Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs um þingsköp vegna þeirra upplýsinga sem fram hafa komið um breytingar á dagskránni. Eftir því sem mér skilst er búið að flytja skýrslu um utanríkismál eitthvað til, en það hefur nú verið gert trekk í trekk hingað til. Í upphafi var samkvæmt starfsáætlun Alþingis talað um að skýrslan yrði rædd 16. og 17. mars. Því var breytt fjótlega í samráði við þingflokka og átti að vera í síðustu viku. Síðan var því breytt aftur og var talað um að hún yrði í dag og á morgun. Ég var mjög hlynnt þeirri ákvörðun hæstv. forseta að hafa skýrsluna á góðum tíma í mars eins og var gert ráð fyrir samkvæmt starfsáætlun og hefði reyndar kosið að umræða um utanríkismál færi fram miklu fyrr, jafnvel í upphafi þingsins. Slíkt hefði e.t.v. komið í veg fyrir þær mörgu en nauðsynlegu umræður utan dagskrár sem hafa farið fram í vetur.
    Það er alveg ljóst að skýrslu utanrrh. var skilað mjög seint. Hún barst þingflokkum sem handrit sl. miðvikudag þannig að auðvitað höfðum við frekar lítinn tíma til að kynna okkur það sem í henni stóð. Aðalatriðið í þessu máli er þó að okkur gefist tími til að ræða utanríkismál og skýrslu utanrrh. í góðu tómi og því vil ég spyrja virðulegan forseta hvernig fyrirhugað sé að standa að umræðunni, hvenær hún eigi að fara fram og í hve langan tíma. Ég legg áherslu á að það verði gert á eðlilegum starfstíma þingsins og vildi þess vegna varpa fram þessum spurningum þar sem mér er ekki alveg ljóst hvernig að þessu á að standa.