Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um leigubifreiðar, en það er á þskj. 798, 438. mál. Frv. þetta er samið á vegum samgrn. í samráði við helstu hagsmunaaðila. Gildandi lög um leigubifreiðar, lög nr. 36/1970, hafa staðið óbreytt í 19 ár að undanskilinni minni háttar breytingu á lögunum sem gerð var með lögum nr. 47/1988 og 66. gr. laga nr. 108/1988. Athugun á réttarstöðu leigubifreiðastjóra leiddi í ljós að heildarendurskoðun á lögunum var orðin tímabær.
    Vandamálin hafa verið leyst með sífelldum breytingum á reglugerðum um leigubifreiðar vegna þess að lögin hafa hvergi nærri verið nægjanlega fastmótuð og víðtæk. Það er árangur þessarar heildarendurskoðunar sem birtist í frv. Markmið frv. er, rétt eins og markmið laganna frá 1970, að koma góðri skipan á málefni leigubifreiðastjóra og að gæta hagsmuna almennings sem nýtur þjónustu leigubifreiða.
    Meginefni laga nr. 36/1970 svo og fyrri laga um sama efni eru heimildir til að takmarka fjölda leigubifreiða á viðkomandi svæðum, en þetta á við um fólksbifreiðar, vörubifreiðar og sendibifreiðar. Þróun mála hefur orðið misjöfn eftir því um hvaða flokk bifreiða er að ræða. Sendibifreiðar hafa í mjög fáum tilvikum notið takmörkunar þar sem stéttarfélög sendibifreiðastjóra hafa yfirleitt ekki óskað eftir takmörkun. Um vörubifreiðar gegnir öðru máli. Víðast hvar á landinu eru í gildi takmörkunarreglugerðir fyrir vörubifreiðar. Takmarkanir á fjölda sendibifreiða og vörubifreiða eru framkvæmdar með þeim hætti að taka ekki fleiri menn inn í félögin en reglugerð segir til um, þ.e. félögin sjálf ráða því hverjir bætast við í stéttina eða hversu margir öðlast rétt til að stunda leiguakstur á þessu sviði. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel hjá vörubifreiðastjórum, en minni reynsla hefur fengist af því hjá sendibifreiðastjórum.
    Framvinda mála hvað leiguaksturinn á fólksbifreiðum snertir hefur orðið með öðrum hætti. Þar eru takmörkunarreglugerðir í gildi hjá félögum sem staðsett eru í nokkrum hinna stærri kaupstaða, þar á meðal ein reglugerð fyrir höfuðborgarsvæðið í heild. Á hinn bóginn er takmörkun á fjölda fólksbifreiða til leiguaksturs ekki framkvæmd af stéttarfélögum fólksbifreiðastjóra heldur með útgáfu atvinnuleyfa sem opinberar nefndir annast á hverju félagssvæði. Þetta atvinnuleyfakerfi hefur tíðkast hjá fólksbifreiðastjórum allar götur síðan 1956 þegar takmörkunarreglur voru teknar upp, sbr. lög nr. 25 frá 1955. Þetta kerfi er nú orðið mjög fast í sessi og um það gilda ítarleg ákvæði í takmörkunarreglugerðum sem sífellt gerast flóknari.
    Í gildandi lögum um leigubifreiðar, lögum nr. 36/1970, segir ákaflega lítið um hvernig takmörkun á fjölda leigubifreiða skuli hrundið í framkvæmd, þ.e. hvort félögin eigi að gera það sjálf eða opinberar nefndir eigi að gera það með útgáfu atvinnuleyfa. Í lögunum segir aðeins að með reglugerð skuli kveðið á um ráðstöfun atvinnuleyfa, enda verði fyrir það girt að leyfin geti orðið verslunarvara. Að þessu leyti eru

lögin ófullkomin og í reynd á eftir tímanum. Lögin hafa þó ætíð verið skilin á þann veg að þau útiloki ekki takmörkun á fjölda leigubifreiða án atvinnuleyfa svo sem tíðkast hefur með vörubifreiðar og sendibifreiðar.
    Nauðsynlegt er að lögfesta skýr ákvæði um þær takmörkunaraðferðir sem þróast hafa og ekki er ástæða til að bregða út af í meginatriðum. Á það ber einnig að líta að atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða er mjög eftirsótt og leyfishafar líta á þau sem mikilvæg persónuleg réttindi. Því er mjög æskilegt að setja í lög glöggar grundvallarreglur um atvinnuleyfin, en láta þar eigi reglugerðarákvæðin ein nægja. Þannig má líka forðast deilur um hvort reglugerðarákvæði um atvinnuleyfi eigi næga stoð í lögum, en deilur um þetta efni hafa nokkrum sinnum orðið tilefni dómsmála.
