Búfjárrækt
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Landbúnaðaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Enn mæli ég fyrir frv. sem tengist landbúnaðinum og búfjárræktinni og mun hv. landbn., sem ég mun leggja til að fái frv. til skoðunar að lokinni þessari umræðu, hafa ærið að starfa á næstunni.
    Frv. því er ég hér mæli fyrir er ætlað að koma að hluta til í stað gildandi laga um búfjárrækt, þ.e. laga nr. 31 frá 1973. Frv. felur í sér talsverðar breytingar frá núgildandi lögum, en við gerð þess voru einkum höfð að leiðarljósi tvö markmið. Í fyrra lagi að þannig verði að hlutunum staðið að sett verði sérstök lög um búfjárhald og í öðru lagi verði sett almenn löggjöf um búfjárræktarstarfið sérstaklega. Því er ekki í frv. að finna sérstaka kafla um einstakar búfjártegundir svo sem er í gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að þau ákvæði gildandi laga sem fjalla um búfjárhald, svo sem um forðagæslu, ásetning og því um líkt, haldi gildi sínu í núgildandi mynd og verði síðan að stofni til uppistaðan í löggjöf um búfjárhald sem nú er til endurskoðunar og verður vonandi flutt á næsta Alþingi.
    Fyrsti kafli frv. fjallar um tilgang laganna og yfirstjórn, annar kafli um skipan búfjárræktar og þriðji kafli um verndun séreinkenna í íslensku búfé og um útflutning búfjár. Vakin er sérstök athygli á því að ítarleg greinargerð fylgir frv. ásamt áætlun yfir kostnað ríkissjóðs við framkvæmd á frv. sem prentuð er sem fylgiskjal.
    Sem helstu nýmæli í frv. þessu má nefna að í 2. mgr. 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því að ráðherra geti viðurkennt einstök búgreinasamtök til þess að fara með verkefni er snerta viðkomandi búgrein sérstaklega. Ákvæði þetta á sér hliðstæðu í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og veitir hún svigrúm til þess að framkvæmd búfjárræktarlaga geti fylgt þróun félagskerfis landbúnaðarins ef hún verður sú að búgreinasamtök eflist á næstu árum og áhugi verði fyrir því að þau taki aukinn þátt í búfjárræktarverkefnum.
    Ákvæði í 5. gr. frv. um skipun búfjárræktarnefnda og heimild til að mynda fagráð eru nýmæli frá gildandi búfjárræktarlögum. Með þessum nýmælum eru bein áhrif starfandi bænda í viðkomandi búgrein á mótun og framkvæmd ræktunarstarfsins verulega aukin frá því sem verið hefur. Er búfjárræktarnefndum ætlað að hafa það hlutverk að skipuleggja og veita forustu ræktunarstarfi vegna einstakra búfjártegunda. Gert er ráð fyrir að þessar nefndir séu skipaðar fimm mönnum hver. Þó er heimilt að þeir verði þrír eða sjö ef sérstakar ástæður mæla með því. Gert er ráð fyrir að tveir nefndarmanna séu bændur í viðkomandi grein og kosnir af sínum búgreinasamtökum séu þau starfandi en ella af búnaðarþingi og Stéttarsambandi bænda, einn maður af hvorum aðila. Tveir aðilar skulu vera starfandi héraðsráðunautar kosnir af búnaðarþingi en einn starfandi landsráðunautur tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands. Jafnframt er gert ráð fyrir að mynduð verði svokölluð fagráð vegna einstakra

búfjártegunda og að ráðherra geti falið þeim að taka við verkefnum sem búfjárræktarnefndum eru falin í þessu frv.
    Einu skilyrðin sem frv. setur um aðila að fagráðum, svo mögulegt sé að fela þeim verkefni búfjárræktarnefndanna, er að bæði búgreinasamtök í viðkomandi grein og Búnaðarfélag Íslands séu aðilar að þeim. Tilgangurinn með myndun fagráða er sá að ná saman fulltrúum frá viðkomandi búgreinum og þeim stofnunum sem fara með fagmál greinarinnar til þess að fjalla sameiginlega um fagsvið hennar og taka sameiginlegar ákvarðanir um stefnumótun og framkvæmd þeirra faglegu málaflokka sem tilheyra viðkomandi grein. Á þann hátt má ætla að best samstaða náist um skipan rannsókna, leiðbeininga og kennslu varðandi hverja búgrein og mannafli og fjármagn nýtist sem best til þess að ná auknum árangri í búskapnum.
