Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Mig langar til að gera eitt atriði í þessu frv. sérstaklega að umtalsefni þó svo færa megi rök fyrir því að ýmis önnur atriði þess að því er varða takmarkanir á leyfum til leiguaksturs séu óþörf.
    Ég ætla hins vegar ekki að gera neinar athugasemdir við þau ákvæði og þá reynslu sem af því er fengin að takmarka réttindi manna til leiguaksturs við úthlutanir tiltekinna leyfa heldur hyggst ég víkja að ákvæði 5. gr. frv. um skyldu manna til að vera í sama stéttarfélagi á ákveðnu félagssvæði.
    Ráðherra vék að þessu atriði í framsögu sinni og lét þess jafnframt getið að í 14. gr. frv. er ákvæði þar sem gert er ráð fyrir því að heimilt sé að láta aðra skipan mála haldast til bráðabirgða að því er þetta varðar á tilteknu svæði eftir nánari fyrirmælum í reglugerð. Reyndar segir einnig í 8. gr. frv. að það sé eitt af skilyrðum til að geta öðlast atvinnuleyfi að menn séu félagsmenn í hlutaðeigandi stéttarfélagi fólksbifreiðastjóra eða sæki um inngöngu í það.
    Ég tel að hér sé verið að leggja óþarfa hömlur á félagafrelsi manna með því að gera þeim sem þessi leyfi fá skylt að vera í ákveðnum stéttarfélögum. Ég tel að það séu engin almannaheill sem knýi á um það að eftir að menn hafi fengið þessi leyfi --- og að því gefnu að það fyrirkomulag sem verið hefur í þeim efnum haldist --- það sé engin nauðsyn sem knýi á um að skylda aðila, hugsanlega gegn vilja sínum, til þess að vera í ákveðnu stéttarfélagi.
    Hins vegar tel ég nokkuð augljóst að langflestir ef ekki allir þeir sem hér eiga hlut að máli telji hagsmunum sínum best borgið með því að vera í slíku stéttarfélagi og væntanlega þá aðeins í einu félagi. Ég hygg að niðurstaðan yrði sú samkvæmt frjálsu vali manna sem hér eiga hlut að máli. Ef einhverjir hins vegar telja það ekki þjóna sínum hagsmunum að vera í slíku félagi eiga þeir auðvitað að hafa rétt til þess að hafna slíkri aðild.
    Því nefni ég þetta að ástæðan fyrir þessu ákvæði í frv. er eflaust málaferli sem stofnað var til fyrir nokkru og dómur upp kveðinn í Hæstarétti í desembermánuði sl. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki andstætt stjórnarskránni að lögbinda skylduaðild að félögum. Hins vegar taldi Hæstiréttur í því máli sem þar var um að ræða að í því tilfelli hafi ekki verið fyrir hendi lagaheimild til slíkrar skyldu þar sem skylduaðildin byggðist á reglugerðarákvæði en ekki lagaheimild.
    Ég tel að vísu mjög umdeilanlegt hvort stjórnarskráin íslenska geti heimilað umrædda skylduaðild að nokkrum félögum. Ég vitna í því sambandi m.a. til ákvæða í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem segir í 20. gr., með leyfi forseta: ,,Engan mann má neyða til að vera í félagi.`` Sambærileg ákvæði er að finna í mannréttindasáttmála Evrópuráðsins. Þó svo að þessir samningar hafi ekki lagagildi á Íslandi höfum við engu að síður tekið undir þessi ákvæði með aðild okkar að þessum samningum. Ég hygg að það hljóti að vera gagnkvæm

réttindi allra frjálsborinna manna annars vegar að gerast aðilar að félögum og bindast samtökum um að verja sína hagsmuni og hins vegar að taka ekki þátt í stofnun félaga og standa utan við félagasamtök ef menn telja það betur þjóna sínum hagsmunum.
