Ástandið í efnahags- og kjaramálum
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að hafa það hv. þm. til afsökunar að hann var ekki á umræddum fundi, hann var ekki á þeim fundi sem hann gerir að umræðuefni og byggir á slitróttum fréttum í Morgunblaðinu og öðrum fjölmiðlum af þeim fundi. Þar er sleppt eins og ætíð er fjölmörgu sem þó skiptir miklu máli.
    Sem dæmi um hlut sem var sleppt vil ég nefna að á þessum fundi stóð upp forstjóri frystihúss á Vestfjörðum, Magnús Guðjónsson, og ég heyrði greint frá því að umræður urðu af afkomu þess frystihúss, en þessi forstjóri greindi einnig frá því að 13. júní á sl. ári hefði þáv. hæstv. forsrh. heimsótt þetta frystihús og þegar hann hefði farið hefði hann fullvissað staðarmenn um að þeir þyrftu ekki að óttast neitt, hann mundi kippa þessu í lag um leið og hann kæmi suður.
    Allir þekkja þá sorgarsögu að efndirnar urðu þær að skipuð var forstjóranefnd og hún starfaði vel, en ráð hennar voru síðan að engu höfð, því miður, og ætla ég ekki að rekja allt sem í kringum það var. (Gripið fram í.) Hv. þm. talar eflaust á eftir. Má ég ekki biðja hann að þegja þar til. --- Á þessum fundi rakti ég ítarlega stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnu- og efnahagsmálum, gerði grein fyrir því að ríkisstjórnin hefði sett sér að vinna þjóðarbúið upp úr þeim erfiðleikum sem það er í án þess að kæmi til kollsteypu eftir kollsteypu sem oft hefur verið í okkar þjóðarbúskap. Á þessum fundi rakti ég hvað í þessu felst. Ég rakti hvernig nauðsynlegt er að allir þeir hinir fjölmörgu þættir sem áhrif hafa á afkomu efnahagslífsins og þjóðarbúsins yrðu færðir til réttara horfs. Þetta höfum við rætt hér hvað eftir annað.
    Einn mikilvægasti þátturinn að mati ríkisstjórnarinnar er fjármagnskostnaðurinn og ég efa ekki að hv. þm. hafa heyrt í fréttum upp á síðkastið aftur og aftur hvernig gífurlegur fjármagnskostnaður á síðasta ári hefur kollsteypt fyrirtæki eftir fyrirtæki.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um að við ráðum aldrei svo vel fer við okkar efnahagslíf eða komum því á sæmilega lygnan sjó nema við fáum breytt þeirri peningastefnu sem hér hefur verið fylgt. Hv. þm. sagði áðan í ræðu sinni að vextir hefðu orðið háir um tíma á meðan nauðsynlegt var til að vega á móti þenslu í þjóðfélagi. Tókst það? Það held ég ekki, hv. þm. Öll merki og allar tölur sýna að þrátt fyrir háa vexti var þensla á uppgangstímum sjávarútvegsins 1985--1987 meiri en dæmi eru til áður. T.d. sýna þær tölur sem Þjóðhagsstofnun hefur látið frá sér fara að fjárfesting í hlutum eins og vélum og tækjum þrefaldaðist á þessu tímabili og langmest af þessum vélum og tækjum var fjármagnað af kaupleigum sem hér spruttu upp eins og gorkúlur. Þar voru vextirnir jafnvel töluvert hærri en þeir sem hv. þm. er að tala um í bankakerfinu. Eða ber þenslan á höfuðborgarsvæðinu þess merki að þessir háu vextir hafi spornað við? Hér er að færustu manna mati verslunarhúsnæði svipað og í 500 þúsund manna borg. Og af því að hv. þm. minntist á atvinnuleysi veit ég

að hv. þm. gerir sér grein fyrir því að sú aukning á atvinnuleysi sem hér er nú er á höfuðborgarsvæðinu, m.a. vegna þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem eru að stöðvast eða hafa stöðvast. Dregið hefur hins vegar úr atvinnuleysi í landsbyggðunum og m.a. er víða um landið mikill skortur á fólki í fiskvinnsluna, þær undirstöðugreinar sem hv. þm. í ræðu sinni áðan augljóslega og réttilega bar mjög fyrir brjósti.