    Í 6. gr. frv. er hlutverk þessara búfjárræktarnefnda tilgreint. Er þeim m.a. ætlað að móta ræktunarstarfið, gera tillögur um innflutning erlendra búfjárkynja, vera til ráðuneytis við leiðbeiningar, kennslu og rannsóknir og gera áætlanir vegna búfjárræktarstarfs búnaðarsambandanna.
    Í 12. gr. frv. felst viðamikil breyting frá gildandi lögum þar sem greinin hefur að geyma skýr ákvæði um greiðslur úr ríkissjóði til einstakra þátta búfjárræktarinnar. Þau ákvæði er að finna í flestum köflum gildandi laga. Í 12. gr. er hins vegar gert ráð fyrir að búfjárræktarnefndin geri verk- og kostnaðaráætlun á grundvelli upplýsinga frá búnaðarsamböndunum. Verði áætlanir þessar lagðar fyrir landbrh. áður en að gerð fjárlaga kemur hverju sinni ásamt greinargerð um starfsemi liðins árs. Fjárveitingar verði ákvarðaðar með hliðsjón af tillögum búfjárræktarnefndanna og þar með tekin afstaða til þess hvaða verkefni á sviði búfjárræktar verði unnin fyrir fé úr ríkissjóði á komandi ári. Þegar fjárlög liggja fyrir skal landbrn. greina frá hvernig búfjárræktarframlög komandi árs skiptast milli búnaðarsambanda og til hvaða starfsemi þau skuli renna.
    Þrátt fyrir þau ákvæði sem nú eru í lögum nr. 31/1973 um þessi framlög hafa þau ekki skilað sér sem skyldi vegna síðasta árs og í fjárlögum fyrir árið 1989 er einungis gert ráð fyrir greiðslu á launahluta ríkissjóðs til frjótækna
af þeim greiðslum sem lögin kveða á um. Greiðsluskyldan er í sumum tilfellum tekin af eða talin vera það með öðrum lögum, auk þess sem þessi ákvæði laganna þykja ekki lengur falla að ríkjandi aðstæðum.
    Ákvæði 13. gr. frv. er ætlað að koma í stað ákvæða í gildandi lögum sem fjalla um búfjársýningar og afkvæmasýningar á búfé. Greinin fjallar um mat á búfé og búfjárafurðum. Þar er kveðið á um að skylt sé að gefa búfjáreigendum kost á mati á búfé og búfjárafurðum með reglulegu millibili og eigi sjaldnar en fjórða hvert ár. Gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi búfjárræktarnefndir setji reglur um þetta mat sem nái

bæði til búfjárins og afurða af því. Undir þetta mat falla afkvæmadómar, kjötsýningar og sýningar á loðskinnum og fleiru. Gert er ráð fyrir að ráðunautar skuli annast matsstörf og kostnaður, annar en launa- og ferðakostnaður, greiðist af þeim búnaðarsamböndum sem í hlut eiga. Gert er ráð fyrir að þeim aðilum sem fyrir sýningum standa sé heimilt að innheimta gjald af eigendum þeirra gripa sem dæmdir eru. Upphæð slíkra gjalda verður þó að vera samþykkt af ráðherra. Getur ákvæði þetta ráðið úrslitum um það hvort félítil samtök geti staðið fyrir myndarlegum búfjársýningum með tilheyrandi kostnaði, svo sem tölvuskráningu og útgáfu sýningarskráa.
