Vörsluskylda búfjár á Reykjanesskaga
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég skal ekki tefja umræður. Mig langar aðeins til að koma augnablik inn í þessar umræður hér. Auðvitað er það alveg ljóst og ég tel það að sjálfsögðu nauðsynlegt að herða aðhald að búfjárhaldi á Reykjanesi. Við þurfum ekki annað en að horfa bara á svæðið, hvað fer þar fram. Það er flugvöllurinn, alþjóðaflugvöllur með öllu því brölti sem er í kringum hann og herstöð og annað slíkt og síðan er hraðbrautin og blasir augljóslega við að búfjárbeit á þessu svæði er augljóslega stórhættulegt atriði sem ætti fyrir löngu að vera búið að stemma stigu við. Í þriðja lagi er náttúrlega alveg ljóst að hvað sem við segjum um fjölda fjár o.s.frv. er ekkert óeðlilegt að farið verði að athuga það í raun og veru að leggja niður a.m.k. ræktun sauðfjár á þeim svæðum sem síst eru til þess fallin og ég veit eiginlega ekki hvernig stendur á því að vinur minn Guðni Ágústsson fær svona mikinn þunga á dilkum þarna því að aldrei sé ég þarna nema mjög rýrar skepnur í kringum Reykjanesbrautina.
    Það var nú ekki þetta sem ég ætlaði að tala um þó að ég bæti því við að það getur vel verið að það sé e.t.v. furðulegt að bera fram frv. eða ætla að setja sérlög endilega um þetta atriði. Þess vegna verður manni fyrst í hug af hverju ekki er hægt að ná samkomulagi við aðila á svæðinu um að framkvæma úrbætur eða fella niður búskap á þessu svæði með því að gera þá aðrar ráðstafanir til þess að bæta þeim þá breytingu sem því kann að fylgja.
    Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um eitt vegna þess að í landbn. Nd. er einmitt frv. til laga um breytingu á búfjárræktarlögum sem hv. 5. þm. Suðurl. benti réttilega á. Það er frv. sem ég skildi sem formaður nefndarinnar að við ættum að reyna að ná samkomulagi um að drífa í gegnum þingið áður en því lýkur. Það er samkomulagsmál að því leyti til að fulltrúar bænda hafa mælt með því eins og segir í ályktun búnaðarþings 1989 og í raun og veru er það kjarni málsins að þarna er verið að herða á vissum þáttum í þessum málum með því að veita öryggi sem mér skilst að sé það sem skiptir höfuðmáli að því er varðar Reykjanesskaga, að sveitarstjórnum er samkvæmt þessu nýja frv. heimilt, til að auka öryggi umferðar á þjóðvegum og hindra ágang búfjár, að ákveða að eigendum búfjár, þ.e. sauðfjár, geita, nautgripa og hrossa sé skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins. Heimild þessi er víðtæk, hún nær til annaðhvort alls lögsagnarumdæmisins eða tiltekins hluta umdæmisins eftir því sem menn álíta hentugast að koma þessum málum í öryggi. Ég vil einnig benda á það að í gildi eru í landinu lög nr. 44/1964, um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum. Það er víða farið stíft eftir þeim lögum, þau veita að hluta til þetta öryggi þó að þau séu umdeild. Það hefur ekki tekist á undanförnum árum að endurskoða þessi lög þannig að þau yrðu enn þá víðtækari og með enn þá meiri heimildir til að setja skorður við búfjárhaldi í þéttbýli, en mér skilst að þetta frv., 373. mál Nd. á þskj. 703, geri þetta

virkara ef að lögum verður. Mér finnst því spurning hvort endilega þarf að gera þetta frv. að lögum sem hér er verið að fjalla um ef hitt verður að lögum á þessu þingi. En ég skildi það svo að þetta mál, sem ég var að lýsa nú, hefði forgang hér í gegnum þingið og alla vega túlka ég það þannig í landbn. Nd.