Ástandið í efnahags- og kjaramálum
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að hann hefur ekki svarað þeim markvissu spurningum sem til hans hefur verið beint. Ég efast heldur ekki um að hæstv. forsrh. hefur a.m.k. um tíu sinnum hlustað á þau viðhorf sem hafa komið fram í okkar ræðum. Við getum því miður ekki haldið því fram að við höfum tíu sinnum hlustað á svör við þeim fyrirspurnum sem komið hafa fram í okkar ræðum.
    Hæstv. ráðherra gerði lítið úr orðinu ,,skuldskeyting`` og taldi það orð vera fundið upp til þess að gera grín að aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ég vil aðeins segja frá því að hugtakið skuldskeyting er hugtak sem notað er í lögfræði, hefur alveg ákveðna merkingu þar og er einmitt ein af þeim aðgerðum sem hæstv. ríkisstjórn hefur gripið til. Hugtakið hefur enga merkingu til góðs eða ills, er aðeins lýsing á því hvað gerist þegar skipt er um skuldara í ákveðnum samningum um fjármuni.
    Hæstv. ráðherra varð heldur svarafátt þegar rætt var um svokallaða frjálshyggju, sagði að frjálshyggja væri ekki það sama og frjálsræði en fór ekki nánar út í þá sálma. Ég lái honum það ekki því að ég held að hæstv. forsrh. hafi ekki hugmynd um hvort það sé munur á þessum hugtökum né heldur hver hann er. Það hefur margoft komið fram þegar hæstv. forsrh. hefur verið spurður um þessi atriði að þá hefur hann ekki hugmynd um hvað hann er að tala um þegar hann tekur sér í munn hugtakið frjálshyggja. Helst var að skilja á hans máli að munurinn á því sem væri hér á landi og annars staðar væri að hér á landi væru fjárskuldbindingar verðtryggðar en annars staðar ekki. Ég veit ekki hvort það átti að skilja hann svo að það væri frjálshyggja að verðtryggja fjárskuldbindingar. Ef það er svo, þá vil ég rifja það upp fyrir hæstv. forsrh. að það var ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar sem fann þetta upp og setti í lög, í lög nr. 13/1979, sem stundum kallast Ólafslög í höfuðið á Ólafi Jóhannessyni, fyrrv. formanni Framsfl.
    Það liggur fyrir, virðulegi forseti, eftir þessar umræður að hæstv. ríkisstjórn hefur viðurkennt að hún beri ábyrgð á þeim samningum sem gerðir hafa verið við starfsmenn ríkis og bæja. Það liggur líka fyrir eftir þessar umræður og þær umræður sem fóru fram fyrir viku síðan að þessir kjarasamningar eru leiðandi samningar fyrir aðra sem eiga eftir að gera kjarasamninga sín á milli. Hæstv. ráðherra hefur ekki fengist til að svara þeim meginspurningum sem til hans var beint. Hann hefur farið undan í flæmingi, nefnt það til sögunnar að gengið hafi verið fellt í nokkrum áföngum um 13,3% á síðustu sex mánuðum en nefndi það ekki í sinni ræðu að verðbólgan hér nú síðustu þrjá mánuðina er um 30%, ef þessir þrír mánuðir eru teygðir upp til árs eða verðhækkanir á þessum þremur mánuðum eru teygðar upp til árs. Þetta liggur fyrir.
    Hæstv. ráðherra fæst ekki til að svara spurningum. Hann fæst ekki einu sinni, virðulegur forseti, til þess að svara því hvort hann sé fremur sammála hæstv.

sjútvrh. en hæstv. fjmrh. því að hæstv. sjútvrh. hefur þó sagt að það komi ekki til greina annað en að hreyfa gengi íslensku krónunnar ef kjarasamningar BSRB koma til með að ganga yfir atvinnulífið í heild. Hæstv. forsrh. fæst ekki til að svara þessari meginspurningu um það hvort ríkisstjórnin muni sjá til þess að rekstrarskilyrði atvinnulífsins verði ekki verri þótt þessir hóflegu kjarasamningar við BSRB verði fyrirmynd annarra kjarasamninga.
    Niðurstaðan úr þessum umræðum er sú, að hæstv. ráðherra vill ekki svara. Það viljaleysi verðum við að skilja svo að hæstv. ríkisstjórn hafi enga stefnu í þessum málum. Hún hefur ekki komið sér saman um það hvað hún ætlar að gera eða hæstv. ráðherrar hafa ekki komið sér saman um það hvað hún hyggst gera þrátt fyrir það að allar forsendur liggi á borðinu. Hæstv. ríkisstjórn hefur enga stefnu. Það er sá dómur sem liggur fyrir eftir þessar umræður hér í kvöld.