Jarðræktarlög
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á jarðræktarlögum nr. 56/1987. Frv. gerir ráð fyrir því að breytt sé tveimur greinum í gildandi jarðræktarlögum og er breyting þessi lögð til eftir þá reynslu sem fengist hefur af framkvæmd gildandi laga nú hin síðustu ár og í ljósi breyttra aðstæðna. Snertir breyting þessi ákvæði gildandi laga um framlög ríkissjóðs til jarðabóta. Rétt er að vekja athygli á því að með frv. fylgir áætlun um breytingar á heildarframlögum ríkissjóðs til jarðræktarlaga, annars vegar miðað við óbreytt lög og hins vegar miðað við að frv. þetta næði fram að ganga. Eins og þar kemur fram má gera ráð fyrir að breytingar þessar hafi í för með sér allt að 50 millj. kr. lækkun á framlögum ríkissjóðs milli ára miðað við framkvæmdir eins og þær voru á fyrra ári. Vakin er sérstök athygli á því að kostnaðartölur eru þar miðað við verðlag ársins 1988 en samanburðartölur í athugasemdum við 2. gr. frv. miðast við verðlag ársins 1986, þ.e. þær verðtölur sem eru í gildandi jarðræktarlögum. Nauðsynlegt er, vegna samanburðar, að menn geri sér grein fyrir þessum mun. Þessi háttur er hafður á til að sýna sem gleggsta mynd af þeim breytingum sem verða á framlögum ríkissjóðs ef af samþykkt frv. verður.
    Í 1. gr. þessa frv. er lögð til breyting á núgildandi 7. gr. jarðræktarlaga en þar er fjallað um skilyrði þess að framkvæmdir njóti framlags samkvæmt lögum. Breytingin hefur þá meginbreytingu í för með sér að gert yrði ráð fyrir að sækja þyrfti fyrir fram um öll jarðræktarframlög og enginn geti reiknað með framlagi fyrr en menn hafa fengið það skriflega samþykkt eða skriflegt svar þar um. Mundu þá loforð um framlög byggjast á samþykktum fjárlögum sem gerði kleift að greiða framlögin mjög fljótt eða tiltölulega fljótt eftir að framkvæmdum lyki. Hér er um talsvert mikla grundvallarbreytingu að ræða og mundu þá útgjöld samkvæmt þessari grein og lögum þessum færast til sambærilegs forms við flesta aðra fjárlagaliði að því leyti til að fyrir lægi áætlun um útgjöldin við fjárlagagerðina vegna framkvæmda komandi árs en ekki yrði um eftiráuppgjör að ræða með þeim hætti sem undanfarið hefur verið og gildandi lög gera ráð fyrir.
    Það má því segja að útgjöldin hvað ríkissjóð snertir mundu með þessum hætti færast yfir á staðgreiðslugrunn og ætti það að sjálfsögðu einnig að koma þeim sem framlaganna njóta til góða.
    2. gr. frv. gerir ráð fyrir talsverðum breytingum á ákvæðum 10. gr. jarðræktarlaganna. Þar er fjallað um, eins og kunnugt er, ríkisframlög til hinna einstöku framkvæmda og eru helstu breytingarnar eftirfarandi:
    Felld eru niður framlög á vélgrafna skurði og klóræsi nema í tengslum við endurræktun, sömuleiðis framlög á nýræktir, girðingar um ræktuð lönd og til kölkunar túna. Þó er mikilvæg undantekning þar frá sem er heimild til framlaga vegna nýræslu og nýræktar þar sem sérstakar ástæður mæla með. Þar er fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem skilyrði til

endurræktunar eru alls ekki fyrir hendi eða endurræktun er sannanlega óhagstæðari en nýrækt.
