Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég gleymdi einu atriði áðan í máli mínu. Það er í sambandi við 10. gr. Þar stendur: ,,Samgrh. skipar umsjónarnefndir fólksbifreiða.`` Það er ekki nefnt neitt um tímamörk í því efni. Er það á meðan menn lifa eða til hve langs tíma á að skipa þessa nefnd? Þarf ekki að huga að því atriði í væntanlegum lögum? Ég fann það ekki í frv.
    Ég sagði ekki að það væri verið að breyta lögum í þessu efni. Það er verið að semja hér frv. sem á að verða að lögum sem er að breyta þeim starfsreglum sem hefur verið farið eftir í þessu máli í nokkrum tilvikum. Það er málið. Ég fagna því að hæstv. samgrh. ætlar að reyna að beita sér fyrir því að leysa málið með því að setja bráðabirgðaákvæði. Ég er ekki alveg ánægður með það en tel það út af fyrir sig ásættanlega lausn. En með þó einu skilyrði. Það er að á sama tíma hafi launþegarnir mann í nefndinni. Það er ekki hægt að bjóða þeim upp á að þeir fái ekki að fylgjast með hvernig er unnið að þessum málum. Það er sýnilegt að félagið t.d. í Reykjavík, Frami, setur þá hjá. Þeir eru aukaaðilar. Þeir hafa að vísu málfrelsi og tillögurétt, en svo er það búið.
    Ég vil með fullri vinsemd biðja hæstv. ráðherra að hugleiða þessi mál aðeins betur. Það er alveg rétt að það er mikill draugagangur í kringum þetta mál. Það var það í haust. Ég varð heldur betur var við það líka. Þá var verið að tala um að setja reglugerð, en sum af þeim atriðum sem þeir voru að reyna að hafa áhrif á og telja sig hafa fengið vilyrði fyrir eru komin inn í þetta frv. Það er málið.
    Í sambandi við 9. gr., þ.e. að atvinnuleyfi fellur úr gildi við andlát leyfishafa, þá held ég að eiginlega þyrfti að vera þarna ákvæði um að þetta væri metið, jafnvel hverju sinni. Það er oft og tíðum sem kannski ekki er ástæða til þess að atvinnuleyfið sé áfram. Það er ekki alveg augljóst mál. En ef fyrirvinna fjölskyldu fellur frá og þessi fjölskylda hefur kannski ung börn er hastarlegt að svipta hana möguleika á því að halda rekstrarleyfinu á meðan hún er að komast yfir erfiðasta hjallann. T.d. ef þannig er ástatt að þessi fyrirvinna er með fleiri börn, fleiri en eitt barn a.m.k. Ég vil að það sé litið á mannlega þáttinn í þessu líka og það sé haft til hliðsjónar.
    Ég ætla ekki að hafa þetta fleiri orð, en ég vænti þess að þetta verði skoðað og reynt að leysa málið án átaka og ég vona að ég þurfi ekki að koma með brtt. við 2. umr. við þetta mál.