Ástandið í efnahags- og kjaramálum
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. 1. þm. Suðurl., fyrir að hefja máls á mikilvægum atriðum sem fram komu á Kópavogsfundinum hinum síðari sem haldinn var í síðustu viku. Hvað svo sem fram fór á þeim fundi og hvaða yfirlýsingar voru gefnar er það alveg ljóst að þrjú hugtök skiluðu sér einkar vel út í fjölmiðlana og það er það sem við sem ekki sækjum félagsfundi Framsfl. fáum um þennan fund að vita. En þessi þrjú hugtök eru gengisfelling, vitfirring, kosningar.
    Ég vil í upphafi máls míns minna á umræður um efnahagsmál sem fram hafa farið hér í þingsölum hvað eftir annað í vetur og reyndar ekki að óþörfu. Það eru margar ástæður fyrir þörfinni að taka þessi mál upp aftur og aftur. En fyrst og fremst er ástæðan sú að þjóðina skortir skýr og greinargóð svör frá hæstv. ríkisstjórn að ekki sé talað um raunhæfar aðgerðir. Hæstv. ráðherrar hafa hvað eftir annað samþykkt að koma til slíkra umræðna hingað í þingsali, en þeim hefur láðst að gefa fullnægjandi svör við þeim spurningum sem brenna á þjóðinni. Hafa fram bornar spurningar ýmist verið hunsaðar eða þeim svarað af þvílíku virðingarleysi að ekki er hægt við að una. Á sama tíma gefa sömu ráðherrar ýmsar yfirlýsingar á fundum vítt og breitt um landið eins og reyndar er tilefni þessara umræðna í dag og hafa notað utandagskrárumræður á Alþingi sem málfundaæfingar fyrir sjálfa sig.
    Með þessum sífelldu tilraunum til undankomu hafa þeir enn og aftur gefið tilefni til að knýja á svör í dag. Ég minni á að fólkið í þessu landi á heimtingu á að fá svör við grundvallarspurningum sem varða líf þess og hag.
    Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka efni þeirra umræðna sem hafa farið fram oft að undanförnu um þessi mál. Minni hins vegar á umræðu sl. mánudag sem fram fór að beiðni hv. þm. Þórhildar Þorleifsdóttur um efnahags- og kjaramál. En þar sem við þær umræður sem og hinar fyrri var heldur fátt um svör af hálfu ríkisstjórnarinnar ætla ég að nota tíma minn hér í dag til að hnykkja á þeim spurningum sem við höfum hvað eftir annað borið fram en hingað til hefur það jafnvel verið svo að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa kvartað undan skorti á spurningum við þær umræður sem hafa farið fram. Ég vonast til að úr þessu verði bætt í dag og skýr svör verði gefin og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í Morgunblaðið sl. mánudag þar sem haft er eftir hæstv. forsrh.:
    ,,Það hvernig tekst að fá fjármagnsmarkaðinn til að hjálpa okkur að ráða fram úr erfiðleikunum mun ráða framtíð þessarar ríkisstjórnar. Ef það mistekst og það verða stórir erfiðleikar í haust held ég að ríkisstjórnin hafi gengið þessa braut til enda.``
    Nú vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. hvernig ríkisstjórnin ætli að ná tökum á fjármagnsmarkaðnum. Þó vextir hafi lækkað lítillega virðist margt vera óunnið enn og langt í land. Síðan er þráfaldlega talað um hagræðingu í bankakerfinu og

vildi ég af því tilefni spyrja: Með hvaða hætti hyggst ríkisstjórnin ná fram þeirri hagræðingu, hvort fyrirhugaðar séu fleiri aðgerðir en lækkun vaxta og hagræðing bankakerfisins og hvers konar aðgerðir þá varðandi bankakerfið?
    Það er svo að meðan ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju hefur setið og við stjórnarskiptin hafði hún uppi ýmsar yfirlýsingar um jafnréttið og félagshyggjuna sem hér skyldi ráða ríkjum, en fyrstu aðgerðir urðu eins og menn muna að lögbinda kjarasamninga og setja á launafrystingu. Um áramótin máttum við sitja undir því að ríkisstjórnin komst upp með að afgreiða lög sem hækkuðu skattþrepið og lækkuðu persónuafsláttinn. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. nú: Hve mikið fé hefur verið fært frá skattborgunum til fyrirtækja frá Atvinnutryggingarsjóði, Verðjöfnunarsjóði og eftir öðrum opinberum farvegum?
