Ástandið í efnahags- og kjaramálum
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Sú utandagskrárumræða sem hér hefur farið fram og hefur átt að snúast um stefnu ríkisstjórnarinnar í skatta- og launamálum og efnahagsmálum er auðvitað mjög þörf og ég þakka hv. 1. þm. Suðurl. fyrir að hefja hana en hitt er að þjóðin hefur vafalaust ekki áhuga á að heyra þá stefnu því svo er hún í molum. Því hefði verið betra að tala sem minnst um hana, enda hefur það verið svo að hæstv. forsrh. hefur talað lítið um stefnuna enda engin stefna hjá núverandi ríkisstjórn.
    Þegar menn tala um efnahagsmál þá mega menn ekki gleyma veigamesta atriðinu í efnahagsmálum og það er þætti ríkisins. Nú hafa verið gerðir kjarasamningar við hluta af opinberum starfsmönnum sem þýða kauphækkanir upp á 9,5% að mati Þjóðhagsstofnunar og það segir sig sjálft að það hefur auðvitað áhrif á atvinnulífið, á fyrirtækin og á allt þjóðarbúið. Þegar núverandi ríkisstjórn lét samþykkja skattastefnu sína hér í þinginu með stuðningi stuðningsforeldra sinna hér í þinginu, þá voru ekki nokkur efni til þess að gera slíkt. Menn voru að taka fé sem ekki var til. Það var verið að ráðast á fyrirtækin í landinu og fólkið í landinu og taka fé þar sem ekki var til. Þetta auðvitað hefnir sín, það er ekki nokkur vafi. Þegar maður er upplýstur um það að í rekstri ríkissjóðs hafi ríkisstjórnin farið fram úr á árinu 1988 upp á tæplega 6,5 milljarða samkvæmt verðlagsbreytingum og raunaukningu, þá sér maður auðvitað hvar vandinn liggur. Hann liggur í rekstri ríkissjóðs. Ríkisendurskoðun hefur gefið skýrslu um þetta. Og af því að hæstv. fjmrh. er genginn í salinn þá spyr ég: Hvað hyggst hæstv. fjmrh. gera til þess að koma í veg fyrir eyðslu ríkissjóðs umfram það sem ætlað er á fjárlögum? Og hvað hyggst hæstv. forsrh. gera til að lina þá áþján sem ríkisstjórnin hefur lagt á þjóðina með núverandi sköttum og er meginatriði þegar við erum að ræða um þessi mál nú?
    Núverandi skattastefna hefur orðið til þess að það hefur dregið úr atvinnu. Það hefur orðið atvinnuleysi. Fyrirtæki eiga í erfiðleikum og þetta hefur miklu meiri áhrif en nokkur önnur atriði nú. Og þegar við sjáum fram á það á sama tíma að það eru í vændum gífurlegar hækkanir á olíuverði, sem hafa hvað mest áhrif á afkomu þjóðarbúsins, þá er ljóst að það er vá fyrir dyrum.
    Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir með skýrum hætti að atvinnufyrirtækin í landinu verði að bjarga sér sjálf. Ríkissjóður sé búinn að bjarga sér með því að leggja á hærri skatta og muni því ná tekjum til að standa fyrir sínum útgjöldum, en atvinnufyrirtækin, sem eru grundvöllur þjóðlífsins, þau geti bjargað sér sjálf. Fjmrh. hefur þannig lýst því yfir með skýrum hætti að atvinnufyrirtækin megi fara á hausinn. Það skipti engu máli ef ríkið geti bara haldið sínu. Og þá er spurningin þessi: Ef atvinnufyrirtækin, þar á meðal okkar mikilvægustu atvinnufyrirtæki sem er fiskvinnslan, fara á hausinn, hvað verður þá eftir handa ríkinu og hvar á þá að taka peningana? Það vita allir sem fást við umræðu um íslenskt efnahagslíf

að án þess að undirstöðuatvinnuvegirnir gangi stöðvast hjólin mjög fljótlega. Þess vegna er það ósvinna að hafa þá stefnu í frammi sem hér hefur komið fram. Sú lesning sem maður hefur eftir hæstv. forsrh. í sambandi við afkomuna á næstu tveimur mánuðum er ekki traustvekjandi.
    Hæstv. forsrh. sagði hér í ræðu sinni að hann vonaðist til að það yrðu hækkanir á fiski okkar, aðallega á Evrópumarkaði. Það er auðvitað ágætt að eiga von á hækkun, en þegar litið er til þess að fyrirtæki í sjávarútvegi eru stödd þannig að það er nánast um þjóðnýtingu á þeim að ræða, þá vitum við að þau þola ekki öllu lengur það ástand sem er nú eftir langvarandi tap. Eigið fjármagn þessara fyrirtækja er víða orðið ekkert eða minna en ekkert og slík fyrirtæki geta ekki staðið undir taprekstri til lengdar. Það er því nokkuð ljóst að það verður að grípa til róttækra ráðstafana.
    Ég hef haft trú á því að ,,pennastrikið`` hans Alberts væri tiltækt. Menn hafa oft hlegið að því en sannleikurinn er sá að e.t.v. er það eina aðferðin sem gengur í dag, að það sé slegið striki yfir ákveðinn hluta skuldanna þannig að fyrirtækin geti byrjað á núlli. Það er hins vegar ekki hægt að gera eins og nú hefur verið gert að stofna hvern sjóðinn á fætur öðrum sem aðeins framlengir þá skuldasöfnun sem hefur átt sér stað í atvinnulífinu.
