Ástandið í efnahags- og kjaramálum
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Í tilefni af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram í dag langar mig til að minna hæstv. forsrh. á það og hæstv. forseta að enn þá hefur ekki verið lokið við að ræða hér skýrslu um stöðu og rekstur fiskvinnslufyrirtækja sem beðið var um 31. október á síðasta ári. Það tók tvo mánuði að fá þessa skýrslu gerða, hvort sem það var af einhverju tregðuvandamáli í kerfinu, eða hvað það var veit ég ekki. Síðan er þetta tekið til umræðu hér tveimur til þremur mánuðum eftir það. Nú er komið á fjórða mánuð. Ætli eigi að líða sex mánuðir, ætli það verði niðurstaðan, frá því að níu þingmenn biðja um skýrslu um stöðu fiskvinnslufyrirtækja þangað til málið verður rætt hér á hæstv. Alþingi? Þetta finnst mér alveg dæmalaust. Og þetta finnst mér einmitt dæmi um það hvernig framkvæmdarvaldið hundsar Alþingi Íslendinga, um upplýsingar um stöðu mikilvægustu atvinnugreinar Íslendinga. Ég leyfi mér að mótmæla þessum drætti og þessum vinnubrögðum. Þetta á ekki að þurfa að taka svona marga mánuði á tölvuöld. Þetta er bara alveg fyrir neðan allar hellur. Alþingi Íslendinga á fullan rétt á því og við alþingismenn að fá að vita sem fyrst um stöðu fiskvinnslufyrirtækja, en opinberlega hefur komið fram hvernig hún muni vera. En að vera að taka þetta hér til umræðu og eiga síðan eftir að ræða það enn þá frekar, svona löngu eftir að beðið er um það, það er bara fyrir neðan allar hellur.
    Ég má enn fremur til með að minna á það að ég hef lagt fram fsp. til hæstv. forsrh. um það hver eiginfjárrýrnun fyrirtækja í sjávarútvegi hafi orðið á árinu 1988, vegna þess að fram hafa komið alls konar útgáfur af þeirri stærð. Ráðherra hefur greint á um upplýsingar um eiginfjárrýrnun hjá fyrirtækjum á síðasta ári. Það er nauðsynlegt að öll tvímæli verði tekin af í þessu efni. Enn fremur var spurt hver yrði eiginfjárrýrnun fyrirtækja í sjávarútvegi á yfirstandandi ári miðað við núverandi efnahagsleg skilyrði. Það er þýðingarmikið að þessari spurningu verði svarað þannig að löggjafarsamkoma þjóðarinnar geti fengið upplýsingar um það hvað framkvæmdarvaldið er að aðhafast.
    Ég verð að minna hæstv. forsrh. á það eina ferðina enn að þessi eiginfjárrýrnun samrýmist ekki stjórnarskrá landsins. Eignarrétturinn er friðhelgur samkvæmt stjórnarskránni og stjórnvöld eru skyldug til að skapa þessari atvinnugrein sómasamleg skilyrði, þau skilyrði að þessi fyrirtæki geti þrifist án þess að þurfa að vera í einhverjum öndunarvélum og á gjörgæsludeildum hjá kerfinu.
    Ég er að tala, hæstv. forsrh., um meðalfyrirtæki. Það detta mörg aftur af samt sem áður þó svo að meðalfyrirtæki fái komist af án þess að þurfa að vera á þessum gjörgæsludeildum. Það er raunverulega alveg hræðilegt til þess að vita þar sem þessi hæstv. núv. ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju var mynduð til þess að bjarga atvinnulífinu eftir því sem hún sagði. Og það var helst og er enn þá rætt aðallega um að lækka fjármagnskostnað. Auðvitað þarf að lækka fjármagnskostnað en veit hægri höndin ekki hvað sú

vinstri gerir? Mér er spurn. Leiða skattahækkanir hæstv. ríkisstjórnar fyrir áramót til lækkunar á fjármagnskostnaði? Að soga fé út úr fyrirtækjum sem var verið að tala um að þyrfti að bjarga þannig að þau þyrftu að taka enn þá meiri lán, tapreksturinn yrði enn þá meiri. Leiðir það til lækkunar á fjármagnskostnaði? Það leiðir til stórkostlegrar eftirspurnar eftir lánsfé. Hvernig getur svona gengið upp? Það er ekki mikið sagt þó að maður segi að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir. Einhvern tímann var sagt: Skipstjóri vill sigla en byr hlýtur að ráða. Það er ekki nóg að tala alltaf um að bjarga atvinnulífinu og gera síðan ekki þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að atvinnulífið fái bjargað sér sjálft.
    Hæstv. forsrh. sagði hér í dag að kaupleigufyrirtæki hefðu sprottið upp eins og gorkúlur og verslunarhúsnæði hefði sprottið upp. Af hverju gerist svona lagað? Það er ekki fólkinu að kenna sem gerir þetta. Það er stjórnvöldum að kenna. Þau hafa ekki skapað rétt efnahagsleg skilyrði. Þá kemur alls konar spákaupmennska sem afleiðing af rangri efnahagsstefnu.
    Hæstv. forsrh. varð tíðrætt um það og er tíðrætt um það að nú sé verið að súpa seyðið af einhverri frjálshyggju. Ég botna ekki í svona tali. Ég verð að segja það. Til sjós nota menn loftvog, dýptarmæli og radar til að vita hvar þeir eru staddir, en í vestrænum ríkjum hefur frjálsræðið verið innleitt til þess að sýna fram á það að frjálsræði á mörkuðum er nokkurs konar mæling, sýnir þá mönnum hvar þeir eru staddir. En mér heyrist helst eftir þessum kenningum að ef þetta er allt saman frjálsræðinu að kenna er það sem sagt allt saman mælingunni að kenna. Mælingin sýnir einfaldlega hvernig efnahagsstjórnin er. Mælingin sýnir það að eftirspurn eftir fjármagni er allt of mikil. Og hvers vegna er eftirspurn eftir fjármagni svona mikil? M.a. vegna gífurlegs tapreksturs atvinnuveganna sem soga til sín fjármagn með vanskilum og nýjum lántökum. Ekkert af því sem hæstv. forsrh. er að tala um gengur raunverulega upp.
    Nú standa yfir kjarasamningar. Þeir kjarasamningar eru að verulegu leyti
bein afleiðing af skattahækkunum sem velt var yfir á launþega um áramót. Þar veit hægri höndin enn ekki heldur hvað sú vinstri var að gera. Og eðlilega snýst fólk til varnar gegn þessum skattahækkunum til að laga kjör sín. En það hlýtur flestum að vera ljóst að þeir kjarasamningar sem nú er verið að gera eru allir saman innistæðulausar ávísanir og raunverulega bara draumórar. Þetta er nátturlega einhvers konar nauðvörn fólks sem er að reyna að verja sig fyrir ágangi kerfisins.
    Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh.: Hverjar eru í dag t.d. tillögur Seðlabankans í efnahagsmálum? Ég hef alltaf litið svo á að Seðlabankinn væri einhvers konar ráðgjafi hjá framkvæmdarvaldinu og framkvæmdaraðili á vissum sviðum peningamála undir stjórn ríkisvaldsins. Hverjar eru tillögur Seðlabankans í dag til að koma á jafnvægisástandi? Og enn fremur

