Grunnskóli
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Mér þykir rétt að árétta stuðning við frv. Raunar kemur hann fram í því að ég er meðflm. að málinu sem mér þykir vera afar gott mál og brýnt. Það er í sjálfu sér ekki nýmæli í íslensku skólastarfi en hins vegar hefur starfsemi af þessu tagi verið nokkuð háð áhuga þeirra sem stjórna eða kenna í hverjum skóla fyrir sig, svo og fjárhagsgetu þegar á það hefur reynt. Ég hygg að unnt sé að framkvæma það sem hér er lagt til án mjög mikils tilkostnaðar og því hygg ég að hæstv. menntmrh. ætti ekki á neinn hátt að hafa af því áhyggjur að hér væri um stóran kostnaðarlið að ræða sem ekki væri leggjandi í. Ég held þvert á móti að að því leyti til sem þarf sérstakar fjárveitingar í þessu skyni sé það einmitt stuðningur við slíka viðleitni að þessar hugmyndir séu festar í löggjöfina. Hér er ekki verið að tíunda nein smáatriði eða hversu framkvæma skuli í einstökum atriðum, heldur einungis verið að styðja stefnumörkun sem raunar er fyrir löngu komin fram. Ég minnist þess að það eru mörg ár, áratugir, síðan komið var á starfsemi á vegum menntmrn. sem hét Listkynning í skólum. Það var vissulega vaxtarbroddur sem vert var að styðja við. Má svo sannarlega festa slíkt í lögum þannig að það sé öruggt að skólabörn fari ekki á mis við þann þátt lífsins sem birtist í liststarfsemi ýmiss konar og menningarstarfi utan skólanna. Þess vegna hygg ég að það sé góð hugmynd sem einmitt kom fram hér í máli hv. 1. flm., í framsöguræðu hennar og raunar í umfjöllun hennar um málið, að hér geti verið um það að ræða að börn fái aðgang að æfingum leikverka stöku sinnum. Slíkt hlýtur að vera ódýrara í framkvæmd en ýmsar aðrar leiðir. En það kemur heldur ekki í staðinn fyrir fullbúnar leiksýningar. Slík starfsemi mundi vissulega kynna börnum betur hvaða vinna og hvaða baksvið er að ýmsum þeim verkum sem unnin eru til þess að auka lífsgleði manna og auðga líf þeirra með því að veita þeim aðgang að listinni og auka skilning þeirra á því sviði.
    Ég hygg með öðrum orðum að hér sé um mál að ræða sem þarf ekki að vera mjög kostnaðarsamt í framkvæmd, en hins vegar erum við hér að fjalla um þá hlið á uppeldi ungs fólks sem ég hygg að sé nauðsynleg, ekki bara í okkar þjóðfélagi, heldur í öllum þjóðfélögum og afar mikilvæg til þess að sjá heiminn í víðara ljósi en menn mundu gera ef þeir væru einungis á skólabekknum og sæju lítið þar út fyrir. Mér virðist með öðrum orðum vera hér um sjálfsagt mál að ræða og mig furðar næstum á því hve umræðurnar leiða í ljós að menn séu þenkjandi yfir því sem hér er lagt til. Frumvarpið er einungis um það að festa í lögin það sem við höfum séð oft í framkvæmd þó í of litlum mæli hafi verið. Við viljum auka þessa starfsemi og gera hana fjölbreyttari eftir því sem föng eru á í hverjum skóla.