Jarðræktarlög
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Við eigum það víst sammerkt, ég og hæstv. landbrh., að vera slæmir af kvefi og má kannski vera að umræðan beri þess einhver merki.
    Frv. sem hér er til umræðu, frv. til laga um breytingar á jarðræktarlögum, er tímamótafrumvarp. Ég hygg að frá því að jarðræktarlögin voru samþykkt árið 1923 hafi boðskapur frv. eða þeirrar endurskoðunar sem fram hefur farið á þeirri löggjöf verið í öllum tilvikum með allt öðrum hætti en á sér stað núna. Hér er boðaður samdráttur og hér er boðuð kyrrstaða í stað þess að við endurskoðun jarðræktarlaganna hverju sinni hefur verið leitast við að leggja grundvöll að þróun í íslenskum landbúnaði, betri ræktun og bættum búskaparháttum. Frá þessu er nú horfið. Í þessu felast tímamót. Og hér kemur raunar fleira til því að endurskoðun jarðræktarlaganna hefur jafnan verið borin uppi af bændum landsins. Venjulega hafa samtök þeirra átt frumkvæði að þeirri endurskoðun og svo merkilegt sem það kann nú að virðast hefur niðurstaðan venjulega verið sú, og alla tíð sem ég veit til sem er nú orðið nokkurt árabil, að þannig hefur verið frá þessum málum gengið að Alþingi hefur fallist á þau í meginatriðum. Stundum hefur verið tekið upp samráð á milli starfandi landbrh. og bændanna við þessi störf þannig að menn hafa að sjálfsögðu virt skoðanir hver annars og þá um leið hefur það auðveldað að bera það fram sem mestu varðaði og gæti þá náð fram á Alþingi. Hér er líka horfið frá þeim vinnubrögðum sem hafa gilt í þessum efnum.
    Hæstv. landbrh. lagði fyrir síðasta búnaðarþing frv. til laga um breytingar á jarðræktarlögunum. Búnaðarþing afgreiddi tillögur um þetta erindi hæstv. landbrh. og tók mið af þeim áherslum sem þar komu fram. Það vill nú meira segja svo til að ég var í hópi þeirra búnaðarþingsfulltrúa sem fjölluðu um málið á búnaðarþingi. Og eins og reyndar afgreiðsla búnaðarþings ber með sér og greinilega kemur fram í greinargerð sem fylgdi afgreiðslu þingsins var þar ekki talin nein þörf á því að gera breytingar á jarðræktarlögunum og það var meira að segja rökstutt en það var aftur leitast við nú eins og áður að virða hin pólitísku sjónarmið, ráðandi sjónarmið eins og þau voru hér og eru hér á Alþingi, og meira að segja tók ég þátt í þessari sáttargjörð af hendi bændasamtakanna þó að ég sé í stjórnarandstöðu hér á Alþingi.
    Nú hafa menn aftur á móti fengið að sjá niðurstöðuna af þessari viðleitni búnaðarþings. Tillögur þingsins voru að engu hafðar, engu sem nokkru máli skipti. Þrælatökin voru eftir sem áður bundin í frv. eins og þau koma fram á því þingskjali sem við ræðum hér á þessum degi.
    Það er vissulega eftirtektarvert að í frv. eins og það er lagt hér fram koma ekki fram neinar skýringar. Þar er þagað þunnu hljóði yfir því hver sé ástæðan fyrir þessum breytingum. Það er mjög óvenjulegt. Hæstv. landbrh. vill af augljósum ástæðum ekki tala um þá hluti og svo einkennilegt sem það kann að virðast hefur maður helst heyrt það manna á milli hér

í þinginu að það sé verið að þóknast Alþfl. með þessari frumvarpssmíð. Það vill nú svo til að Alþb. á bæði landbrh. og fjmrh. og þykir engum mikið þótt hv. formaður landbn. Ed. Alþingis fari nokkuð að ókyrrast því að sú var tíðin að Alþb. boðaði breytta og betri tíma með auknum áhrifum þess í málefnum bændanna í landinu og hinna dreifðu byggða. Ég hygg að víða megi finna dreifimiða um þau efni og öll munum við eftir því hvað menn voru stórir í sniðum þegar var verið að fjalla hér um búvörulögin á árum áður og hvað Alþb. ætlaði að koma miklu og mörgu góðu til leiðar í málefnum landbúnaðarins þegar kæmi að því. Hér eru efndirnar, herra forseti.
