Ástandið í efnahags- og kjaramálum
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um það áður en ég sný mér að hinni alvarlegu hlið þessa máls að víkja örfáum orðum að hv. 1. þm. Reykv. Hann talaði hér lengi og talaði hér strítt áðan. Hann talaði um frelsið, það frelsi sem hans flokkur berðist fyrir og það frelsi sem markaðurinn byði upp á og það frelsi sem alls staðar væri verið að stefna að í kringum okkur. Þá verður honum litið á hæstv. forsrh. og sér hvar hann situr við að lesa í ljóðabók. Og hvað segir svo hv. 1. þm. Reykv.? Jú. Ég ætla að leyfa hæstv. forsrh. að lesa áfram. En auðvitað leit hann svo á að hann þyrfti leyfi frá 1. þm. Reykv. til þess að mega lesa. Það var nú frelsið sem hann ætlaði hæstv. forsrh., lestrarleyfi. Lestrarleyfi skyldi það vera frá 1. þm. Reykv. Er nú heil brú í þessari rökhyggju? Mér finnst að mikið vanti á að hugsunin sé eðlileg hjá manni sem telur að hann sé baráttumaður frelsisins, en lítur jafnframt á það sem verkefni sitt að ráða því hvort hæstv. forsrh. les eða ekki.
    Ég get ekki stillt mig um það að víkja örfáum orðum að því ágreiningsefni sem hér er fyrst og fremst klifað á fram og til baka. Það er spurningin um það hvort rétt hafi verið að gera samninga við BSRB áður en aðilar á hinum frjálsa vinnumarkaði voru búnir að semja. Nú er það svo að það hefur ekki gilt nein sérstök regla um þetta. Það er hins vegar athyglisvert að aðilar á hinum frjálsa vinnumarkaði voru búnir að leggja línurnar. Þeir gerðu það með fiskverðsákvörðun. Það var samið um hækkun á fiskverði um 8*y1/2*y%. Gerðu þeir sér virkilega grein fyrir því þegar þeir ákváðu þetta að auðvitað hlaut að verða litið svo á af hálfu annarra aðila að þar með væri stefnan að einhverju leyti mörkuð? Og þetta var ekki samþykkt með atkvæðum seljenda og oddamanni. Þetta var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Er það rökrétt að halda því fram að hinn frjálsi markaður hafi ekki verið búinn að taka ákveðna ákvörðun í þessum efnum? Ég held að fróðlegt sé að rifja það upp að hv. 1. þm. Suðurl. hefur verið reyndur af þessu þjóðfélagi sem framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands, sem fjmrh. og sem forsrh. og gera örlitla úttekt á því hvernig hann stóð að verki á þessum ýmsu tímum þegar hann gegndi hinum ólíku embættum.
    Þegar ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl., sem komst til valda 1983, markaði sína efnahagsstefnu lagði hún fram bráðabirgðalög um launamál. Þau eru dagsett 17. maí 1983. Með þeim bráðabirgðalögum var það samstaða á milli þessara flokka að nema úr gildi eitt og annað í kjarasamningum sem gerðir höfðu verið á milli ASÍ og samtaka atvinnurekenda undir stjórn Þorsteins Pálssonar. Þessir kjarasamningar voru taldir það ábyrgðarlausir og verðbólguhvetjandi að Sjálfstfl. greiddi atkvæði með því að rjúfa þá. Áður hafði Þorsteinn Pálsson, í viðræðum í sjónvarpi fyrir kosningarnar, lýst því yfir að samningarnir væru ábyrgðarlausir. Og þessir samningar voru teknir úr sambandi. Einn af þeim sem greiddi þessu atkvæði kemur hér í dyrnar, hv. 2. þm. Norðurl. e. ( HBl: Er

það His Master's Voice sem talar núna?) Og það var ekkert hik á honum. Hann var ekkert að biðja um nafnakall. Nei, það var ekkert hik á honum að staðfesta það að þessir samningar væru svo vitlausir að það yrði að rjúfa þá með bráðabirgðalögum.