    Staðreyndin er sú að við erum að súpa hér seyðið af frjálshyggju undanfarinna þriggja ára, af þeim háu vöxtum sem áttu nokkurn veginn sjálfkrafa að draga úr fjárfestingunni en gerðu það alls ekki og menn bera nú sárt enni eftir um land allt. Að mati þessarar ríkisstjórnar er ákaflega mikilvægt að snúa þessari þróun við og við viðurkennum að það er ekkert auðvelt verk, en þó hefur nokkuð áunnist. M.a. hafa raunvextir lækkað í fyrsta sinn um langa tíð fyrir aðgerðir þessarar ríkisstjórnar og ríkisstjórnin stefnir að því að raunvextir lækki enn töluvert meira á næstu tveimur mánuðum, hefur sett sér þá áætlun að raunvextir verði í lok maí, byrjun júní, orðnir 5% á ríkistryggðum bréfum og lánum sem eru samsvarandi í bankakerfinu. Fyrsta skrefið var stigið fyrir nokkrum dögum í þessari ætlun ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur einnig lagt fyrir Seðlabankann að innlánsvextir lækki og að bundnir innlánsvextir lengist, þ.e. að það verði ekki heimilt að binda innlán nema þau séu til eins árs eða lengri tíma. Sömuleiðis hefur ríkisstjórnin lagt fyrir Seðlabankann að lengja smám saman útlán þannig að útlán verði ekki bundin nema þau séu til þriggja ára eða lengri tíma.
    Þetta er út af fyrir sig ákaflega svipað og hv. þm. sem forsrh. lagði til þegar hann vildi lengja lán sem ekki væru bundin upp í, ef ég man rétt, fjögur ár eins og þá var um talað en urðu síðan tvö ár. Ríkisstjórnin hefur lagt fyrir Seðlabankann ákveðna áætlun og hefur lagt fyrir Seðlabankann að nota þær heimildir sem Alþingi hefur nýlega samþykkt ef nauðsyn krefur til að ná fram þessum áætlunum.
    Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að það eru ýmis merki þess að slakni nú á peningamarkaðnum og vitanlega mun það verða til liðs í þeirri viðleitni að
lækka vexti og ber að fagna því.
    Ég gæti út af fyrir sig sagt ýmislegt fleira um þennan fjármagnskostnað, m.a. tekið heils hugar undir það sem formaður Félags ísl. iðnrekenda hefur sagt aftur og aftur um það fjármagnsokur sem íslenskur iðnaður býr við. Hann hefur upplýst m.a. að lánveitingar til iðnaðarins og fyrirgreiðsla banka er fyrst og fremst bundin við kaup á víxlum, þ.e. viðskiptavíxlum með afföllum sem þegar þessi ágæti maður upplýsti alþjóð um okrið samsvöruðu u.þ.b. 40% í vöxtum. Þeir hafa væntanlega lækkað eitthvað síðan.
    Ég er þannig sannfærður um að fátt verður betur gert íslenskum atvinnuvegum en að losa þá úr þessum eftirstöðvum frjálshyggjunnar.
    Ég lýsti þessu og ýmsum öðrum atriðum sem ríkisstjórnin er að fást við á þessum fundi og sem allt hefur komið fram á fundum Alþingis, m.a. þeirri

áætlun að draga muni úr verðbólgu þegar líður á árið og dregur úr áhrifum þeirra gengisfellinga sem hafa verið fyrr í tíð þessarar ríkisstjórnar sem eru satt að segja alls ekki litlar, samtals tæplega 14 af hundraði þegar hvað reiknast ofan á annað, og er þá mjög farið að nálgast það sem hv. stjórnarandstæðingar boðuðu fyrir áramótin. Ef ég man rétt boðuð þeir 15% gengisfellingu. Gengisfellingar allt frá því að fellt var um 6% snemma á síðasta ári eru orðnar töluvert yfir 30 af hundraði og þykir það satt að segja ekki lítið. M.a. þær miklu uppfærslur gengismunar og vaxtakostnaður sem kom fram í reikningum fyrirtækjanna eru afleiðingar af þessari miklu gengisfellingu sem þó var til stofnað til að aðstoða eða bæta rekstur þessara fyrirtækja. Það sýnir enn einu sinni að gengisfellingar einar sér eru langt frá því að vera nægar til þess að koma rekstri fyrirtækjanna á réttan rekspöl.
    Nýlega ræddi ég við nokkra frystihúsamenn um afkomu í greininni og mér þótti athyglisvert, þegar þeir höfðu lagt fyrir mig reikninga síðasta árs, þegar þeir sögðu: Í guðanna bænum farið varlega með gengisfellingar. Hjá öllum þessum þremur fyrirtækjum hafði efnahagsreikningurinn snúist við vegna þess að gengisuppfærslur voru svo miklar að þær voru margfalt meiri en uppfærslur eigna, eignir að verulegu leyti kannski afskrifaðar og aðeins heimilaðar um ákveðinn hundraðshluta af skattayfirvöldum. Þetta sögðu þeir út af fyrir sig þrátt fyrir það að þeir hefðu eitthvað meiri tekjur og þeir lögðu allir áherslu á: Dragið úr fjármagnskostnaðinum númer eitt, tvö og þrjú og komið verðbólgunni niður.
