Vörsluskylda búfjár á Reykjanesskaga
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. sem er ekki ýkja mikið að vöxtum, en á sér þó nokkurn aðdraganda og þó nokkra sögu, sem sagt þá að um langan tíma hefur verið á því mikill áhugi að takmarka lausagöngu búfjár hér á landsvæðunum í kringum höfuðborgarsvæðið og á Reykjanesskaganum. Fjöldamargar samþykktir og ályktanir hafa á undanförnum árum og áratugum verið gerðar í þessu sambandi. Þannig má minna á að sýslunefnd Gullbringusýsu hefur oftar en einu sinni ályktað um þetta efni, síðast 7. júlí 1988. Þá var samþykkt svohljóðandi tillaga þar, með leyfi forseta:
    ,,Sýslunefnd Gullbringusýslu skorar ítrekað á stjórnvöld að beita sér fyrir því að Gullbringusýsla verði friðuð fyrir lausagöngu búfjár. Sýslunefnd Gullbringusýslu vill vekja athygli á því að samkvæmt afsalsbréfi landbrh. dags. 29. september 1941 er sýslunefnd Gullbringusýslu eigandi að beitarrétti í landi Krýsuvíkur.`` Þar með þykist sýslunefndin hafa nokkuð um það mál að segja sem eðlilegt má telja.
    Í samræmi við þessa framangreindu tillögu sýslunefndarinnar skrifaði landgræðslustjóri landbrn. bréf 28. júlí 1988 og gaf þá út eftirfarandi umsögn, með leyfi forseta:
    ,,Mál þetta er mjög athyglisvert og brýnt, þar sem ástand gróðurs á Reykjanesi er yfirleitt óviðunandi og þrátt fyrir verulega fækkun sauðfjár á þessu svæði kemur sauðfjárbeitin í veg fyrir að gróðri fari þar fram sem skyldi. Verst er ástandið í útlandi Krýsuvíkur og þarfnast það svæði tafarlausrar friðunar. Ljóst er að ef unnt verður að framkvæma bann við lausagöngu búfjár á umræddu svæði væri það fordæmi fyrir fleiri slíkar aðgerðir sem því miður er víða þörf á.
    Það er brýnt að taka mál þetta föstum tökum og ná víðtækri samstöðu um aðgerðir. Starfsmenn stofnunarinnar eru reiðubúnir til þess að starfa með landbrn. að framgangi þessa máls.``
    Ég ætla ekki að rekja sögu þessa máls frekar. Ég bæti því þó við að ýmsir fleiri aðilar, svo sem Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og félagasamtök hafa ályktað í sambærilega veru og það er líka mikill áhugi á þessu efni hjá skógræktarfélögum sem eru með starfsemi á svæðinu, ýmsum útvistarfélögum og fleiri aðilum.
    Búfjárhald á þessu landsvæði hefur nokkra sérstöðu. Það heyrir til undantekninga að fjölskyldur hafi eina lífsviðurværi sitt af sauðfjárbúskap og fjárfjöldi er ekki orðinn meiri en svo að það á að vera mjög viðráðanlegt með viðráðanlegum kostnaði að gera þær ráðstafanir sem þarf til þess að það búfjárhald sem er á svæðinu geti árekstralaust haldið áfram á þar til afgirtum svæðum án þess að um lausagöngu á öllu svæðinu sé að ræða. Það er einmitt meginefni frv. að kveða á um bann við lausagöngu eða kveða á um vörsluskyldu búpenings á Reykjanesskaga vestan girðingar sem lögð yrði úr

höfuðborgarsvæðinu við svonefnt Kaldársel um Kleifarvatn og í sjó við Krýsuvík. Þá yrði skylt að hafa allt búfé, eins og segir í 1. gr. frv., á þessu svæði, sem ekki væri geymt í húsum, í öruggri vörslu á landi viðkomandi eigenda eða innan sérstakra beitarhólfa allt árið. Síðan er vikið að því að girðingar skuli verða löggirðingar o.s.frv.
    Þetta er við að bæta að í landbrn. eða á vegum þess hefur starfað nefnd og hefur hennar hlutverk verið að reyna að ná samkomulagi um tilhögun búfjárhaldsins ef af þessari takmörkun á lausagöngu yrði og nefndin hefur fundað með búfjáreigendum og sveitarfélögum á svæðinu. Þar eiga einkum í hlut þrjú sveitarfélög, Hafnarfjörður, Vatnsleysustrandarhreppur og Grindavík. Ég held að fullyrða megi að góðar vonir standi til þess að samkomulag geti tekist við alla þessa aðila um tilhögun búfjárhalds á svæðinu innan sérstakra beitarhólfa sem Landgræðsla ríkisins, Vegagerðin, landbrn. og fleiri aðilar muni standa að að koma upp og halda síðan við, e.t.v. í samstarfi við samtök sveitarfélaganna á svæðinu. Ég held að það væri ánægjulegur áfangi í þessum efnum ef þessar framkvæmdir ná fram að ganga. Lagasetningin er fyrst og fremst að mínu mati nauðsynleg til að leggja þessa almennu kvöð á, ekki bara gagnvart nútíðinni og líðandi stund heldur og gagnvart framtíðinni þannig að þeir sem vilja hafa búpening sér til ánægju og yndisauka eða e.t.v. viðurværis í framtíðinni á þessu svæði viti að hverju þeir ganga að því er varðar þessa vörsluskyldu.
    Þetta mun einnig geta haft tiltekin áhrif á réttarstöðu þeirra sem eiga búpeninginn og er líka eðlilegt. Um þá aðila, sem vonandi ná fullu samkomulagi um framkvæmd þessara mála nú um stundir, getur orðið breyting á, nýir komið til og aðrir horfið í burtu. M.a. þess vegna er nauðsynlegt að festa þessa breytingu í sessi með varanlegum hætti og í raun og veru dugar lagasetning ein til.
    Það er alveg ljóst að því mun fylgja nokkur kostnaður að koma til móts við óskir fjáreigenda á þessu svæði og ýmsum mun þykja nokkuð í lagt þegar reiknaðar verða út og metnar til kostnaðar þær girðingar sem mun að líkindum þurfa til að ná um þetta mál samkomulagi. En ég hygg að þeim fjármunum sé vel
varið ef takast megi að koma þessari breytingu á í sæmilegum friði þannig að allir geti vel við unað. Að því hefur sem sagt verið unnið og það er einlæg von mín að það takist og þá megi áform sem lengi hafa verið rædd um takmarkanir og lausagöngu á þessu landsvæði ná fram að ganga, en eins og menn sjá er í 4. gr. frv. gert ráð fyrir gildistöku laganna 1. janúar 1990.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég svo til að málinu verði vísað til hv. landbn.