Búfjárrækt
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Það væri vissulega hægt að flytja langt mál um það frv. til búfjárræktarlaga sem hér er til umræðu. Mér finnst vert að vekja athygli á því að einmitt á þessum degi fara sérstaklega fram fundir á búnaðarþingi vegna þessa frv., en meðan búnaðarþing sat að störfum fyrr á þessum vetri kom fram ósk um það frá hæstv. landbrh. að búnaðarþing endurskoðaði búfjárræktarlögin í samráði við Búnaðarfélag Íslands. Þetta frv. er að nokkrum hluta árangur þess starfs og um það fjallar búnaðarþing á þessum degi og trúlega einnig á morgun. Ég ætla því að bíða með að lýsa skoðunum mínum í smáatriðum að því er frv. varðar.
    Mér virðist hins vegar við fyrstu sýn að frv. sé meingallað. Það er með eindæmum illa unnið, eins og þeir hafa komist að sem hafa lesið það yfir, og býr yfir þeim megingalla að byggja á því að draga vald --- og vona ég nú að hæstv. landbrh. megi heyra mál mitt --- frá bændum landsins og fagstofnunum landbúnaðarins upp í landbrn. Þetta held ég að sé óskaplega óheillavænleg þróun.
    Í öðru lagi að þrátt fyrir það að ríkisvaldið ætli sér stærri hlut í stjórn þessara mála ætlar það líka að spara fjármagn til þessara verkefna. Hér er um að ræða gífurlega verðmæt störf í þróunarferli íslensks landbúnaðar og þær greiðslur sem hafa gengið til þessara verkefna af hendi ríkisvaldsins eru smámunir einir saman, hreinir smámunir. Við búum við ágæt búfjárræktarlög. Það þyrfti þó e.t.v. að breyta þeim eitthvað með tilliti til nýrra búgreina og reyndar liggja fyrir um það tillögur, og það standa að sjálfsögðu engin efni til þess að breyta búfjárræktarlögum til verra horfs en áður var. Ég hygg að sú breyting sem hér er lögð til muni stefna í þá átt og það með afar ótvíræðum hætti. Eins og jarðræktarlögin er þetta þáttur í stjórnarstefnunni og eins og þau boðar þetta nýja tíma í viðskiptum ríkisvaldsins og bændanna í landinu.
    Eins og hér hefur komið fram verður að sjálfsögðu fjallað um þetta frv. í þeirri nefnd sem ég á sæti í undir góðri og traustri forustu og þar mun ég að sjálfsögðu koma mínum skoðunum á framfæri. Svo að ég endurtaki það sem ég sagði í upphafi mun ég að sjálfsögðu hafa þar til hliðsjónar þá niðurstöðu sem fæst á búnaðarþingi sem ég veit að verður vel grunduð. Meðal annars af þessum ástæðum ætla ég ekki að hafa orð mín fleiri nú en skýri afstöðu mína betur síðar.