    Umboðsmaður Alþingis, sem hefur að gefnu tilefni gert nokkra athugun á atvinnuleyfamálum fólksbifreiðastjóra, segir í bréfi til samgrh. dags. 13. okt. 1988, með leyfi forseta:
    ,,Af því tilefni tek ég enn fremur fram að ég tel ástæðu til að lög um leigubifreiðaakstur verði tekin til rækilegrar endurskoðunar í heild. Í þessari endurskoðun verði m.a. fjallað um það hvaða skilyrðum menn þurfa að fullnægja til þess að geta fengið og haldið leyfum til leigubifreiðaaksturs, og um nýtingu slíkra atvinnuleyfa.``
    Ýmis fleiri atriði en hér að framan greinir kalla á endurskoðun laga um leigubifreiðar og skal í því efni vísað til helstu nýmæla sem frv. felur í sér, en þau eru:
    Leiguakstur fólksbifreiða, vörubifreiða og sendibifreiða er skilgreindur, sbr. 1. gr. og I. kafla frv. Í gildandi lögum er aðeins skilgreindur leiguakstur vörubifreiða. Þá er gerður greinarmunur á framkvæmd takmörkunar eftir því hvort um er að tefla annars vegar vörubifreiðar og sendibifreiðar eða hins vegar fólksbifreiðar. Með þessu er venjubundin framkvæmd mála staðfest. Bifreiðastjórar sem njóta þess að fjöldi leigubifreiða í atvinnugrein þeirra er takmarkaður eru skyldaðir til að vera félagsmenn í einu
og sama stéttarfélagi á viðkomandi svæði. Gert er þó ráð fyrir því og að því mun vikið að heimilt sé að veita tímabundna undanþágu frá þessu ákvæði til aðlögunar vegna þeirra svæða þar sem annað fyrirkomulag hefur tíðkast. Grundvallarreglur eru settar um atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða en þær hefur alveg skort í gildandi lögum. Í því efni er tekið mið af tilmælum umboðsmanns Alþingis. Þá er skýrt fram tekið að þeim sem ekki hafa atvinnuleyfi sé bannað að taka að sér að stunda leiguakstur á fólki. Þetta er nauðsynlegt til að veita leyfishöfum viðunandi réttarvernd. Sett eru skilyrði fyrir því að geta öðlast atvinnuleyfi og haldið því og eru þau nokkru víðtækari en tíðkast hafa í reglugerðum. Veitt er heimild til að halda námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða og til að auka hæfni umsækjenda og framkvæma síðan faglegt mat á hæfni þeirra með prófum. Lagt er til að

atvinnuleyfi falli úr gildi við 70 ára aldur atvinnuleyfishafa, en heimilt verði að hækka þetta aldursmark í allt að 75 ár með reglugerð. Sett eru ákvæði um skipan og hlutverk umsjónarnefndar sem áður voru eingöngu í reglugerð. Jafnframt eru gerðar nokkrar efnisbreytingar á þessum ákvæðum. Kveðið er á um skyldu til að hafa gjaldmæla í leigubifreiðum, þ.e. fólksbifreiðum og sendibifreiðum. Ákvæði um þetta efni voru nýlega felld brott úr umferðarlögum þar sem þau voru talin eiga betur heima í lögum um leigubifreiðar.
    Þá er gert ráð fyrir að samgrn. setji í framhaldi af lagasetningunni tvær reglugerðir um nánari framkvæmd laganna, aðra fyrir fólksbifreiðar en hina fyrir vörubifreiðar og sendibifreiðar. Þá er einnig ætlunin að hætta útgáfu svæðisbundinna reglugerða og styðjast við almennar reglugerðir sem taki til landsins alls, en vegna hinna fjölmörgu svæðisbundnu reglugerða hefur skort á samræmi hluta á þessu sviði.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., en vísa að öðru leyti til greinargerðar frv. þar sem aðdragandi málsins er rakinn og öll helstu efnisatriði skýrð frekar en ég hef gert hér í stuttri framsöguræðu. Ég vænti þess að hv. deild og hv. Alþingi sjái sér fært að afgreiða þetta mál þannig að það geti orðið að lögum á þessu þingi. Stutt vera mín í samgrn. hefur mjög sannfært mig um það að það sé mikil þörf á að koma fastmótaðri skipan á þessi mál og setja þar skýrari reglur í lög þannig að ekki þurfi að styðjast við endalaus reglugerðarákvæði sem sum hver kunna að hafa veika stoð í þeim gömlu lögum sem við höfum búið við á þessu sviði og augljóslega þarfnast sárlega endurskoðunar, enda væri annað óeðlilegt jafnmikil breyting og orðið hefur á aðstæðum öllum á gildistíma núgildandi laga. Má þar nefna bæði almennar breytingar, fólksfjölgun hér á höfuðborgarsvæðinu og ýmislegt fleira sem gerir að verkum að óhjákvæmilegt er að taka þessi málefni fastari tökum. Niðurstaðan varð reyndar sú eftir tiltölulega skamma skoðun á þessum málum sl. haust að enn ein reglugerðarútgáfan mundi ekki ná takmarki sínu og koma þeirri skipan á þessi mál sem nauðsynlegt væri heldur dygði ekkert minna til en heildarendurskoðun laganna sem hér liggur svo fyrir. Og þó um heildarendurskoðun sé að ræða er þetta ekki meiri lagabálkur en svo að ég bind miklar vonir við að hv. Alþingi sjái sér fært að afgreiða þetta mál og gera að lögum á yfirstandandi þingi.
    Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.