Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Landbúnaðaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Það er líka einlæg von mín að við getum náð sem mestu og víðtækustu samkomulagi um frv. Það varðar miklu, ekki síst þegar viðkvæm hagsmunamál fjölmennra hópa úti í þjóðfélaginu eiga í hlut, að Alþingi nái að standa sem mest saman um afgreiðslu þeirra mála.
    Ég minnist frá fyrri árum, ég leyfi mér að taka svo til orða, er orðinn svo gamall, þegar við hv. 6. þm. Norðurl. e. vorum að vinna í málum sem tengdust réttindum skipstjórnarmanna. Þar voru líka mjög viðkvæm mál á ferð. Það reyndist nauðsynlegt að taka af skarið þar í ákveðnum hlutum, en það er líka nauðsynlegt að reyna að gera það af mildi og leggja sig eftir því að ná samkomulagi, um það erum við örugglega alveg hjartanlega sammála. Þess vegna er ég meira en fús til og skal beita mér fyrir því að það verði farið vandlega yfir allar þær ábendingar og athugasemdir sem hafa komið fram í umræðunni sem og erindi utan úr þjóðfélaginu frá hagsmunaaðilum þrátt fyrir að ég telji að frv. hafi í undirbúningsvinnunni verið unnið af mikilli samviskusemi og reynt að taka tillit til sem allra flestra sjónarmiða. (Gripið fram í.) Nei, það er svo að engir eru alvitrir og ekki einu sinni í samgrn. þó að það fari nærri því.
    En varðandi ákvæði 10. gr. er það hárrétt hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að þar eru ekki tímaákvæði hvað varðar starfstíma umsjónarnefndanna. Það er sjálfsagt að athuga hvort ekki sé eðlilegt að það komi inn í lögin eða hvort nægjanlegt sé að vísa til þess að í reglugerð skuli kveðið nánar á um starfssvið umsjónarnefndanna. Þar gætu komið inn ákvæði um tímalengd þeirra eða hversu lengi þær skyldu starfa hverju sinni.
    Í sambandi við að bráðabirgðaákvæði verði sett til að tryggja réttarstöðu þeirra leiguliða sem nú eru starfandi og hafa starfsreynslu, þá er sjálfsagt að athuga þar með hvort þeir eigi ekki jafnframt að fá þá aðild að því þegar leyfum verður úthlutað á þeim grundvelli.
    Að síðustu varðandi ákvæði 9. gr. um að eftirlifandi maka eða dánarbúi sé heimilt að nýta atvinnuleyfi við andlát leyfishafa. Þau vandamál sem þar er fyrst og fremst við að glíma eru bundin af ákvæðum 7. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Atvinnuleyfi er bundið við nafn. Leyfishafa er óheimilt að selja atvinnuleyfi, leigja það út eða ráðstafa því á annan hátt.``
    Hér er auðvitað verið að tryggja eins og kostur er að atvinnuleyfið sjálft sem slíkt verði mönnum ekki að féþúfu ef svo má að orði komast, að menn selji það ekki, leigi það eða geri út á það eða ráðstafi því um langan tíma með óeðlilegum hætti. Leyfið er bundið einstaklingi og eru starfsréttindi hans. (Gripið fram í.) Já, síðan kemur að því sem við ræddum áður um þær aðstæður sem upp koma þegar leyfishafi fellur frá og hafi hann verið fyrirvinna sinnar fjölskyldu o.s.frv. er eins og reyndar hér er gert ráð fyrir nauðsynlegt að gefa þar tiltekinn aðlögunartíma.

Okkar er í raun það vandasama verkefni að skilgreina hversu langur hann á að vera.