langaði mig til að spyrja hæstv. forsrh.: Er honum ekki ljóst að það er hlutverk ríkisvaldsins að koma jafnvægisástandi á í efnahags- og atvinnumálum? Ekki með einhverjum ofbeldisaðgerðum, heldur með því að skapa þau skilyrði þannig að t.d. á fjármagnsmörkuðum sé heildareftirspurn eftir fjármagni í samræmi við heildarframboð. Það er raunverulega ekki hægt, eins og ég hef sagt hér áður, að ætla hæstv. ráðherrum svo illt að þeir hafi ekki hugmynd um hvað þeir hafa verið að gera síðustu mánuði. Það er bara öldungis ekki hægt. Þeir ætluðu sér að leysa vanda atvinnuveganna, en niðurstaðan er sú að allt er komið í miklu verri stöðu en þegar þeir tóku við. Það er búið að skuldbreyta, það er verið að skuldbreyta en það er skuldbreytt á röngu gengi. Og hvað á svoleiðis gildra að þýða? Setja þessi fyrirtæki í þá gildru að taka við erlendu lánsfé á röngu gengi svo að loksins þegar menn neyðast til að viðurkenna það að gengið er rangt skráð fá fyrirtækin þetta framan í sig. Staðan verður enn þá verri en nokkru sinni fyrr. Það er ekki hægt að ætla það að mönnum hafi verið þetta ljóst því raunverulega trúi ég því nú að menn vilji vel og ætli sér að reyna að gera vel, en að neita að viðurkenna þá almennu hagfræði sem notuð er á Vesturlöndum, því botna ég ekki í. Hvaða vísindi eru það sem eiga að koma í staðinn? Því hefur aldrei verið svarað almennilega. Það er algjörlega óþolandi fyrir fólk í atvinnulífinu að búa við svona óvissu eins og er þessa dagana. Hvað gerir ríkisstjórnin á morgun? Hvað gerir hún hinn daginn? Hvernig verður gengið eftir einn mánuð? Hvernig verður gengið eftir tvo mánuði? Það er ekki hægt að reka fyrirtæki, hæstv. forsrh., með svona eintóma óvissu út um allt, og enga kjölfestu.
    Ég vil líka spyrja að því hvort hæstv. forsrh. sé það fyllilega ljóst að það er skylda stjórnvalda að skapa fyrirtækjum landsins eðlileg rekstrarskilyrði. Samkvæmt lögum um Seðlabankann er skylda að skrá gengi krónunnar þannig að afkoma undirstöðuatvinnuvega þjóðrinnar sé tryggð í útflutnings- og samkeppnisiðnaði. Er hæstv. forsrh. þetta ljóst? Mér sýnist að mönnum geti varla verið ljóst hvað þeir eru að gera. Sem dæmi er hækkun tekjuskatta, með leyfi hæstv. forseta. Það er nýkomið hér fram útreiknað af Vinnuveitendasambandi Íslands að hækkun tekjuskatta á sjávarútvegsfyrirtæki er 69%. Þetta eru fyrirtækin sem menn eru að tala um að fara að bjarga. Ef það skyldi nú koma fyrir að menn þénuðu í þessu til að reyna að rétta eiginfjárstöðuna við þá ætlar ríkissjóður að hirða 70%. Það á sem sagt ekki að vera hægt að mynda eigið fé í sjávarútvegi. (Gripið fram í.) Ég vil leyfa mér að líkja eiginfjárstöðu atvinnuvega landsmanna við stofnstærð nytjastofna okkar. Rýrnandi stofnar eru ávísun á versnandi lífskjör og rýrnandi eiginfjárstaða atvinnulífsins er ávísun á versnandi lífskjör og rýrnandi kaupmátt.
    Það má segja um hæstv. ríkisstjórn að hún geti sagt eins og postulinn forðum: Það góða sem ég gjöra vil það geri ég ei, en það illa sem ég vil ekki gjöra

það gjöri ég.