Greiðslur úr ríkissjóði umfram heimildir
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Herra forseti. Við höfum nú hlustað hér á lærða og langa ræðu og maður verður eiginlega feiminn við að fara upp í ræðustól þegar erindið er einungis að segja bara ósköp hversdagslega að maður sé þessu máli heldur hlynntur því að mér skilst helst að hv. 2. þm. Vestf. telji mál þetta stjórnarskrárbrot og þá setur að manni hroll. Ætlar maður að styðja mál sem er brot á stjórnarskránni?
    En ég ber nú það traust til hv. 17. þm. Reykv. að ég álít að hann hafi rannsakað áður en hann lagði frv. fram, að það stangaðist ekki á við stjórnarskrána. Hins vegar skildist mér það líka á hv. 2. þm. Vestf. að það væri eiginlga hægt að teygja og toga stjórnarskrána býsna mikið til. Það væri hægt jafnvel að láta hefðir gilda og venjur um ýmis atriði hennar og þá fer nú að syrta í álinn ef ekki er einu sinni hægt að treysta stjórnarskránni.
    Frv. sem liggur hér frammi er fyrst og fremst til að þrengja þann ramma sem útgjöldum ríkisins er settur því að eins og við vitum hafa undanfarin ár verið ýmsar aukagreiðslur úr ríkissjóði sem ekki hafa verið heimildir fyrir í fjárlögum. Það er síður en svo að það sé heppilegt þó að það sé vitanlega oft og tíðum óhjákvæmilegt. Og mér sýnist þetta í rauninni hið þarfasta mál, ekki síst vegna þeirrar umræðu sem hefur verið hér í vetur um aukafjárveitingar og framúrkeyrslu á fjárlögum sem á síðustu árum hefur verið með þeim hætti að fólki hefur ekki aðeins verið nóg boðið, því hefur verið ofboðið.
    Greinargerðin sem þessu frv. fylgir segir í rauninni allt sem um það þarf að segja og ég þarf ekki að draga það frekar fram. Markmiðið er að setja skýrar reglur um vald fjmrh. til að veita aukafjárveitingar og binda í lög reglur um það hvernig skuli standa að því að heimila óhjákvæmilegar greiðslur úr ríkissjóði umfram gildandi fjárlög þegar greiðslur þola ekki bið eftir nýjum fjárlögum. Sú staða getur oft komið upp og hefur oft komið upp. Og það þarf ekki að rekja það frekar hvaða ástæður geta verið fyrir því því það er öllum kunnugt. Það er deginum ljósara að það er brýn þörf að um þessi mál gildi skýrar og ákveðnar reglur og ótvíræðar sem hindra ótímabæran fjáraustur og óráðsíu því að æðstu ráðamenn þjóðarinnar eiga ekki að þurfa að komast í þá aðstöðu að þeir séu gagnrýndir fyrir slíka hluti.
    Mér virðist að með frv. hafi tekist að ná fram skýrum ramma um það mál sem það tekur til. Þó virðist mér að í 2. gr. hefði ef til vill verið ástæða til að hafa ákvæði um að samþykkis Alþingis yrði að leita ef upp kemur beiðni um umframgreiðslu á þeim tíma sem þingið situr því að ég felli mig ekki við það, ef á að þrengja þessar reglur, að það sé gengið fram hjá Alþingi þegar unnt væri að ná e.t.v. samþykki þess. Hins vegar finnst mér það mjög eðlilegt að fjvn. hafi það með höndum að ákveða það hvernig skuli farið með þessar greiðslur. Og varðandi þá meginstefnu frv. að greina milli greiðslna umfram fjárlög eftir því hvort um er að ræða verkefni sem er á fjárlögum eða ekki sýnist mér að í lagatextanum

hafi tekist að setja þessar reglur og það muni þá ekki vera svo mjög torvelt fyrir framkvæmdarvaldið að fara eftir þeim. Það hefur frá upphafi verið skoðun Kvennalistans að við meðferð sameiginlegra fjármuna okkar allra eigi að gæta hagsýni og ráðdeildar og frv. er vissulega skref í þá átt að svo megi takast. Og ég held að ég megi lýsa því yfir hér að þetta frv. styðjum við þó að við höfum kannski eitthvað að athuga við einstakar greinar þess.