    Ég hygg að aðalástæðan fyrir þessum mikla áhuga hæstv. landbrh. á að koma fram breytingum á jarðræktarlögunum sé leifar af gamalli umræðu, leifar af umræðunni frá þeim tíma sem landbúnaðarvörur söfnuðust hér upp en þá var jafnan um það talað að það væri ekki í samræmi við það að ríkisvaldið styddi að aukinni framleiðslu með því að styrkja jarðræktarframkvæmdir. Og ég hygg að það megi fá tölulegar staðreyndir fyrir þessu.
    Í afgreiðslu búnaðarþings á erindi landbrh. kemur það fram að jarðræktarkostnaður við jarðræktarlögin hefur farið stöðugt minnkandi ár frá ári. Þannig nam sá kostnaður árið 1984 347 millj. kr. en á sl. ári 162 millj. Þetta er miðað við verðlag síðasta árs. Þessi kostnaður hefur minnkað um 200 millj., meira en helming á fimm árum. Og það er athyglisvert að árið 1984 var kostnaður við jarðræktarlögin á verðlagi þess árs 145 millj. kr. Á sl. ári var sambærilegur kostnaður á verði ársins 1988 162 millj. kr. Það hefur dregið úr þessum kostnaði um verðlagshækkanirnar sem hafa orðið á fimm árum.
    Ég er ekki viss um að hæstv. landbrh. hefði látið þvæla sér út í það að flytja þetta dæmalausa frv. ef hann hefði haft fyrir því að kynna sér staðreyndir í þessum efnum. (Gripið fram í.) Það fer vel á því, enda er auðvelt að finna fordæmin því að hv. formaður landbn. Ed. fór með sitt lið til þess að vera við umræður á búnaðarþingi í morgun. Sá einstæði atburður hefur nú gerst að búnaðarþing hefur verið kvatt saman til aukafundar til þess að fjalla um þau mál sem hér eru til meðferðar á Alþingi og eiga það sammerkt, landbúnaðarmálin, að óskir búnaðarþings hafa að engu verið virtar nálega í
öllum þeim málum. (Gripið fram í.) Það er grundvallaratriði að menn skilji hvernig þessi þróun hefur orðið á síðustu árum og það er barnaskapur, hreinn barnaskapur, að halda það að menn séu að brjóta land til ræktunar eða byggja upp í sveitum landsins í öðrum tilgangi en að bæta búreksturinn. Ef menn ættu virkilega að fara yfir þau mál, þá er það orðið áhyggjuefni, það er orðið virkilegt áhyggjuefni, að framkvæmdir í sveitum landsins eru ekki í neinu samræmi við þörfina og nauðsynlegt viðhald á þeim eignum sem þar eru. Og það er áhyggjuefni að hæstv. landbrh. sem fer með þessi mál skuli ekki átta sig á því hvert stefnir í þessum efnum. Það hafa nefnilega átt sér stað mjög mikilvægar og eftirtektarverðar

breytingar í búskaparháttum í íslenskum landbúnaði á síðustu árum.
    Það styttist nú í það að framleiðsla í hefðbundnum greinum landbúnaðarins verði í samræmi við markaðsþörfina hér innan lands og við þau markmið eiga bændur landsins að standa. Það er líka eftirtektarvert að framleiðsluvörur í hefðbundnum greinum, bæði mjólkurvörur og dilkakjöt, hafa lækkað á síðustu árum. Það hefur dregið úr kostnaði við þessa framleiðslu og til bændanna kemur núna minni hluti af hverri framleiðslueiningu en áður var. Þetta hygg ég að fáir hafi gert sér ljóst að á sama tíma og bændur eru að aðlaga framleiðslu sína að breyttum framleiðslumarkmiðum og þurfa þar af leiðandi að taka á móti mörgum óþægilegum ákvörðunum hefur búvöruverðið samt lækkað. Og af hverju ætli þetta hafi átt sér stað? Af því að þar hafa menn verið að spara. Það er t.d. komið svo nú að innflutningur til landbúnaðarins mælist varla. Hann er orðinn svo lítill. Ég get tekið sem dæmi að kjarnfóðurinnflutningur hefur minnkað um sem svarar 500 ársverkum á fimm árum. Það er af þessari ástæðu sem búvörurnar lækka í verði. Það er af því að bændur landsins hafa vald á því að búa í þessu landi. Það er svo annað mál að í þessum efnum eru mikil verkefni óunnin, m.a. í bættri ræktun, í meiri tækni og betri byggingum. Þess vegna er það mikilvægt fyrir bændur landsins að fá vitneskju um það hvernig ríkisstjórnin mætir þeirri þörf og þeirra vilja í þessum efnum. Það kemur hér fram í frv. til breytinga á jarðræktarlögunum.