    Hæstv. forsrh. sagði hér að verslunarfyrirtæki væru of mörg og það væri sársaukafullt að þau yrðu lögð af hvert á fætur öðru en það þyrfti að gerast. Ég er ekki sannfærður um að það hefði þurft að loka mörgum verslunarfyrirtækjum ef skattheimta ríkissjóðs hefði verið með öðrum hætti. Það er ekki nokkurt vafamál að núverandi skattar á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og eignarskattar koma mjög við mörg þau fyrirtæki sem fást við verslun. Ég hef séð dæmi um það að gamalgróin fyrirtæki, sem hafa átt skuldlausar eignir og hafa verið rekin með myndarbrag, eiga nú í erfiðleikum vegna þessara skatta. Það er einnig ljóst að þetta hefur áhrif á sumarvinnu fólks sem hefur fengið vinnu við þessi fyrirtæki mörg undanfarin ár. Það er því ekki hægt að segja það að sú tillaga, sem hér kom fram um að leggja 15 milljónir fram til að draga úr atvinnuleysi fyrir skólafólk, leysi mikinn
vanda. Það leysir sáralítinn vanda. Þegar farið er að framkvæma eða vinna hluti með þessum hætti þá erum við komnir aftur til þeirra tíma þegar bæjarfélög og ríkið voru að borga mönnum fyrir að vinna atvinnubótavinnu og það er ekki til framfara eins og tímarnir eru í dag.
    Ég vil segja það að heimilin í landinu eiga fyrst og fremst í erfiðleikum út af stefnu núv. ríkisstjórnar. Þegar þeir 7 milljarðar voru lagðir á umfram skatta á síðasta ári þá var það ljóst að það mundi bitna á heimilunum í landinu og atvinnurekstrinum. Þetta hefur nú komið fram. Það er því ekki skrýtið þó að fólkið í launþegahreyfingunni sé með háværar kröfur. Forustumenn launþegahreyfingarinnar hafa gert sér ljóst að launin duga ekki lengur til að reka heimilin.

Þegar hver fjögurra manna fjölskylda verður að borga 150 þús. kr. aukalega í skatta á ári þá kemur það auðvitað niður á þeim rekstri. Það er ekki nóg að segja hér í þinginu að menn verði að minnka einkaneysluna. Það er engin niðurstaða. Fólkið í landinu á kröfu á því að ríkisstjórnin minnki skattana því þá væri hægt að semja á allt öðrum grundvelli en hefur verið samið núna. Og ég er sannfærður um það að ríkisreksturinn, sem hefur aukist allverulega, er til ófarnaðar.
    Það verður að minnka þennan mikla yfirdrátt ríkisins á fjármagni og tekjum því ríkið hefur dregið til sín tugi milljarða umfram það sem eðlilegt getur talist. Það hefur valdið samdrætti í atvinnulífi, samdrætti sem hefur orðið til þess að fyrirtækin eru á hausnum. Og það er krafa að hæstv. forsrh. beiti sér fyrir því að ríkið skeri niður útgjöldin til samræmis við það sem Alþingi hefur ákveðið en fari ekki langt fram yfir þau mörk sem Alþingi ákveður hverju sinni því að það er aðalvandi þjóðarinnar. Og við getum litið til þess að það voru um 6,5 milljarðar sem var farið fram úr ákvörðunum Alþingis á sl. ári, eða 9%. Ef svo verður í ár eru hér miklar upphæðir á ferðinni sem er ekki hægt að verja. Ríkið verður að ganga á undan með góðu fordæmi og skera niður sín útgjöld á þeim liðum þar sem mest hefur verið farið fram úr á undanförnum árum og hjá þeim ráðuneytum þar sem farið hefur verið margfalt fram úr því sem fjvn. og hv. Alþingi hefur ákveðið. Það gengur ekki eins og hefur verið hér í ríkisrekstrinum að menn geti farið milljarða fram úr og næsta ár er það tekið inn í fjárlagaliðinn og síðan halda menn áfram að fara fram úr og fá alltaf hærri og hærri fjárhæðir. En þeir sem reka sín fyrirtæki hjá ríkinu og eru innan fjárlaga fá alltaf minna og minna í hlutfalli við hina sem reka illa fyrirtækin. ( Gripið fram í: Þetta er hárrétt.) Þetta er meginatriði í stjórnun íslenska ríkisins, og það verður að taka á þessum málum fyrst og fremst. Og ef á þeim væri tekið væri staðan í atvinnumálum, launamálum og afkomu þjóðarinnar góð. ( Forseti: Forseti vill vekja athygli hv. 11. þm. Reykn. á því að nú er komið að þeim tíma sem þingflokksfundir eiga að hefjast og því vildi ég spyrja hvort hv. þm. vill fresta ræðu sinni eða hvort hann er kominn að lokum ræðu sinnar þannig að fundi verði frestað.) Hæstv. forseti. Ég hef í raun nær lokið máli mínu og held að ég muni gera það þegar í stað.