Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ég tek undir með hæstv. samgrh. að það er tímabært að taka til heildarendurskoðunar þessi lög og hygg að hann sé með um margt ágætt frv., en ég vil þó gera að umræðuefni eins og tvö atriði í frv.
    Það er í fyrsta lagi þar sem kemur að því í 8. gr. að þeir einir sem fullnægja tilgreindum skilyrðum geti öðlast atvinnuleyfi. Þar segir í 4. lið ,,hafa fullnægjandi heilbrigðisvottorð``. Mig langaði að spyrja hvað felist í þessari kröfu. Nú er það svo að margir sem þessa atvinnu stunda búa við skerta heilsu og orku að takmörkuðu leyti, en hafa alla burði og hafa reynst þrátt fyrir það vel í þessu starfi, að aka leigubifreið. Þýðir þessi krafa að nú standi til að vísa þessu fólki frá þessum störfum ef það býr við skerta orku að einhverju leyti eða er hér átt við að menn séu ekki með smitandi sjúkdóm eða með einhvern þann bráðasjúkdóm að hætta stafi af? Um þetta vildi ég spyrja.
    Síðara atriðið sem ég vildi minnast á við þessa umræðu er í 9. gr., en þar stendur: ,,Atvinnuleyfi fellur úr gildi við andlát leyfishafa. Þó má dánarbú hans eða eftirlifandi maki nýta leyfið í eitt ár þar á eftir.`` Ég hygg að hér sé um allmikla styttingu á tímanum að ræða. Ég hygg að það hafi verið þrjú eða fjögur ár í gildandi lögum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé fullstuttur tími sem eftirlifandi maki hafi í þessu tilfelli, eitt ár.
    Í þriðja lagi vildi ég minnast á V. kaflann og 10. gr., en þar er rætt um skipun umsjónarnefnda fólksbifreiða. Þar er um allverulega breytingu að ræða þar sem nú er lagt til að í þessum nefndum verði eingöngu þrír menn en voru t.d. á höfuðborgarsvæðinu fimm áður: ,,Hver nefnd skal skipuð þremur mönnum. Hlutaðeigandi stéttarfélag fólksbifreiðastjóra tilnefnir einn nefndarmann, annan tilnefnir Samband ísl. sveitarfélga og hinn þriðja skipar ráðherra án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar.`` Þarna eru sem sagt tveir felldir út, fulltrúi launþega og fulltrúi sveitarfélagsins.
    Nú er það svo að t.d. á þessu svæði eru líklega af 600 leigubílstjórum einir 150 launþegar sem stunda þennan akstur að atvinnu. Ég tel að þarna sé gengið á tillögurétt þessara manna. Fyrir utan að fella eigi burtu fulltrúa sveitarfélagsins er ég þeirrar skoðunar að við séum í sífellu að hverfa að miðstýringu, að þeir aðilar sem þessum málum ráði séu allfjarri vettvangi. Ég tel miklu eðlilegra að viðkomandi sveitarfélag skipi fulltrúa í þessa nefnd. Ég sé ekki að það sé stór munur á nefndum hvort þær séu þriggja eða fimm manna hvað hraða í störfum varðar. Ég teldi eðlilegt að hér væri um fimm manna nefnd að ræða, að áfram ættu launþegar fulltrúa í þessum nefndum svo og viðkomandi sveitarfélög.
    Ég verð að segja að þó að svæðið nái yfir fleiri en eitt sveitarfélag vorkenni ég mönnum ekki mikið í sveitarstjórnum að tala saman og koma sér saman um fulltrúa í slíka nefnd. Ég sé ekki að menn þurfi hér á Alþingi að taka þann kaleik af sveitarstjórnunum eða telja að það sé til bölvunar og valdi deilum.

    Það eru þessi atriði sem ég vildi minna á og biðja hv. samgn. að taka til athugunar í sínum störfum þegar hún fer yfir frv.