    Í rauninni er þetta frv. til jarðræktarlaga alveg óskiljanlegt og ég veit satt að segja ekki hvert fordæmin eru sótt. Ég hef leyft mér að kalla þetta pólsku aðferðina þar sem menn ákveða sáningardag kornsins og uppskerudaginn líka, alveg án nokkurs einasta tillits til þess hvernig viðrar og niðurstaðan er sú að í þessu einu allra gjöfulasta landbúnaðarlandi veraldarinnar sveltur fólkið. Það er margt í þessu frv. sem minnir á þessi vinnubrögð, t.d. það dæmalausa ákvæði sem kemur fram undir lið III þar sem bændum er gefinn kostur á því að fá jarðabótaframlag með því að sækja um það til landbrh. Því á að fylgja fimm ára búrekstraráætlun og rökstudd meðmæli frá sveitarstjórn og búnaðarsambandi. Hvernig í ósköpunum dettur íslenskum mönnum í hug að setja svona inn í lagatexta? Það er mér algjörlega óskiljanlegt. Hvernig skyldi ræktunarástandið vera í landbúnaði ef menn hefðu viðhaft þessi vinnubrögð? ( Gripið fram í: Er það ekki með samþykki flokksins?) Ég geri ráð fyrir að samþykki flokksins sé ekki tilgreint þarna vegna þess að landbrh. er alþýðubandalagsmaður. Annars hefði það áreiðanlega verið bundið við samþykki flokksins.
    Ég tók svo eftir að hæstv. landbrh. sagði áðan að það ætti að hækka framlag til kornræktar og fræræktar og ekki einu sinni þetta sagði hæstv. landbrh. satt. Ég má kannski minna á það frá umræðum fyrr á þessum vetri að þá hafði hæstv. landbrh. orð á því að inn í nýju fyrirheitin, inn í nýja frv. og nýju jarðræktarlögin, mundu verða færð ýmis ákvæði sem

gengju til móts við nýjar áherslur og nýja tíma í landbúnaði. Þetta er kannski í þá veru. En því miður er þetta ekki einu sinni sannleikur því að svo vill til að það liggur fyrir að korn- og frærækt er tæpast framkvæmanleg hér á landi öðruvísi en að jafnframt fari fram kölkun landsins. Hún er afnumin. Og þar er um að ræða miklu meiri skerðingu en nemur þeirri krónuhækkun sem landbrh. var að státa hér af áðan.
    Það er kannski út af fyrir sig líka athyglisvert, ekki síst á þessu kalda vori þegar snjór hylur enn þá og klaki flestöll tún á Íslandi og vænta má þar af leiðandi meiri og minni kalskemmda á ræktunarlandinu á næsta sumri, að þá skuli að tilhlutan ríkisstjórnarinnar vera tekið út það ákvæði sem reynsla og rannsóknir sýna að er haldbærast til þess að koma í veg fyrir slíkan vágest. Það er engin tilviljun hvað flónskan ræður hér miklu í þessum efnum.
