Vörsluskylda búfjár á Reykjanesskaga
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Svo ég víki fyrst að máli síðasta ræðumanns þá er það vissulega rétt að það frv. um breytingar á búfjárræktarlögum sem hann nefndi mundi fela í sér til handa einstökum sveitarfélögum svæðisins sambærilega heimild og hér er í raun og veru verið að lögfesta gagnvart öllu svæðinu. Sá er kannski fyrst og fremst munurinn á að lögin um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum eins og þau eru duga ekki í þessu tilviki þar sem sveitarhreppar eiga einnig hlut að máli. Þó svo að frv. til breytingar á búfjárræktarlögunum, hið fyrra af tveimur sem reyndar hefur verið lagt fram á þessu þingi, yrði lögfest, þá væri þar fyrst og fremst um heimildir til handa hverju og einu sveitarfélagi að ræða. Vissulega væri svo hægt að hugsa sér að þau næðu að koma sér öll saman um aðgerð af þessu tagi, og þá ekki einungis innan Gullbringusýslu heldur yfir fleiri sýslur sem hér eiga hlut að máli þar sem hluti af landi Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Bessastaðahrepps falla hér einnig undir.
    En hér hefur orðið hin fróðlegasta umræða. Að vísu óttast ég að hv. 1. þm. Reykn. hafi ofurlítið misskilið mitt mál út frá því hvernig hann hagaði orðum sínum. Ég var einmitt að reyna að rekja það að góðar vonir stæðu til þess að fullt samkomulag tækist um framkvæmd þessara aðgerða og nefndi þar til þau sveitarfélög sem aðallega eiga hlut að máli vegna þess að um búfjárhald, eitthvert umtalsvert búfjárhald er þar að ræða, þ.e. í Hafnarfirði, Vatnsleysustrandarhreppi og Grindavík. Þegar hefur verið gengið frá bráðabirgðasamkomulagi við Hafnfirðinga um tilhögun búfjárhalds á þeirra vegum. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur ákveðið að reyna að takmarka sauðfjárfjöldann við 300 fjár og taka þátt í að girða sérstakt beitarhólf í Krýsuvík fyrir sauðfé Hafnfirðinga og það rúmast innan þeirrar áætlunar sem hér er á ferðinni. Sömuleiðis liggur nánast fyrir samkomulag við Vatnsleysustrandarhrepp um tiltekið beitarhólf. Reyndar var beitarhólf fyrir vor- og haustbeit, sem þeir nýta sér, girt á sl. ári og Landgræðslan tekur þátt í að reka og bera á og væntanlegt beitarhólf á miðjum skaganum, sem yrði þá sameiginlega til afnota fyrir fé Vatnsleysustrandarhrepps og Grindvíkinga, kemur að fullu til móts við óskir þær sem sauðfjáreigendur á Vatnsleysuströnd hafa að mér er tjáð. Þannig á ekkert að vera í veginum hvað samkomulag snertir gagnvart þeim. Þá eru Grindvíkingar einir eftir og það er ekki launungarmál að mestur tími hefur farið í að ræða þeirra hagsmuni í þessu sambandi en ég hef góðar vonir um að nú hafi fundist lausn sem þeir geta sætt sig við og felur í sér allstórt beitarhólf á miðjum skaganum sem staðsett yrði samkvæmt nánari ákvörðun heimamanna og í samráði við Landgræðsluna og þá eftir þeim meginlínum að reyna að halda sem mestu af verðmætu beitarlandi innan hólfsins en leggja það að öðru leyti þannig að illa farið land lendi ekki nema eftir því sem

óhjákvæmilegt er inn í beitarhólfið.
    Það þarf líka að leggja þetta hólf með það í huga að á svæðinu eru mikilvæg útivistarsvæði sem eðlilegt er að reyna að halda sem fjærst girðingum eða öllu heldur að girðingarnar liggi sem fjærst þeim hlutum útivistarsvæðanna sem verðmætastir og fjölsóttastir eru. Ég hef á því fulla trú að með góðra manna hjálp náist fullt samkomulag um tilhögun þessara mála gagnvart þeim aðilum sem nú halda búfé á svæðinu. Og það er einmitt ætlunin að tryggja það samkomulag. En ég kom einnig inn á það að auðvitað mun slík lagasetning hafa í för með sér varanlegri kvöð á íbúum þessa svæðis heldur en næst fram með einföldu samkomulagi við núverandi fjáreigendur. Og það bið ég menn að hafa í huga að hér er verið að reyna að slá margar flugur í einu höggi og ná fram varanlegri friðun þessa svæðis, m.a. með umferðaröryggi í huga og breytta landnotkun, til að koma til móts við mjög vaxandi kröfur íbúa á þessu mesta þéttbýlissvæði landsins um að einhver tiltekin landsvæði verði tekin frá til annars konar landnýtingar heldur en búfjárbeitar. Og vegna þess að hv. 5. þm. Suðurl. Guðni Ágústsson var að tala um nauðsyn þess að ná samkomulagi og sátt með þjóðinni um gróðurverndarmálin, þá tek ég undir það og ég vil leyfa mér að halda því fram að nokkuð hafi verið unnið að þeim hlutum einmitt í landbrn. upp á síðkastið.