    Þessi breyting er gerð til samræmis við þær breyttu aðstæður að þörfin fyrir að brjóta nýtt land og rækta ný tún er við þær aðstæður sem hinn hefðbundni búskapur býr nú við hvað framleiðslumál snertir ekki talin sú sem áður var. Því sé eðlilegt að leggja áherslu á að endurrækta og nýta það land sem þegar hefur verið brotið og gera ekki ráð fyrir framlögum til nýræktar eða nýrrar framræslu á landi nema í þeim tilvikum sem endurræktunarmöguleikar eru ekki fyrir hendi eða eins og áður sagði sannanlega óhagstæðari en nýrækt.
    Þá er gert ráð fyrir að framlög ríkissjóðs lækki úr 70% kostnaðar við framræslu vegna endurræktunar í 55%.
    Gert er ráð fyrir að felld verði niður framlög til nýræktar en framlög til endurræktunar lækkuð. Framlög til endurræktunar voru áður 19.000 kr. á hektara á þurrkuðu mýrlendi en 13.000 kr. á hektara á þurrlendi en verða nú 12.000 kr. á hektara án tillits til jarðvegsgerðar.
    Lagt er til að framlag til korn- og fræakra verði hækkað úr 6500 kr. í 8000 kr. á hektara þegar um frumræktun er að ræða. Þetta er gert til þess að hvetja menn til að brjóta land og fara út í þessa ræktun. Hún hefur verið vaxandi undanfarin ár eins og kunnugt er og þar er á ferðinni vaxtarsproti sem sjálfsagt þykir að hlúa að og reynt er að sýna þann vilja í verki með því að hækka þarna nokkuð framlög til korn- og fræakra þegar um frumræktun er að ræða.
    Þá er lagt til að framlag til byggingar á votheyshlöðum lækki úr 670 kr. í 447 kr. á hvern rúmmetra.
    Vakin er sérstök athygli á því nýmæli að gert er ráð fyrir að heimilt sé að greiða sambærileg framlög eftir öðrum viðmiðunum en rúmmetrafjölda samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Er tilgangurinn sá að gera ekki upp á milli mismunandi byggingar- eða tækniaðferða sem bændur nota til þess að varðveita búfjáráburð ef báðar aðferðirnar skila jafngóðum árangri. T.d. yrði samkvæmt þessu mögulegt að veita jafnt framlag til bónda sem byggir vélgengan kjallara og annars sem byggir þró með dælubúnaði ef báðar geymslurnar rúma ársáburð eftir 30 kýr þótt rúmmetrafjöldinn sé ekki sá sami.
    Þetta eru helstu breytingar sem frv. hefur í för með sér á jarðræktarlögunum, annars vegar 7. og hins vegar 10. gr. Að öðru leyti eru ákvæði óbreytt.
    Ég hygg að ekki sé ástæða til að rekja í löngu máli hér aðdraganda frv. Hann á að vera hv. þingdeildarmönnum nokkuð kunnur. Um það hafa farið fram þegar á þessum vetri umræður, bæði í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og eins hér í hv. Ed. svo að ég man eftir. Meginástæðan er að undanfarin ár hafa ekki verið veitt framlög á fjárlögum nægjanleg til þess að standa við skuldbindingar gildandi jarðræktarlaga. Þess vegna hafa myndast þar umtalsverðar skuldir við bændur og ég hygg að það sé samdóma álit manna að það sé óheppileg þróun og

öllum sé fyrir bestu að reyna að hafa löggjöfina í því formi að pólitískur vilji sé fyrir hendi til þess að greiða fram þau framlög, þá fjármuni sem framkvæmd laganna kostar ár frá ári.
    Í tengslum við þessa lagasetningu er, eins og hv. þingdeildarmönnum mun jafnframt kunnugt, áformað að taka ákvarðanir um að gera upp þær skuldir sem fyrir liggja vegna framkvæmda fyrri ára og yrði það byggt á heimildum þar til í lánsfjárlögum sem nýlega hafa verið afgreidd frá hinu háa Alþingi.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég svo til að frv. verði vísað til hv. landbn. deildarinnar.