Greiðslur úr ríkissjóði umfram heimildir
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég fagna frv. sem hér er fram komið og þeirri umræðu sem hefur orðið um það vegna þess að ég tel að við séum hér að fjalla um grundvallaratriði sem varðar það hvort á að reka þá stefnu að viðhalda jafnvægi og hvort það er hlutverk stjórnvalda að viðhalda jafnvægi eða eyða og eyða eins og gert hefur verið án þess að reyna í alvöru að viðhalda jafnvægi.
    Það hefur komið fram hér að stjórnarskráin setur Alþingi ákveðnar starfsreglur og það fer ekkert á milli mála í 41. gr. að ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Alþingi hefur samþykkt fjárlög undanfarin ár og það hefur verið farið fram úr þeim fjárlögum. Mér var því spurn þegar ég byrjaði hér sl. haust hvar heimildir væru fyrir aukafjárveitingum undanfarin ár. Ég fékk hvergi svör, en stuttu síðar voru lögð hér fram frumvörp um aukafjárlög fyrir öll árin, alla leið aftur til 1979 ef undan er skilið árið 1980. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér var talsvert brugðið.
    Það stoðar kannski ekki mikið að vera að gagnrýna það sem liðið er. Spurning dagsins er þessi: Á að breyta um vinnubrögð? Og þetta fram komna frv. sem hér er lagt fram miðar að því að taka upp nýjar starfsreglur og ég fagna því. Enn fremur hefur nýlega verið lögð fram hér í Alþingi skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga árið 1988 og þar kemur fram að gjöld umfram tekjur á sl. ári hafi numið 7,2 milljörðum kr. og greiðsluafkoma ríkissjóðs hafi verið neikvæð um 4,2 milljarða. Enn fremur kemur fram að fjölgun reiknaðra stöðugilda á A-hluta ríkissjóðs á árinu 1988 hafi numið um 280 stöðugildum umfram það sem fjárlög gera ráð fyrir. Ég verð að segja það að svona vinnubrögð í stjórnun hjá framkvæmdarvaldinu geta náttúrlega ekki gengið. Löggjafarvaldið verður bara að koma til skjalanna og knýja á um að unnið verði með markvissari hætti að eftirliti með framkvæmd fjárlaga.
    Við vitum það öll að það er langt síðan íslenska bankakerfið tók upp þann góða sið, og þar hefur venjulega ríkt góður agi, að gera upp á degi hverjum, en nú er svo komið að það er gert upp beint, um leið og bankaviðskipti fara fram. Ekki er ég kannski að tala um að það liggi fyrir hér á morgnana hvernig útkoma ríkissjóðs var í gær, en það væri alla vega góður áfangi ef hægt væri núna á tölvuöld að gera upp mánaðarlega og að Alþingi, svo að ekki sé talað um fjvn., fengi mánaðarlegar skýrslur um það hvernig gengi að framkvæma fjárlög og þá er í lagi að gerð væri mánaðar rekstraráætlun um starfsemi ríkissjóðs á öllum sviðum. Mörg fyrirtæki gera slíkar rekstraráætlanir og ég tel ekkert óeðlilegt að hér verði breytt um vinnubrögð og farið að gera upp mánaðarlega.
    Ég minnist þess, af því að ég nefndi skýrslu Ríkisendurskoðunar hér áðan, að í september í fyrra var verið að ræða um það hvort hallinn á fjárlögum eða hagnaðurinn, ég man ekki hvort það var, yrði 600

millj. Síðan var verið að grínast með það fram undir áramót að í hvert skipti sem hæstv. fjmrh. opnaði munninn hækkaði rekstrarhalli fjárlaganna um einn milljarð og útkoman varð síðan 7--8 milljarða halli. Svona bókhald gengur bara alls ekki upp. Löggjafarvald þjóðarinnar á heimtingu og fullan rétt á því að fá að fylgjast með, svo að ekki sé talað um fjvn., að fá að fylgjast með hvernig gengur að framfylgja fjárlögunum. Það er lögð mikil vinna í fjárlög og óhemju kostnaður og þetta er efnahagsstefna viðkomandi ríkisstjórnar hver sem hún er, og löggjafanum er skylt að fylgjast með því að fjárlög séu framkvæmd, ekki í bókstaflegri merkingu, heldur í meginmarkmiði í samræmi við það sem stefnt er að.
    Enn fremur vil ég að það komi fram að ég álít að það hafi brugðist undanfarin ár sem ég tel vera meginsjónarmið í sambandi við rekstur, hvort sem það er ríkissjóður eða eitthvað annað eða sveitarfélag. Það er meginhlutverk þeirra sem ábyrgð bera á þeim rekstri að viðhalda jafnvægisástandi, þ.e. að tekjur séu í samræmi við gjöld. Með því á ég við að það er hlutverk að viðhalda jafnvægisástandi þannig að jafnvægi sé milli þess sem hægt er að gera og þess sem gert er.
    Þær auknu álögur og auknu skattar sem voru lagðir hér á sl. haust og fram undir áramót voru allir saman í þá átt að auka ójafnvægi, voru því mjög alvarlegs eðlis að mínu mati. Á sama tíma og það var ljóst að þorskafli dróst saman um 10% sem þýddi auðvitað minnkað framboð af fjármagni, þá voru auknir skattar og álögur á atvinnulífið þrátt fyrir allt tal um það að það væri verið að mynda hæstv. núv. ríkisstjórn til þess að bjarga atvinnuvegunum. Er nú ekki mikið sagt þó að maður segi að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri er að gera. Og ekki finnst mér hægt að ætla raunverulega nokkrum manni að þeir hafi vitað hvað þeir voru að gera. Ég tel því að þetta frv. sem hér er lagt fram sé í þá veru að það stefni að því að viðhalda því jafnvægi eða þeirri efnahagsstefnu sem stjórnvöld ætla sér að framfylgja og taka stefnu um að gera.
    Það verður erfitt að drepa verðbólguna í landinu ef ekki verða tekin upp markvissari vinnubrögð en hingað til hafa tíðkast. Ég fagna því þessu frv. því eðlileg hagstjórn verður að taka mið af staðreyndum um það að jafnvægi verður að vera á milli þess sem menn vilja gera og þess sem hægt er að gera. Það er
algjört grundvallaratriði að farið verði að vinna eftir þessum markmiðum, en ekki að hér sé skapað ójafnvægi með of miklum sköttum og of miklu ryksugi, ef það má notað það orð, ríkissjóðs á fjármagnsmörkuðum og síðan sé hrópað: frjálshyggja, frjálshyggja, vegna þess að frjálsræðið endurspeglar auðvitað ástandið sem skapað er á fjármagnsmörkuðum. Hófleg eftirspurn eftir fjármagni er því rétta leiðin til þess að lækka fjármagnskostnaðinn en ekki einhverjar ofbeldisaðgerðir með þvinguðum hætti eins og í austantjaldsríkjum.

    Hæstv. forseti. Ég fagna fram komnu frv. Ég tel það vera í mjög jákvæða átt og vona að lokum að breytt verði um vinnubrögð í framtíðinni.