    Ég lít á þessa aðgerð sem lið í því að skapa sátt milli þéttbýlisbúanna og bændanna í landinu um skynsamlegt samkomulag um landnýtingu og ég bið hv. ræðumann að hafa það í huga að í augum margra þéttbýlisbúanna er annars konar landnýting en búfjárbeit líka mjög mikilvæg, t.d. útivist, ræktun, skógrækt og annað af því tagi.
    Hér er ætlunin að friða stórt landsvæði og þá verður það þannig að menn geta til að mynda plantað trjám eða sett niður kartöflur hvar sem er á þessu svæði án þess að þurfa að girða utan um það sérstaklega og þeir geta varanlega treyst því að það fyrirkomulag verði á haft. ( GuðnÁ: Hvað um fordæmisgildi?) Vill nú ekki hv. þm. leyfa mér að komast í gegnum spurningarnar hverjar fyrir sig. Ég held þess vegna að ef ekki er unnt að ná fram samkomulagi og festa í sessi með lagasetningu, sem sæmilegur friður getur tekist um, samkomulagi um landnýtingu af þessu tagi þar sem ákveðið landsvæði er friðað, búfjárhaldinu
er haldið innan tiltekinna afmarkaðra beitarhólfa sem samkomulag tekst líka um, þá verði erfitt að eiga við þessi mál annars staðar í landinu. Það verð ég að segja. Á þessu landsvæði búa 120--150 þús. manns, sem auðvitað sækja útiveru og tómstundir á þetta landsvæði hér í kringum þéttbýlið, og því finnst mér það nærtækast að reyna að ná samkomulagi af þessu tagi um landnýtinguna hér á skaganum. Og þar sem búskapurinn á þessu svæði er orðinn jafntakmarkaður og raun ber vitni, skiptir orðið jafnlitlum sköpum og raun ber vitni í afkomu svæðisins, þá tel ég, hv. þm., að um svo sérstakar aðstæður og sérstakt tilvik sé að

ræða að það séu mikil mistök að halda hér ræður um fordæmisgildi þessara aðgerða gagnvart öðrum landshlutum þar sem um gjörólíkar aðstæður er að ræða. Og ég bið hv. þm. Guðna Ágústsson að hugleiða það hvort hann sé með ræðuhöldum af þessu tagi endilega að gera bændastéttinni og öðrum landsvæðum greiða.
    Ég vil einmitt leggja á það mikla áherslu að af minni hálfu felst ekki á nokkurn hátt fordæmisgildi í þessari sérstöku aðgerð gagnvart öðrum svæðum landsins vegna þess að hér er einfaldlega um svo sérstakar aðstæður, gjörólíkar aðstæður að ræða því sem annars staðar gerist. Því ætti hv. þm. að átta sig á.
    Það þarf í raun og veru ekki að nefna annað til sögunnar en umferðarþungann á vegunum sem liggja um þetta svæði. Hann er margfaldur á við það sem nokkurs staðar annars staðar þekkist á landinu og það er einn veigamikill þáttur í þessum aðgerðum að friða þær miklu umferðaræðar og afnema lausagöngu búfjár meðfram vegunum, Reykjanesbraut og öðrum vegum sem hér eiga hlut að máli. Það er orðið alveg ljóst og um það var reyndar þegar komið samkomulag að það yrði að girða Reykjanesbraut af. Það mundi kosta tugi kílómetra af girðingum, kostnaðarsamar girðingar sem ekki mundu nýtast til nánast nokkurrar friðunar lands nema samkomulag og aðgerð af þessu tagi geti gengið eftir. Menn eiga fyrst og fremst um það tvennt að velja að girða Reykjanesbraut af eins og hún leggur sig með umtalsverðum girðingum --- og það verður gert náist ekki fram aðgerð af þessu tagi sem unnið hefur verið að í landbrn. í vetur og hér er flutt frv. um til að festa í sessi. (Gripið fram í.) Ástæðan fyrir því, hv. þm., að þetta frv. er lagt fram nú er sú að þó að það hafi verið samþykkt af öllum þingflokkum stjórnarliðsins fyrir jól, þar á meðal Framsfl., sem mér skilst að hv. 5. þm. Suðurl. tilheyri, alla vega talar hann stundum þannig að manni dettur í hug að hann sé í Framsfl. Ástæðan fyrir því að það er ekki lagt fram fyrr en nú er sú að það komu um það óskir til mín að reynt yrði að ná fram samkomulagi um þetta mál áður en lagafrv. yrði lagt fram í þinginu. Það var nokkur óánægja, og það vil ég viðurkenna hreinskilnislega, það var nokkur óánægja með það að farið var af stað með lagaundirbúning áður en samkomulag hafði tekist. Ég reyndi að koma til móts við þær óskir og þá óánægju m.a. með því að stöðva þetta lagafrv., þó að heimild væri til komin að leggja það fram, og setja í það vinnu, sérstaka vinnu, að reyna að ná samkomulagi við viðkomandi sveitarstjórnir og búfjáreigendur á svæðinu. Og ég endurtek einu sinni enn að ég tel nú mjög góðar líkur á því og nánast leyfi mér að fullyrða að það muni takast fullt samkomulag við þessa aðila.