    Jæja. Telja menn að þessi hv. 1. þm. Suðurl. hafi efni á því að koma hér upp í ræðustól og tala um það að aðrir geri óábyrga samninga? Hver hefði verðbólgan orðið hefði verið siglt eftir þessum samningum, hv. 1. þm. Suðurl.? Hver hefði hún orðið?
    En það vill svo til að það reyndi seinna aftur á hæfni hv. 1. þm. Suðurl. til að semja sem fjmrh. og það var fyrir kosningarnar 1987. Þá samdi hann við opinbera starfsmenn. Þeir samningar áttu eftir að kosta ríkisstjórn hans fall. Þetta veit hann. Þeir samningar voru framkvæmdir af manni sem var orðinn hræddur vegna kosninganna sem fóru í hönd. Það var stöðugt látið glymja á honum, það vantaði ekki, að hann væri óvinur launþega. Og hafði hann þrek til að standa þannig að þeim málum að þeir samningar væru raunhæfir? Nei, það brast þrekið og hann skrifaði upp á gjörsamlega óraunhæfa kjarasamninga.
    Við skulum örlítið víkja að því hvað hæstv. fyrrv. utanrrh. Geir Hallgrímsson hafði að segja í umræðum um efnahagsmál á Alþingi Íslendinga á 17. fundi Sþ. 1984. Þar er verið að tala um bráðabirgðalögin þar sem ákveðið var að rjúfa áður gerða samninga. Hann segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Á Alþingi hinn 26. okt. sl. komst ég svo að orði í umræðum um þetta efni hér á Alþingi, og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa það orðrétt upp:
    ,,Afstaða okkar er í stuttu máli sú að við sjálfstæðismenn stöndum að ákvæðum bráðabirgðalaganna og berum ábyrgð á þeim og munum þess vegna standa að samþykkt frv. þess sem flutt er til staðfestingar þeirra. En það liggur í augum uppi að við teljum eðlilegt og sjálfsagt að frv. fái þinglega meðferð og kannað sé hvort rétt er að falla frá eða breyta því ákvæði frv. að nýir samningar um kaupgjald taki ekki gildi fyrr en 1. febrúar nk., enda sé markmiði ríkisstjórnarinnar í baráttunni gegn verðbólgu engu síður náð.
    Hæstv. forsrh. hefur áður gefið efnislega sams konar yfirlýsingu hér á Alþingi og við báðir raunar einnig á samráðsfundi með aðilum vinnumarkaðarins.
Á þeim samráðsfundi með aðilum vinnumarkaðarins lögðum við áherslu á það sem ég hef sagt hér í þessum fáu orðum mínum að aðilar hæfu strax viðræður um gerð nýrra kjarasamninga svo að unnt væri að komast að niðurstöðu þar að lútandi --- niðurstöðu sem einkum taki mið af tveimur höfuðþáttum: Í fyrsta lagi, að grundvöllur verði lagður að framfarasókn atvinnuveganna sem til þess skapaði skilyrði að bætt yrðu launakjör í landinu með raunhæfum hætti og í öðru lagi, að nýir kjarasamningar bæru fyrst og fremst merki þess að menn kæmu sér saman um að bæta kjör hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu.``
    Ég skal svo leiða hjá mér efnislegar umræður að

öðru leyti, en vil leggja áherslu á að allir þingmenn leggist nú á eitt og flýti afgreiðslu þessa frv. til staðfestingar bráðabirgðalaganna svo að skýrar línur myndist og aðilar vinnumarkaðarins, eftir atvikum í samráði og samstarfi við ríkisstjórnina, geti snúið sér að því að leysa málin með tilvísun til þess hve alvarlegt ástand blasir við þjóðinni.``
    Hvað er hæstv. þáv. utanrrh. Geir Hallgrímsson að segja? Hann vill fá ábyrga kjarasamninga í staðinn fyrir þá kjarasamninga sem núv. 1. þm. Suðurl., þáv. framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands, Þorsteinn Pálsson, skrifaði undir. Það er merkilegur hlutur að þegar þetta er gert er auðvitað verið að undirstrika það að aðilar vinnumarkaðarins höfðu ekki gert með sér raunhæfa kjarasamninga. Þeir höfðu gert með sér svo verðbólguhvetjandi kjarasamninga að menn töldu að þjóðarvoði stafaði af. Það er ekki skrýtið þó að annar foringinn fyrir þeim kjarasamningum, þ.e. þáv. framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands, telji sér skylt að leiðbeina nú um hvernig eigi að standa að kjarasamningum.