    Varðandi stöðu fyrirtækjanna vildi ég spyrja hversu mörg fyrirtæki enn bíða afgreiðslu Atvinnutryggingarsjóðs eða Hlutafjársjóðs. Ég vildi einnig spyrja hvort ætlunin sé að flytja meira fé til fyrirtækjanna og ef svo er hvar er ætlunin að taka það fé. Það kemur fram núna, þegar vinnuveitendur og Alþýðusamband Íslands fara að ræða kjarasamninga sín á milli, að það virðist ekki vera mikið svigrúm hjá fyrirtækjunum og það er búið í vetur og að undanförnu að veita miklu fé til þeirra frá skattborgununum sem við munum reyndar vonandi fá svar við á eftir hversu mikið er. En ég vil spyrja líka: Hvaða fyrirætlanir hefur ríkisstjórnin um að treysta rekstrargrundvöll atvinnufyrirtækjanna og með hvaða hætti er ætlunin að búa fyrirtækjunum þá starfsaðstöðu sem þau þarfnast? Ég minni á að það er ekki lengur hægt að bæta stöðugt skuldastöðu þeirra, það verður að bæta rekstrargrundvöll þeirra, og það hefur þráfaldlega komið fram í umræðum um þessi mál.
    Ég nefndi þrjú hugtök sem fram komu á Kópavogsfundinum. Eitt af því var vitfirring. Langaði mig til að spyrja hæstv. forsrh. við hvað hann á þegar hann líkir kröfugerð þeirra BHMR-félaga sem nú eru í verkfalli við vitfirringu. Hverjar telur hann vera kröfur þeirra og á hvaða forsendum byggir hann útreikninga sína?
    Það kemur einnig fram í yfirlýsingum frá Kópavogsfundinum og hefur lítillega
verið rætt hér fyrr í dag að ríkisstjórnin hyggst grípa til aðgerða til að draga úr atvinnuleysi. Ég vil fá skýrari svör við því til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa í því skyni. Það kom reyndar fram í máli hæstv. forsrh. að eitt atriðið er samningur eða hluti af samningi BSRB um 15 millj. til landgræðslu sem veita á til að útvega skólafólki atvinnu sem kemur í þúsunda tali út á vinnumarkaðinn og er jafnvel komið núna vegna verkfalls kennara. Margir hafa sennilega endanlega gefist upp á skólanum og eru komnir út á vinnumarkaðinn. En það var gerður samningur um að verja 15 millj. til landgræðslu og mig langaði til að fá um það upplýsingar hér hvaða reglum á að beita við úthlutun þessa fjár, t.d. með tilliti til þess að skipta

því á milli landshluta og hvað er áætlað að þessar 15 millj. veiti mörgum unglingum vinnu.
    Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur á sér orð fyrir að vera óvinsælasta ríkisstjórn allra tíma. Það kom því svo sem ekki á óvart að hæstv. forsrh. skyldi nefna kosningar, enda eins og margoft hefur komið fram er meiri hluti hennar afar veikur ef hann er þá yfirleitt fyrir hendi í öllum málum. Það er svo sem ekki að furða að ríkisstjórnin skuli vera svo óvinsæl sem raun ber vitni ef marka má skoðanakannanir. En ég spyr hæstv. forsrh. vegna þess að síðan í haust hafa farið fram hálfgerðar stjórnarmyndunarviðræður, ja, stjórnarmyndunarviðræður formlega a.m.k. einu sinni ef ekki oftar, hvort ríkisstjórnin hyggist reyna að styrkja sig með liðstyrk t.d. frá næstminnsta þingflokknum sem nú er orðinn, þ.e. Borgfl.