    Svo er það vissulega í samræmi við kerfið og flokkinn og allt það, sem er kannski vert að segja hér frá bara rétt til gamans, að nú á að fara að taka út jarðabætur á sex vikna fresti svo að bændur geti fengið þær greiddar, svo að segja staðgreiðslu eins og hæstv. landbrh. sagði hér áðan. Og þetta eru mennirnir að skipuleggja sem hafa verið að draga úr þeim stuðningi, þótt lítill hafi verið, sem búnaðarsamböndin hafa fengið fyrir að vinna þessi verk. Nú á að gera út lið á sex vikna fresti til þess að taka út jarðabætur. Þá vantar ekki peningana. ( Gripið fram í: Þetta er misskilningur hjá hv. ræðumanni.) Ég hef ekki ætlast til þess að hæstv. landbrh. skildi þennan texta því að hann er, eins og reyndar flestöll frumvörp sem hann hefur dreift og
samið, með þeim hætti að það er tæpast þinglegt að leggja það fram hér á Alþingi.
    Nú vill svo til, af því að hæstv. landbrh. var að rifja það hér upp að ástæðan fyrir því að jarðræktarlögunum væri breytt væri sú að fjármagn hefði skort til greiðslu á þeim verkefnum sem þar eru tilgreind. Sannleikurinn er hins vegar sá að ef við tökum frá síðasta ár þegar hæstv. núv. landbrh. lagði fram ásamt öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar frv. til fjárlaga hefðu fjárlagatölurnar eða meira að segja fjárlagafrumvarpstölurnar orðið nógu háar. T.d. var á fjárlögum fyrir 1988 141 millj. kr. til greiðslu á kostnaði við jarðræktarframlögin og með venjulegri verðlagsuppfærslu hefði sú tala í ár gert meira en að dekka kostnaðinn við framkvæmdir síðasta árs. Það er nefnilega ríkisstjórnin og hæstv. landbrh. sem hefur bilað og það er ekkert sem segir fyrir um það að þó að frv. verði samþykkt verði ekki um sams konar vanda að ræða ef við verðum með ríkisstjórn og landbrh. sem bilar í ekki stærri málum en hér um ræðir. Það er að vísu hægt að verja sig með fjárlagatölunni eins og hér er gert, en það er engin vissa að hún verði neitt í samræmi við það sem bændur landsins vinna, rækta og bæta jörðina. Það gæti vel verið að hægt væri að koma svipuðum skikki á og var gert í Póllandi hér á árum áður með því að gera það saknæmt athæfi að vinna land til ræktunar.

En svo er ekki enn orðið á Íslandi og auðvitað munu bændur, íslenskir bændur, halda áfram að rækta og bæta jörðina þó að þeir hafi ekki leyfi til þess frá einhverjum landbrh. Skárra væri það. Þess vegna er það algjör misskilningur að þessi háttur, þessi skipan mála, tryggi að bændur fái greiddar þær umbætur sem þeir vinna að. Það er algjör misskilningur.
    Það sem er allra verst við þetta frv. og þann málflutning sem því hefur fylgt er að það er svo erfitt að finna ásetninginn og rökin fyrir því, önnur en það eitt að draga úr framförum, draga úr þróunarstarfsemi, draga úr umbótum, koma í veg fyrir það að íslenskir bændur geti haldið áfram að bæta sína ræktun og laga sína búskaparhætti.
    Herra forseti. Það er ekki mikil ástæða fyrir mig að fjölyrða mikið meira um þetta mál. Ég hef áður sagt það við hæstv. landbrh. að ég skyldi ekki verða til þess að tefja afgreiðslu þess hér á Alþingi og við það ætla ég að standa. Ég var bundinn af því samkomulagi sem við gerðum okkar á milli á búnaðarþingi um það að fylgja þessu máli fram á grundvelli þeirra tillagna sem við gerðum þar og ætla ég ekki að leyna því að þar fannst mér of langt gengið.