    Ég gerði einnig grein fyrir því á þessum fundi að fram undan væri eflaust alda atvinnuleysis. Ég hef komið nokkuð inn á það hér, en skal fara um það nokkrum fleirum orðum. Ég gerði grein fyrir því að ríkisstjórnin mundi, eins og sérhver ríkisstjórn hlýtur að gera, fjalla um það ástand. Á vegum þessarar ríkisstjórnar hafa farið fram langtum tíðari athuganir á atvinnuástandi en áður hefur verið. Þjóðhagsstofnun er nú að hefja enn eina athugun á þróun þeirra mála og vænti ég að niðurstöður af þeirri athugun liggi fyrir innan tíu daga til tveggja vikna.
    Í því sem nú er hefur komið fram það, sem sýndi sig í síðustu athugun Þjóðhagsstofnunar, að veikleikinn í atvinnuástandinu var þá og hefur orðið fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu af þeim ástæðum m.a. sem ég minntist á áðan. Ríkisstjórnin mun fjalla um þetta á fundi sínum á morgun og eflaust næstu fundum og mun skoða allar leiðir til að draga úr þessu atvinnuleysi. Ríkisstjórnin ákvað þegar í tengslum við samninga BSRB að veita 15 milljónir kr. til atvinnuaukningar fyrir skólafólk, en það koma u.þ.b. 10.000 manns inn á vinnumarkaðinn eftir u.þ.b. mánuð. Hins vegar er alveg ljóst að ef um á að muna þarf meira til að koma og er sjálfsagt að stuðla að því eins og frekast er unnt að þetta fólk fái sér atvinnu við undirstöðuatvinnuvegina, en eins og ég sagði áðan er víða um land svo farið, m.a. á Vestfjörðum, að þar er mikill skortur á vinnuafli í

undirstöðuatvinnuvegunum. Grunur minn er hins vegar sá að æðimargir muni fremur kjósa og af eðlilegum ástæðum að finna sér vinnu í sinni heimabyggð og því þarf að leita þar miklu fleiri ráða.
    Við reisum ekki við þau verslunarfyrirtæki sem eru að stöðvast, sem eru að stöðvast beinlínis vegna þess að þau hafa verið allt of mörg. Framboðið af slíku verslunarplássi hefur verið allt of mikið og það er í raun og veru ekkert um annað að ræða en að úr því dragi þótt sársaukafullt muni reynast. Hins vegar getur ríkisstjórnin að höfðu samráði t.d. við fjvn. stuðlað að því að hraðað verði byggingum á þessu svæði þannig að ekki slakni svo á byggingarvinnu sem að vísu eru ekki enn þá komin fram mjög mikil merki um, en margir óttast að muni fylgja í kjölfar þess að sala á iðnaðar- og verslunarhúsnæði hefur algjörlega stöðvast. Ríkisstjórnin mun skoða alla þróun þessa máls og mun verða með áætlun um hvernig úr þessu megi draga á næstu vikum.
    Hv. þm. ræddi töluvert um afkomu sjávarútvegsins og það gerði ég einnig á umræddum fundi. Ég gerði þar grein fyrir stöðu og þróun fiskvinnslunnar á mjög svipaðan hátt og kemur fram í skýrslu Þjóðhagsstofnunar. Hv. þm. gerði grein fyrir afkomunni sem hann taldi vera í dag, en hins vegar láðist honum að taka þá með þær greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði sem greiddar eru nú. Hv. þm. fór með
þær tölur úr skýrslu Þjóðhagsstofnunar sem má orða að séu afkoman í dag að frádregnum greiðslum úr Verðjöfnunarsjóði og greiðslu uppsafnaðs söluskatts. ( ÞP: Enda á sjávarútvegurinn að borga það samkvæmt lögum.) Ja, það getur verið, en það er ekki afkoman í dag og sjávarútvegurinn greiðir það að sjálfsögðu ekki nema í fyrsta lagi að Verðjöfnunarsjóður reynist fær um að greiða þá skuld sem ég hygg að sé vafasamt á næstu árum. Auk þess hefur hæstv. sjútvrh. lýst þeirri skoðun sinni að greiðsla verði ekki úr Verðjöfnunarsjóði heldur hljóti ríkissjóður að taka á sig þessa greiðslu og um það er engin deila innan ríkisstjórnarinnar nema einhverjir stórkostlegir hlutir gerist í afkomumálum fiskvinnslunnar.