    Í umræðum utan dagskrár 11. apríl 1984 tekur hv. 1. þm. Suðurl. til máls og flytur ræðu um efnahagsmál. Ég hygg að ekki sé hægt að víkjast undan því, herra forseti, að lesa, með leyfi forseta, þó nokkurn hluta af þessari ræðu:
    ,,Þessi ríkisstjórn var ekki mynduð til þess að missa tök á stjórn ríkisfjármálanna og þar af leiðandi mun hún auðvitað takast á við það verkefni sem við blasir nú, að tryggja greiðslujöfnuð á rekstri ríkissjóðs. Það er óhjákvæmileg forsenda efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að það takist að halda gengi krónunnar tiltölulega stöðugu. Það er meginástæðan fyrir þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni við verðbólguna að gengi krónunnar hefur verið tiltölulega stöðugt síðan efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar voru gerðar á sl. vori. Þeirri stefnu verður að sjálfsögðu fram haldið.
    En hitt má öllum vera ljóst, svo sem hæstv. forsrh. hefur bent á, að verulegur halli á rekstri ríkissjóðs mundi nú eins og áður, þegar Alþb. hafði stjórn ríkisfjármála með höndum, leiða til óðaverðbólgu. Þess vegna er óhjákvæmilegt að takast á við þennan vanda.
    Það er rétt sem hv. 3. þm. Reykv. bendir á að afleiðingarnar af því að ekki yrði tekist á við vandann mundu hafa kjaraskerðingu í för með sér. Þannig gengu mál fyrir sig meðan ríkisfjármálin voru undir stjórn Alþb. Það er alveg hárrétt að þetta mundi gerast aftur ef ekki yrði tekist á við vandann. Það er af þeim sökum að við mundum fara af leið í baráttu okkar gegn verðbólgunni og við mundum ekki tryggja það kaupmáttarstig sem við höfum leitast við að halda þrátt fyrir veruleg áföll í þjóðarbúskapnum sem okkur er óhjákvæmilegt að takast á við þetta verkefni.
    En það er ekkert hlaupið að því að ná saman endum í þessum efnum. Eðlilegt er að það taki nokkurn tíma að finna lausn sem leiðir okkur ekki af braut í baráttu okkar fyrir efnahagslegu jafnvægi. Öllum má vera ljóst að við þessar aðstæður er

útilokað að mæta öllum þessum vanda með niðurskurði á útgjöldum ríkisins. Meginhluti ríkisútgjaldanna er á sviði heilbrigðis- og tryggingamála og menntamála. Við ætlum okkur ekki í einu vetfangi að standa þar að slíkum niðurskurði að hann jafnaði þessi met. Það er ekki í samræmi við okkar markmið og mundi ekki þjóna þeim hagsmunum sem við erum að vinna að. Þess vegna getur niðurskurður á útgjöldum ríkisins ekki leyst þennan vanda að öllu leyti, en hann er óhjákvæmilegur að hluta.
    Þess vegna komumst við ekki hjá því að einhverju leyti að afla nýrra tekna. Við komumst heldur ekki hjá því að neytendur opinberrar þjónustu taki aukinn þátt í þeim kostnaði og svo kann að fara að að einhverju leyti verði að auka erlendar lántökur til þess að endar nái saman. Auðvitað er það erfitt verk að ganga frá ríkisfjármálum með þeim hætti. En þetta eru hinar köldu staðreyndir sem menn hafa fyrir augunum og þessi mál verða auðvitað ekki leyst öðruvísi en að menn viðurkenni þær og bregðist við í samræmi við það.