    Nú hefur hins vegar verið slegið á þá sáttarhönd íslenskra bænda af hæstv. landbrh. Tillögur búnaðarþings eru þar af leiðandi ekkert lengur til umræðu í þessu dæmi. Ég er ekkert bundinn af þeim lengur þó að ég eigi þar sæti. Þeim skynsamlegu leiðum sem þar voru lagðar til hefur nú verið stungið undir stól af pólsku sérfræðingunum sem hafa gengið frá frv. og þess vegna er mín afstaða óskaplega einföld og skýr. Ég er á móti þessu frv. Það er líka ekki svo langt síðan við endurskoðuðum jarðræktarlögin. Það var gert árið 1987 og það er skemmri tími frá þeirri endurskoðun en verið hefur í annan tíma þegar jarðræktarlögunum hefur verið breytt. Það standa því engin efni til þess að breyta jarðræktarlögunum núna. Við erum með góð jarðræktarlög og þau taka fullkomlega tillit til þeirra aðstæðna sem eru í landbúnaðinum núna eins og tölurnar sem ég las hér áðan bera ljóst vitni um. Breytingar á jarðræktarlögunum eru því óþarfar. Þau hafa ekki kallað eftir meira fjármagni heldur það gagnstæða, og þau gera það fyrst og fremst að verkum að menn geta búið betur á Íslandi. Það er grundvallaratriði. Þess vegna fagna ég því að hæstv. landbrh. skyldi hafna tillögum búnaðarþings. Það var gengið of mikið til móts við þessi sjónarmið hæstv. landbrh. Það er hins vegar annað mál að ég er ánægður yfir því að hafa mætt óskum og viðhorfum hæstv. landbrh. með þeim hætti sem búnaðarþing gerði. Það er þess vegna svo miklu auðveldara að berjast á móti jarðræktarlögunum núna eins og þau eru hér fram sett.
    Ég verð að segja það eins og er að ég á býsna erfitt með að hugsa mér það að þetta frv. til breytinga á jarðræktarlögunum verði samþykkt á Alþingi og þrátt fyrir það að Alþb. fari nú bæði með málefni landbúnaðarins þar sem stóra stundin var nú

upprunnin og menn ætluðu að færa hlutina til betri vegar í svo stórum stíl, þrátt fyrir þetta allt saman og þrátt fyrir það að Alþb. hafi líka fjmrh., það er stutt á milli höfuðbýlanna á alþýðubandalagsbænum að því er þetta mál varðar, þá náttúrlega sleppa framsóknarmenn ekkert út um bakdyrnar í þessum efnum. ( Gripið fram í: Það eru engar bakdyr.) Þeir sleppa ekkert út um bakdyrnar í þessum efnum. ( Gripið fram í: Þeir eru ekkert á leiðinni þangað.) Ég hefði kannski gleymt að rifja þetta upp nema af því að hér til hliðar við mig er hv. þm. Stefán Guðmundsson og mér er alveg fullkomlega ljóst hver hugur hans er til bændanna í þessu landi. Og hér að baki mér er hæstv. fyrrv. landbrh. sem gekk frá jarðræktarlögunum með mér árið 1987. Það er nú skárri félagsskapurinn sem þessir heiðursmenn eru í ef þeir eru búnir að gleyma gjörðum sínum frá þessum árum. Og mér finnst það satt að segja léttvægt þegar alltaf er verið að kenna Alþfl. um þessi mál, ekki meiri bógur en hann er nú. Ég þekki þar góða menn sem ég á eftir að sjá að gangi á
móti þessum málum, mann eins og t.d. hv. þm. Karvel Pálmason sem á sæti í landbn. Ed. Alþingis. ( Gripið fram í: Hann er búinn að samþykkja þetta.) Hann hefur ekkert samþykkt í þessum efnum. Ég satt að segja treysti því að heilbrigð skynsemi fái að ráða við afgreiðslu þessa máls og menn hætti að byggja afstöðu sína á því sem var fyrir fjórum, fimm eða sex árum þegar þeir tímar eru gjörbreyttir og búið er að breyta vinnubrögðum með tilliti til þess sem síðar hefur breyst. Það er mér því satt að segja algjörlega hulin ráðgáta hvernig hæstv. landbrh., bóndasonur af góðum ættum norðan úr Þistilfirði eins og ég hef oft sagt áður, ætlar að kuðla þessu máli hér í gegn á Alþingi.
    En ég skal standa við það eina sem ég hef lofað í þessum efnum og það er það að ég skal ekki tefja afgreiðslu þessa máls. Hún er að því leyti ákaflega einföld að ég er á móti þessu frv. og get með sáralitlum fyrirvara lagt fram nál. þar sem þessu fjárlagafrv. verði hafnað. En jafnvel þótt svo gæfulega tækist nú til hefur náttúrlega hæstv. landbrh. og Alþb. reist sér þann minnisvarða sem því er verðugur í þessu máli.