    Ég gerði grein fyrir þeim hugsanlegu hækkunum sem gætu orðið á sjávarafurðum erlendis, m.a. gerði ég reyndar grein fyrir því að það hefur aldrei verið gert ráð fyrir neinum umtalsverðum hækkunum á Bandaríkjamarkaði. Á Bandaríkjamarkaði hafa þau tíðindi orðið að Kanadamenn hafa reyndar heldur lækkað verð sitt á flökum eftir að þeir komu aftur inn á markaðinn af fullum krafti eftir mikið verkfall sem þar var. Hins vegar hefur dollarinn hækkað og að því leyti bætt nokkuð afkomu þeirra fyrirtækja sem selja á Bandaríkjamarkað. Í Evrópu eru hins vegar ýmis merki þess að þar muni verð á sjávarafurðum fara hækkandi. Norðmenn eru nú að stöðva veiðar sínar á þorski og verður ekki meiri þorskur veiddur þar að öllum líkindum fyrr en í september eða síðar. Sömuleiðis eru mjög háværar raddir um rányrkju í Norðursjónum. Þar hefur verið dregið úr kvóta sem nemur hundruðum þúsunda tonna eða samtals í

veiðum í Evrópu og er uppi háværar raddir um mikla rányrkju og nauðsyn að grípa til róttækra ráðstafana til að vernda þann stofn.
    Allir þeir sem ég hef rætt við um verðlagsþróun í Evrópu spá því að þar verði hækkanir, hver einasti maður sem er þessum málum vel kunnugur. Hins vegar hefur enginn treyst sér að segja nákvæmlega hvað þær verða miklar eða hvenær þær verði því að sumarmánuðirnir eru oft erfiðir í þessu sambandi. Ég hugsa að staðreyndin sé jafnframt sú að það fari mjög mikið eftir því hve skynsamlega við Íslendingar höldum á okkar útflutningsmálum með ferskan fisk. Þar er nú unnið að samkomulagi á milli veiða og vinnslu og væntanlega sér það samkomulag dagsins ljós. Ég vona og tel afar mikilvægt að á grundvelli þess samkomulags verði hægt að halda framboði á ferskum fiski þannig að ekki leiði til stórfellds verðfalls á Evrópumarkaði og sömuleiðis að nægur fiskur verði hér heima til vinnslu.
    Þetta hygg ég mjög mikilvægt í tengslum við þá verðlagsþróun sem fram undan kann að vera í Evrópu. Það neitar því enginn, þvert á móti, allir sem staðfesta að líkleg sé hækkun á verði í Evrópu. Hvers vegna eigum við þá á þessari stundu að vera með háværar upphrópanir um 15% gengisfellingu eins og lesa má í dagblöðum? Það held ég að sé hin mesta firra.
    Vitanlega er alveg ljóst að ef þetta bregst hlýtur ríkisstjórnin að skoða mjög ítarlega stöðu fiskvinnslunnar og samkeppnisiðnaðarins einnig í landinu. Samkeppnisiðnaðurinn hefur fengið síðan þessi ríkisstjórn tók við eins og fiskvinnslan 13,3% gengisfellingu þegar hvað er reiknað ofan á annað. Vonandi hefur það eitthvað bætt afkomu samkeppnisiðnaðarins. Ef sýnir sig þegar lokið er greiðslum úr Verðjöfnunarsjóði að verðhækkanir duga ekki til að mæta því sem þarf að mæta mun þessi ríkisstjórn leggja þau spil á borðið. Ég skýrði frá því á þessum fundi að þá mun ríkisstjórnin ræða þau mál við aðila vinnumarkaðarins og ég efa ekki, miðað við þann ríka skilning sem virðist vera á þeim málum nú beggja vegna borðsins hjá aðilum vinnumarkaðarins, að þá geti menn fundið leiðir út úr þeim vanda. Ég tek undir með hv. þm. að það er vitanlega ekki unnt að reka grein eins og fiskvinnsluna langtímum saman með stórfelldu tapi og vitanlega leitt að svo lengi var hún sem tölurnar sýna á síðasta ári rekin með stórfelldu tapi þrátt fyrir að fyrri ríkisstjórn greip til gengisfellingar, fyrst 6% og síðan 10%. Það dugði eins og allir vita hvergi nærri til.
