Jarðræktarlög
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Margrét Frímannsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég er ekki komin hér til að taka þátt í neinni leiksýningu eða til þess að reyna að feta í fótspor aðalleikarans, hv. 4. þm. Austurl., heldur langaði mig aðeins til þess við 1. umr. um þetta frv. að koma á framfæri athugasemd við lið IX í 2. gr. frv. sem er um ræktun skjólbelta þar sem segir að framlag vegna skjólbeltaræktunar skuli nema 75% af kostnaði við trjáplöntukaup.
    Nú er það svo að það gerist æ algengara að bændur og aðrir þeir sem eru að koma upp skjólbeltum noti plast og stiklinga til þessarar ræktunar. Árin 1983--1988 voru gerðar ítarlegar tilraunir með ræktun skjólbelta. Tilraunir þessar miðuðu að því að finna hagkvæmar og hraðvirkar ræktunaraðferðir. Niðurstöður liggja fyrir og sýna að ræktun skjólbelta þar sem notað er plast og stiklingar er bæði ódýrari og hraðvirkari en sú aðferð að nota trjáplöntur við slíka ræktun. Með þeirri aðferð opnast líka möguleiki fyrir bændur til þess að vinna að ræktuninni á öðrum tíma en á vorin, t.d. sumar og haust, sem ekki er hægt ef notaðar eru trjáplöntur. Ef þessi grein frv. fer hér í gegn óbreytt þýðir það að þessi nýja aðferð, sem nú þegar er mikið notuð af bændum, er ekki styrkhæf. Breyta þyrfti greininni t.d. á þann hátt að í stað orðanna 75% kostnaðar við trjáplöntukaup komi: 75% af ræktunarkostanði. Þar með væri séð til þess að ræktun með stiklingum og plasti, en plastið er stærsti kostnaðarliðurinn, yrði styrkhæf.
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma þessari ábendingu á framfæri hér og vona að hv. landbn. taki hana til athugunar við umfjöllun um málið.