    Ég vil aðeins koma inn á það sem hæstv. forsrh. minntist á áðan um atvinnuástandið og að það sé mismunandi eftir því um hvaða landshluta er að ræða og má vera að það sé rétt. Víðar mun þó vera um atvinnuleysi að ræða. En hann nefndi það að leita þyrfti að nýjum atvinnutækifærum í heimabyggðum þar sem fólk væri ekki reiðubúið að flytjast á milli staða. Get ég eiginlega ekki stillt mig um að nefna eitt dæmi um það hvers vegna fólk er ekki tilbúið að flytja sig um set. Eins og þingheimur veit hefur hæstv. félmrh. reynt að koma á umbótum í húsnæðiskerfinu, en ein grundvallarforsendan fyrir því að fólk vilji koma til annarra staða er að það geti gengið að húsnæði. Ein lausnin var sú að bjóða upp á ýmist félagslegar eða almennar kaupleiguíbúðir, en lög um þær tóku gildi á sl. ári. Nú rakst ég á dögunum á auglýsingabækling frá Akureyrarbæ um kaupleiguíbúðir og segir í upplýsingabæklingnum, með leyfi forseta:
    ,,Með kaupleiguíbúðum hyggst Akureyrarbær
    1. Gefa ungu fólki kost á kaupleigukjörum í upphafi búskapar.
    2. Auðvelda stækkandi fjölskyldu að auka við sig húsnæði.
    3. Gefa aðkomnu fólki kost á leigukjörum framan af veru sinni á Akureyri.
    4. Laða fólk með ferskar hugmyndir og frumkvæði í atvinnumálum til bæjarins.
    5. Laða fólk með menntun og verkkunnáttu sem skort hefur til bæjarins.``
    Þetta lítur mjög vel út og hér er skemmtileg mynd af nýju húsi sem þar stendur til að byggja og þar verða til sölu eða leigu kaupleiguíbúðir. En það renna tvær grímur á marga þegar þeir fara að hugsa til þess hvort þeir muni geta eignast eða leigt húsnæði í slíkum húsum því að hér stendur um úthlutunarreglur, með leyfi forseta: ,,Umsækjandi skal hafa nægar tekjur til að standa straum af kostnaði við kaupleigu á íbúðum, en til þess þarf a.m.k. 110.000 til 130.000 kr. fjölskyldutekjur á mánuði.`` Vil ég benda á að nú hafa nýverið verið gerðir kjarasamningar við BSRB þar sem stór hluti félagsmanna fær innan við 50.000 kr. í kaup á mánuði. Margir eru aðeins ofar en örugglega innan við 70.000 kr. Þær tekjur duga þó til þess að

fólki er hafnað í verkamannabústaði þannig að það er mjög mikill fjöldi fólks sem ekki einu sinni á þess kost að kaupa eða leigja þessar kaupleiguíbúðir. Ég nefni þetta sem dæmi um þá skekkju sem er í öllu okkar efnahagskerfi og minni á t.d. að þeir háskólamenntuðu ríkisstarfsmenn sem nú eru að fara fram á bætt launakjör eru að gera kröfu um byrjunarlaun upp á 71.000 kr. rúmar. Ekki hafa þeir væntanlega mikla möguleika til þess að komast í almenna kaupleiguíbúð. Ekki eru þeir nógu tekjulágir til að komast í verkamannabústað og það þarf ekki að minna á að í þeim hópi sem hefur í kaup á milli 50.000 og 70.000 kr. eru margar konur sem hafa eitt til tvö börn á framfæri sínu og eru eina fyrirvinnan. Þær eiga ekki möguleika þarna. Það er ekki von til þess að fólk flytjist á milli landshluta ef það mögulega kemst hjá því eða er í einhverju því húsnæði sem er heldur hagstæðara annars staðar.
    Ég lýsti því í upphafi að okkur hefðu þótt fremur fátækleg svör í umræðum um efnahagsmálin að undanförnu. Til að tryggja það að það kæmu einhver svör við þeim spurningum sem ég hef hér fram borið mun ég afhenda hæstv. forsrh. þær á blaði á eftir. Ég minni á að þetta aðgerðarleysi er að verða óþolandi. Það vita konur best allra manna að þegar illa árar í heimilisbúskapnum þýðir ekki að sitja undir eldhúslampanum og stara í gaupnir sér.