    Í 14. gr. frv. felast nýmæli frá gildandi lögum. Greinin kveður á um að óheimilt sé að flytja úr landi tímgunarhæft búfé, sæði eða fósturvísa án leyfis landbrn. Leita skal álits Búnaðarfélags Íslands og yfirdýralæknis áður en útflutningsleyfi er veitt. Jafnframt er í sömu grein kveðið á um að þeim félögum og samböndum sem fara með búfjárræktarmál skuli áskilinn forkaupsréttur að kynbótagripum sem verðmætir þykja og fyrirhugað er að flytja úr landi, af hvaða búfjártegund sem er. Slíkt ákvæði er nú aðeins til í lögum um útflutning hrossa. Verði forkaupsréttar neytt er skilyrt að verð skuli vera það sama og tilgreint var þegar sótt var um útflutningsleyfi.
    16. gr. frv. fjallar um skipan og hlutverk genbankanefndar Íslands fyrir búfé, en hliðstæð nefnd hefur verið starfandi án sérstakrar stoðar í lögum. Þessari nefnd er ætlað eftirlitshlutverk með því erfðaefni sem til er hjá íslensku búfé, villtum landdýrum og ferskvatnsfiskum og að gera tillögur um ráðstafanir til verndunar þeirra tegunda, stofna og eiginleika sem kunna að vera í útrýmingarhættu.
    Ég hef nú tæpt á helstu nýmælum frv. en að lokum skal vakin sérstök athygli á að gera má ráð fyrir hlutfallslega meiri þörf fyrir leiðbeiningarþjónustu í búfjárrækt og landbúnaði almennt séð en verið hefur undanfarið og kemur það m.a. til af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna nýrra greina í búfjárrækt, loðdýrarækt ar, fiskeldis og fleiri þar sem hlutaðeigandi bændur hafa ekki getað aflað sér viðunandi þekkingar á þeim skamma tíma sem ýmsar nýbúgreinar hafa orðið að þróast á. Ætla má þó að þessi aukna þörf fyrir leiðbeiningar geti verið tímabundin fyrir einstakar nýbúgreinar. Í öðru lagi er ekki unnt að draga hlutfallslega úr leiðbeiningarþörf í hefðbundnum búgreinum miðað við minnkandi framleiðslu eða umfang í þeim greinum. Sá vandi sem felst í að þurfa að takmarka framleiðslu mjólkur og kindakjöts og fleiri afurða hefur oft skapað þörf fyrir auknar faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf.
    Herra forseti. Ég hef lokið við að skýra helstu nýmæli frv. og hvaða breytingar það felur í sér frá gildandi löggjöf. Það er von mín að með þessari tilhögun, þ.e. að skipta núverandi búfjárræktarlagabálki í tvennt og setja annars vegar sérstaka löggjöf um búfjárræktarstarfið, kynbætur og búfjárrækt og hins vegar almenn ákvæði um búfjárhald, vörslu búfjár og

annað því tilheyrandi, komist betri skipan á þessi mál en verið hefur. Ég hygg að þetta búfjárræktarfrv. sé í ýmsum greinum ítarlegra og skýrara en gildandi lagaákvæði og meira í samræmi við þær aðstæður sem nú eru uppi og taldar vera fram undan í búfjárræktarstarfinu. Þá eru einnig með frv. dregnar hreinni línur milli verkaskiptingar opinberra aðila annars vegar og hinna faglegu samtaka hins vegar og á það einnig við um kostnaðarþátttöku eða aðild ríkisins að því að greiða kostnað vegna þessara starfa. Þar er í meginatriðum um óbreytta þátttöku ríkisins að ræða í búfjárræktarstarfinu, þó að nokkuð breytt tilhögun sé á hvað snertir vinnslu á fjárlagatillögum og hvernig fjárveitingar eru ákvarðaðar til þessara verkefna. Þátttaka ríkisins í launagreiðslum vegna búfjárræktarstarfsins yrði óbreytt, en ýmis smærri framlög, svo sem til verðlauna, yrðu felld niður og yrðu hluti af hinum almenna starfskostnaði búnaðarsambandanna.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að frv. verði vísað til hv. landbn. Ég endurtek óskir mínar til hv. landbn. um farsælan og góðan árangur í starfi á næstu dögum þar sem nefndinni hafa með afgreiðslu í deildinni í dag verið falin mörg verkefni, og vonandi einnig afgreiðsla þessa frv., og mikið er í húfi að störf nefndarinnar skili farsælum niðurstöðum.