    Úr því að hv. 1. þm. Reykn. er nú kominn í salinn þá vil ég endurtaka það sem ég sagði og svaraði þar með hans orðum hér fyrr í umræðunni að það er ekki svo að ágreiningur standi við þá aðila sem ég nefndi hér í ræðu minni, sveitarfélögin Hafnarfjörð, Grindavík og Vatnsleysustrandarhrepp og Samtök

sveitarfélaga á Suðurnesjum, þvert á móti liggur fyrir samkomulag við suma þessa aðila og/eða er í burðarliðnum gagnvart öðrum. Og einmitt Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa verið mjög áhugasöm um þessa friðun og ályktað í þá veru sem og hin látna sýslunefnd Gullbringusýslu eins og reyndar hv. 5. þm. Suðurl. orðaði það. Honum vil ég líka svara með því að benda á 2. bls. í grg. með frv. þar sem einmitt er vitnað í bréf frá landgræðslustjóra og ég hygg að þar komi fram afstaða Landgræðslunnar svo ekki verði um deilt.
    Ég held þá að ég hafi svarað flestu því sem hér hefur verið drepið á í umræðunni. Ég vil leggja á það áherslu aftur að auðvitað er hér ekki um það að ræða að verið sé að hefja með einhverjum hætti --- mér liggur við að segja undir fölsku flaggi eða með laumulegum hætti --- einhverja mikla vegferð sem eigi að leiða til lagasetningar af þessu tagi úti um hvippinn og hvappinn. Þvert á móti. Ég vona að það sé tekið mark á þeim orðum mínum að þessi lagasetning er algjörlega sérstök, bundin við þessa aðgerð og þær sérstöku aðstæður sem hér eru uppi á þessu svæði. Svo er það nú líka þannig, hv. 5. þm. Suðurl. og aðrir góðir áheyrendur, að Alþingi Íslendinga verða ekki sett fordæmi með lagasetningu. Það Alþingi sem situr á hverjum tíma fer með löggjafarvaldið, gerir það sem því sýnist og setur þau lög sem því sýnist, óháð öllum fordæmum. Löggjafarvaldið er hjá Alþingi hvers tíma og því verður ekki breytt. Þar með er það svo að allt okkar ráð er í hendi þess að þeir menn sem vinna að löggjafarstarfinu á hverjum tíma kunni fótum sínum forráð og fari með löggjafarvaldið með viturlegum hætti. Þess vegna held ég að það sé ekki nokkur ástæða til að óttast það að þó að lög séu sett af þessu tagi á hinu ágæta herrans ári 1989, þá muni einhverjir misvitrir löggjafar framtíðarinnar
nota sér það til ógæfusamlegra verka eins og mér fannst látið liggja að í orðum hv. 5. þm. Suðurl. Fjarri fer því.
    Ég endurtek það svo að ég lít á þessa aðgerð sem hluta af því og vonandi lið í því, sem ég hef örugglega jafnmikinn áhuga á og hv. 5. þm. Suðurl., að takast megi að skapa miklu meiri sátt meðal þjóðarinnar um landnýtinguna hvort sem á ferðinni er búskapur, skógrækt, útivist, ferðamennska eða hvers konar landnýting sem í hlut á. Þar er mikið verk að vinna og ég vil líka binda vonir við það að hið nýja umhverfismálaráðuneyti og vinna að landnýtingaráætlun fyrir alla þjóðina geti orðið burðarásar þeirrar viðleitni í framtíðinni að skapa þessa þjóðarsátt sem sannarlega er þörf á á þessu sviði.