    En að lokum er rétt að undirstrika og leggja á það ríka áherslu að stefna ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna í efnahagsmálum er óbreytt. Það verður hér eftir sem hingað til meginforsendan fyrir því að ná efnahagslegu jafnvægi að halda gengi krónunnar tiltölulega stöðugu. Frá því verður ekki vikið.``
    Hvaða úrræði eru það sem þarna er drepið á? Jú, það er talað um aukna skattheimtu. Það er talað um að það eigi að hafa hallalausan ríkisrekstur. Náði hæstv. fyrrv. fjmrh., núv. 1. þm. Suðurl., þessu markmiði þegar hann var fjmrh.? Ekki varð ég var við það. Það var dúndrandi halli á ríkisrekstrinum,
alveg dúndrandi halli. Það tókst miklu betur til hjá Albert Guðmundssyni þegar hann var fjmrh. að láta gjöld og tekjur passa. Það var mikill munur á. En núna þegar við stöndum vissulega í erfiðleikum, þá vantar ekki að hv. 1. þm. Reykv. lætur sem hann hafi ráð undir hverju rifi. Allt það sem kemur fram í þeim hugmyndum sem hér eru settar fram af Þorsteini Pálssyni, hv. 1. þm. Suðurl., í þeirri ræðu sem ég las upp, það telur núv. 1. þm. Reykv. hreint rugl. Það er merkilegur hlutur að þessir menn skuli tolla í sama stjórnmálaflokki miðað við þá upplausn sem er í hlutunum nú á dögum.
    Ég verð að segja það eins og er að það er dálítið hvimleitt þegar stjórnmálamenn festast á sama hátt og gerist einstaka sinnum með grammófónplötur í ákveðnu fari og það dynur alltaf það sama. Þá 14 mánuði sem Þorsteinn Pálsson, hv. 1. þm. Suðurl., var forsrh. þá dundi það stöðugt: Höldum genginu föstu, höldum genginu föstu, höldum genginu föstu. Útlærður páfagaukur hefði ekki skilað þessu hlutverki betur að tilkynna þetta til þjóðarinnar. Og hvað er það sem dynur í dag stöðugt af hálfu Þorsteins Pálssonar, hv. 1. þm. Suðurl., í stjórnarandstöðunni? Fellum gengið, fellum gengið, fellum gengið, fellum gengið. Þetta dynur stöðugt og undir þennan kór tekur mjög

kröftuglega hv. 1. þm. Reykv. Það hefði kannski verið betra að blanda þessu örlítið saman og hafa ekki þennan söng svona einhliða eins og hann hefur verið. Mér finnst nefnilega að það sé eins og hv. 1. þm. Suðurl. hafi gleymt því sem hann þó boðaði gjarnan í fjölmiðlum þegar hann var spurður um efnahagsmál og það var: Efnahagsmálin eru ekki eitthvað sem leyst er í eitt skipti fyrir öll heldur stöðugt viðfangsefni.
    Ég hygg þess vegna að íslenskri þjóð sé það ágætlega ljóst að það er ekki meiri ábyrgð í þeirri umræðu sem stjórnarandstaðan heldur hér uppi heldur en var í þeim samningum sem gerðir voru annars vegar af fjmrh. hv., Þorsteini Pálssyni, eða framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, Þorsteini Pálssyni. Og það öngþveiti sem skapaðist í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar er verkefni sem tefur fyrir að leysa. Sem betur fer þróast þó hlutirnir á betri veginn, enda binda menn sig ekki fasta hvorki við það að hér skuli skilyrðislaust vera haldið föstu gengi krónunnar eða hitt að það eigi ekki að gera neitt annað en að fella gengi krónunnar.