sér ekki einu

sinni sjálf til að leggja til að ríkisábyrgðin verði veitt. Ef hún teldi að pappírarnir væru einhvers virði, þá kostaði það auðvitað ekki neitt að veita ríkisábyrgina. En auðvitað er það ríkisábyrgð, þó með öðrum hætti sé, ef sjóðir eins og Fiskveiðasjóður, Iðnlánasjóður, Byggðasjóður eða ríkisbankar eiga að kaupa aðildarbréfin í B-deildinni, fyrirtæki, stofnanir og bankar sem hafa ríkisábyrgð. Ef ætlast er til að þeir kaupi B-deildarbréfin, þá er ríkisstjórnin beinlínis að segja: Við kærum okkur ekki um að bera ábyrgðina. Við ætlum ekki að leggja til við Alþingi að þessi ábyrgð verði veitt. En þeir menn sem hafa verið kjörnir í bankaráðin og í stjórnirnar eru ekkert of góðir til þess að taka á sig ábyrgðina. Þeir eiga að taka áhættuna af þessu og skömmina ef þessir peningar fást ekki endurgreiddir. Ég get því ekki séð að menn sem vilja bera ábyrgð á sínum stofnunum geti undir nokkrum kringumstæðum tekið við pappírum sem ríkisstjórnin sjálf treystir sér ekki til að leggja til hér á hinu háa Alþingi að hafi ríkisábyrgð. Spurningar mínar til hæstv. forsrh. lúta þá að tvennu:
    1. Hyggst hæstv. forsrh. láta slag standa með Hlutafjársjóðinn eða hyggst hann leggja til að Alþingi samþykki frekari ábyrgðir á aðildarbréfum að Hlutabréfasjóðnum en nú eru í lögum?
    2. Hvað á hann við þegar hann talar um að engar stórar kollsteypur verði á gengi krónunnar? Í þessum ummælum felst að sjálfsögðu að hann er að boða gengissig, gengisaðlögun, gengisfellingu eða eitthvað þvílíkt nú á sumri komanda, jafnvel í næstu viku. Það á með öðrum orðum að lækka gengi krónunnar nú á næstu mánuðum, en það á ekki að vera kollsteypa. Það má auðvitað segja að það sé ekki kollsteypa á gengi krónunnar þótt sú ríkisstjórn sem nú situr sé búin að fella gengið fjórum sinnum, sína ögnina í hvert skipti. Það getur vel verið að það sé ekki kollsteypa. En það er nokkuð mikið þegar þetta er allt lagt saman. Spurningin hlýtur því að vera sú: Ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til að leggja það til að greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins haldi áfram og ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til að leggja það til að greiðsla á uppsöfnuðum söluskatti haldi áfram og ef ríkisstjórnin hefur gert sér grein fyrir því að bæði saltfiskverkun og frysting eru rekin með miklum halla --- og verður vaxandi halli, það verður tveggja stafa tala ef kjarasamningarnar ganga í gegnum launakerfið í heild --- ætlar ríkisstjórnin sér þá að láta þar við sitja, láta fyrirtækin tapa því litla sem eftir er eða hyggst ríkisstjórnin grípa til einhverra mikilla aðgerða?
    Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort hæstv. forsrh. er búinn að tala um það í ríkisstjórninni að efna til kosninga nú á hausti komanda og að ríkisstjórnin muni þá leggja það undir dóm kjósenda hvort kjósendur vilji hafa þessa ríkisstjórn áfram, að Framsfl., Alþfl. og Alþb. séu búnir að ná svo vel saman, það sé komin svo góð samvinna á milli þessara þriggja flokka að hæstv. forsrh. muni óhræddur rjúfa þing og boða til kosninga sem um það snerust hvort ríkisstjórnin vildi stjórna aðeins áfram.

Það væri fróðlegt að fá eitthvað um það efni. Ég segi nú svona sem sjálfstæðismaður að það yrði gaman að slíkum kosningum. (Gripið fram í.) Já, honum þykir vænt um það, hv. 4. þm. Vestf. þegar vitnað er í Gísla sögu Súrssonar og sagt: Nú renna öll vötn til Dýrafjarðar. Í pólitískum skilningi renna öll vötn nú til Sjálfstfl., enda sá ég að það hýrnaði yfir hv. þm. þegar ég tók þessa líkingu og hann fann hversu satt það var sem ég var að segja. Ég vil með öðrum orðum til að stytta mál mitt leggja áherslu á þessi þrjú atriði:
    Í fyrsta lagi: Það hefði verið skynsamlegt fyrir ríkisstjórnina að lækka verð á matvörunum strax og reyna með þeim hætti að ná samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins og opinbera starfsmenn um það að láta kjarasamninga liggja til haustsins.
    Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji að 600 millj. dugi í Hlutabréfasjóðnum.
    Ég vil í þriðja lagi inna hæstv. forsrh. eftir því hvort hann telji að það sé hægt að koma við þeirri hagræðingu og þeim sparnaði í samkeppnisiðnaðinum og sjávarútveginum að ekki þurfi neitt að leiðrétta tekjuhliðina hjá þessum atvinnugreinum, að sjávarútvegurinn geti staðið sig, geti haldið uppi fullri atvinnu í sjávarplássunum þó svo að tekjurnar séu fyrst lækkaðar um 6%, sem nemur greiðslum úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins sem er uppsöfnun á söluskattinum, og fiskiðnaðurinn þar fyrir utan geti tekið á sig ómældar launahækkkanir sem ekki er sýnt hvernig verða en ég fullyrði að eru verulegar.
    Í fjórða lagi hvort sjávarútvegurinn eigi að taka á sig þann aukna fjármagnskostnað óbættan sem beinlínis leiðir af kjarasamningunum ef þeir ganga yfir hinn almenna vinnumarkað.
    Það er mat hæstv. sjútvrh. að atvinnufyrirtækin geti ekki tekið á sig þessar launahækkanir. Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir í Sþ. að launahækkanirnar hljóti að ganga út í verðlagið og hæstv. sjútvrh. hefur jafnframt lýst því yfir að sjávarútvegurinn sé ekki aflögufær um eina einustu krónu.
    Hitt er allt saman óvissara hverjar eru hugmyndir hæstv. iðnrh. um iðnaðinn, samkeppnisiðnaðinn. Það var svo að heyra á honum að samkeppnisiðnaðurinn gæti tekið ögn af byrðum á sig til viðbótar við það sem fyrir liggur.