    Ef mistekst að ráða við alla þessa hluti, eins og t.d. fjármagnsmarkaðinn og verðbólguna, atvinnuleysi og fleira, skal ég fyrstur manna viðurkenna að þessari ríkisstjórn hefur mistekist sitt ætlunarverk. Ég hef aldrei farið leynt með mínar skoðanir ef þær eru slíkar og tel sjálfsagt að viðurkenna það. En það sem Morgunblaðið sleppti af þessum fundi í Kópavogi var að ég lýsti því að ég væri mjög bjartsýnn á að þetta mundi takast. Því var sleppt. Ég er það enn. Ég er það enn m.a. vegna þeirra hógværu samninga sem tekist hafa og hv. þm. lýsti og ég er það m.a. vegna

þess hve ríkan skilning ég finn hjá aðilum beggja vegna borðsins, t.d. Verkamannasambandinu, á erfiðleikum fiskvinnslunnar. Og ég er það vegna þess að ég tel viljann hjá þessum aðilum til að leysa þessi mál án þess að þola kollsteypur. Ég er það m.a. vegna þess að vitanlega gera þessir menn sér grein fyrir að með þeim samningum sem verið er að gera er verið að draga úr kaupmætti, enda er ekki um annað að ræða. Við getum ekki haldið hér uppi kaupmætti eins og hann varð þegar uppgangurinn var mestur 1987 þegar aflaverðmæti í sjávarútvegi var 15% meira en meðaltal á þessum áratug. Það sýnir sig nefnilega að þessum mönnum er það fullt eins vel
ljóst og öðrum og vonandi hv. stjórnarandstæðingum að úr kaupmætti hlýtur að draga þegar þjóðartekjur fara minnkandi eins og gerðist í ár, afli fer minnkandi um 6% að verðmæti og þjóðartekjur um líklega 2--2,2%. Þetta satt að segja eykur bjartsýni mína, þessi skilningur almennings á því að vitanlega hlýtur að draga úr kaupmætti þegar svo er ástatt.
    Það er út af fyrir sig dálítið athyglisvert að árið 1987, þegar við náðum þessum toppi í aflaverðmæti, voru þjóðartekjur okkar Íslendinga um 21.500 dollarar á hvert mannsbarn og við vorum þá næstir Svisslendingum, sem voru með rúmlega 24.000 á hvert mannsbarn, af öllum viðmiðunarlöndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París. Enn þá athyglisverðara sýnist mér þó hitt, að þetta árið vörðu Svisslendingar til einkaneyslu hjá sér rúmlega 62% landsframleiðslunnar. Mig minnir að það hafi verið 14.500 dollarar á hvert mannsbarn. En við Íslendingar vorum þar rétt á eftir Svisslendingum og vörðum 67,8% landsframleiðslunnar í einkaneyslu sem undirstrikar að við tökum allt of mikið af landsframleiðslunni til einkaneyslunnar. Við gerum það. Þrátt fyrir að hér eru fjölskyldur sem þarfnast meiri tekna er heildardæmið svona. Einhvers staðar er svo mikið tekið út að við tökum meira en nokkurt annað land sem ég gat séð í fljótum yfirlestri á þessari skýrslu af viðmiðunarlöndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París út úr okkar landsframleiðslu til einkaneyslu. ( FrS: Er ráðherrann farinn að lesa skýrslur frá þeirri stofnun?) Já, þegar þær eru almennt um samanburð á milli landa geri ég það, kæri frændi.
    Þannig er það að við höfum farið offari, held ég að sé algjörlega ljóst, í því sem við höfum tekið til alls konar eyðslu og til fjárfestingar sem ég rakti áðan lauslega og gæti nefnt um það miklu fleiri dæmi en þau sem ég nefndi.
    Ég skal ekki lengja þessa umræðu mjög. Ég hef vonandi gert nokkra grein fyrir þessum umrædda fundi. Ég vonast til þess að hv. þm. komi á minn næsta fund og þá getum við rætt málin bæði þar og síðan á Alþingi og þá þarf ekkert að fara á milli mála. Ég legg á það ríka áherslu í lok þessara orða að þessi ríkisstjórn mun alls ekki sofa á verðinum eins og stundum hefur verið gert heldur fylgist með því frá degi til dags og viku til viku hvernig staða atvinnuveganna er og er tilbúin að gera í samráði við

þá aðila sem þarna eiga stærstra hagsmuna að gæta þær ráðstafanir sem dugi til að skapa undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar viðunandi rekstrargrundvöll. Það er hins vegar stefna og skoðun þessarar ríkisstjórnar að farsælla sé að ná því smátt og smátt en örugglega en með stórum gengisfellingum og þeim kollsteypum sem því fylgja.