Framhaldsskólar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég hafði beint einni spurningu til hæstv. forsrh. og þar sem ég sá að hann gekk úr húsinu án þess að ég hefði fengið svar þá hefði ég gjarnan kosið ef mögulegt væri að hann svaraði mér nú.
    Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör við fyrirspurnum mínum og vangaveltum varðandi þetta frv. En heldur voru svör hans um kjaradeilu kennara rýr. Ég vil aðeins taka fram að varðandi 5. gr., þar sem ég svona velti upp þeirri hugmynd hvort námsráðgjafar ættu e.t.v. að sitja í skólastjórn, þá gerði ég alls ekki ráð fyrir að verið væri að útiloka þá. Vangaveltur mínar snerust um það að starfssvið skólastjóra og áfangastjóra eru mjög skyld þannig að mér sýndist að það væri kannski nóg að hafa annan þeirra í skólastjórninni og hafa námsráðgjafann í staðinn en ég veit það hins vegar að það er mjög algengt að námsráðgjafar sitji sem áheyrnarfulltrúar í skólastjórnum. Þetta var bara hugmynd sem ég var að velta vöngum yfir.
    Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það hefði þurft að huga mun fyrr að því að skapa skilyrði fyrir alla nemendur án tillits til námsgetu þeirra að eiga aðgang að framhaldsskólunum en það þarf auðvitað að gerast með góðum undirbúningi.
    Ég vil að lokum ítreka enn og aftur fyrirspurn mína til hæstv. forsrh. og hefði mjög gjarnan viljað fá svar frá honum við þeirri fyrirspurn sem ég beindi til hans. ( Forseti: Ég skal láta athuga hvort forsrh. er í húsinu.)
    Ég vil aðeins ítreka spurningu mína til hæstv. forsrh. sem ég bar hér fram fyrr í dag við umræðu þessa máls þar sem ég las upp bréf forsrh. frá 23. mars 1985, en vegna yfirlýsingar í þessu bréfi gengust kennarar inn á það að ganga inn í skólana þegar þeir höfðu sagt upp störfum sínum. Hér segir í lok bréfsins, með leyfi forseta:
    ,,Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar ber að skilja svo að ætlunin er að tryggja ríkisstarfsmönnum sömu heildarkjör og menn hafi sambærileg störf og ábyrgð, m.a. að dagvinnulaun verði hin sömu þegar borin eru saman laun sem eru fyrir fulla dagvinnu aðeins og tekið tillit til hlunninda hvers konar.``
    Nú vildi ég spyrja: Hvað líður þessum fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar? Þetta hlýtur að vera í gildi enn þá því að það eru þessar kröfur sem háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn eru að fara fram á núna í viðræðum við ríkisvaldið.