    Frelsið til að stofna félög með öðrum um áhuga- og baráttumál sín er mjög mikils virði, en það hlýtur jafnframt að vera nokkurs virði að vera ekki skyldaður til þátttöku í félagi, ekki síst ef menn telja að það félag berjist gegn hagsmunum sínum eða gangi með öðrum hætti ekki erinda sem viðkomandi eru þóknanleg. Mér sýnist að hérna sé nokkuð rökrétt samhengi á milli. Auðvitað er þetta miklu meira og stærra mál en varðar þetta tiltekna frv. Þetta er mál sem hefur miklu víðara samhengi og snertir miklu fleiri þætti í samfélaginu en hér er verið um að ræða. Ég á ekki von á að það muni í sjálfu sér hafa mjög mikla ,,praktíska`` þýðingu hvort það ákvæði sem ég hef gert að umtalsefni nær fram að ganga eða ekki.
    En ég tel að hér sé um að ræða töluvert prinsippmál sem er ástæða til að gera að umtalsefni af þessu gefna tilefni. Ég tek það fram að það stéttarfélag sem hér er um að ræða, leigubifreiðastjórafélagið Frami í Reykjavík, er aukaatriði að þessu leyti þó að t.d. það dómsmál sem ég gerði að umtalsefni hafi snert það félag. Hér er um að ræða ákveðin grundvallaratriði, grundvallarmannréttindi, sem snerta rétt manna til þátttöku í félagi og rétt manna til að hafna þátttöku í félagi.
    Í Stjórnskipun Íslands, eftir Ólaf heitinn Jóhannesson, er nokkuð vikið að félagafrelsi og þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Þó að almennt sé viðurkennt að félagafrelsi sé óhjákvæmilegt skilyrði fyrir lýðræðisstjórnarháttum er því ekki að neita að ýmsum þykir sem félagasamtök, einkanlega hagsmunasamtök stétta, séu orðin eins konar ríki í ríkinu og þykir sumum sem þau séu orðin ofjarl ríkisvaldsins. Er sú þróun orðin mörgum mönnum áhyggjuefni.``
    Það er gamalt umræðuefni og eflaust deiluefni hvernig túlka beri ákvæði ýmissa annarra laga um svokallaða skylduaðild að félögum. Ef menn túlka það svo í öðrum lögum um einhver önnur málefni að þar sé um að ræða skylduaðild
tel ég slíkt rangt og að slíkum lögum eigi þá að breyta. Ég tel að það sé ekki röksemd fyrir að taka upp slík ákvæði í lög um leigubifreiðastjóra að þannig sé t.d. háttað um Stéttarsamband bænda eða önnur slík samtök. Ég tel að það ætti frekar að snúa sér að því að innleiða félagafrelsið á þeim vettvangi þar sem slík ákvæði kunna að vera fyrir hendi.
    Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti, um þessi atriði. Mér er ljóst að um þetta eru skiptar skoðanir. Ég þykist vita að þau stéttarfélög sem eiga hlut að máli varðandi þetta frv. leggi áherslu á ákvæðin eins og þau eru í frv. En ég tel að hér séu hins vegar aðrir og ríkari hagsmunir á ferðinni, þ.e. þau tilteknu mannréttindi að geta sjálfur valið sér þau félög sem menn kjósa að eiga aðild að, og ég tel að þeir

hagsmunir séu ríkari og vegi þyngra í þessu máli.
    Að öðru leyti ætla ég aðeins í lokin, herra forseti, að vekja athygli á tveimur bréfum sem þingmönnum hafa borist um þetta frv. Annað er frá launþegum starfandi við leigubifreiðaakstur þar sem þeir telja hugsanlega hagsmunum sínum ekki nægjanlega vel borgið í þessu frv. Hitt er bréf sem borist hefur ásamt ljósriti af tilmælum frá umboðsmanni Alþingis að því er varðar skýr mörk í verkaskiptingu leigubifreiðastjóra og sendibifreiðastjóra. Nú hef ég ekki haft aðstöðu til að taka afstöðu til þessara bréfa. Ég vænti þess að þó að hæstv. samgrh. leggi áherslu á að hraða afgreiðslu málsins gefi samgöngunefnd sér tóm til að kanna þessi tvö erindi sem þingmönnum hafa borist, auk þess sem ég legg að sjálfsögðu ríka áherslu á það að þeim ákvæðum sem ég hef hér gert að umtalsefni, einkum í 5. og 8. gr., verði breytt.