Almannatryggingar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Karvel Pálmason):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 803 um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum. Flm. að þessu frv. eru 12 hv. þingdeildarmenn, sem er meiri hl. í hv. deild, og eru auk þess sem hér talar hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, Egill Jónsson, Jón Helgason, Margrét Frímannsdóttir, Guðmundur Ágústsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Jóhann Einvarðsson, Karl Steinar Guðnason, Skúli Alexandersson, Júlíus Sólnes og Danfríður Skarphéðinsdóttir.
    1. gr. þessa frv. um breytingu á gildandi lögum um almannatryggingar er svohljóðandi:
    ,,Aftan við 34. gr. laganna bætist svohljóðandi málsgrein:
    Verði maður fyrir varanlegu heilsutjóni, sem nemur a.m.k. 10% örorku samkvæmt læknisfræðilegu mati, vegna læknisaðgerðar eða vegna mistaka starfsfólks, sem starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skal Tryggingastofnun ríkisins bæta það tjón á sama hátt og vinnuslys. Landlæknir og tryggingayfirlæknir skulu sameiginlega meta hvort um bótaskylt tilfelli er að ræða og ákveða örorkustigið. Leggja má úrskurð þeirra fyrir tryggingaráð samkvæmt ákvæði 7. gr.``
    Þetta er sú breyting sem lögð er til og er hún að mínu viti og flm. mjög einföld breyting. Ég hygg að sú stutta grg. sem fylgir frv. segi kannski meira en mörg orð að öðru leyti um það hvað hér er á ferðinni. Ég hygg að rétt sé að ég lesi þessa stuttu grg. en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Frv. þetta til laga um breytingu á almannatryggingalögum er flutt til þess að bæta að hluta úr brýnni þörf.
    Alkunna er að einstaklingar geta orðið fyrir heilsutjóni af aðgerðum lækna, ýmist vegna bótaskyldra mistaka eða vegna þess að aðgerð hefur ekki heppnast nógu vel þótt eigi sé um að ræða bótaskyld atvik, eða vegna mistaka heilbrigðisstétta. Slíkt tjón hafa einstaklingar yfirleitt orðið að bera sjálfir óbætt hingað til.
    Í svari heilbr.- og trmrh. við fyrirspurn frá 1. flm. þessa frv. á Alþingi 8. des. 1988 kemur fram að í ráðuneyti hans liggja drög að tillögum um tryggingasjóð sjúklinga en auðséð er að það mál nær ekki fram að ganga á þessu þingi enda um mjög viðamikið mál að ræða.
    Með frv., sem hér er flutt, er farin sú millileið að ætlast er til að Tryggingastofnun ríkisins greiði á sama hátt og hún bætir vinnuslys það tjón sem verður af læknisaðgerðum eða mistökum við læknisaðgerðir. Hér er ekki um að ræða bætur samkvæmt almennu skaðabótareglunni, sem geta orðið mjög háar, heldur bætur eins og Tryggingastofnun ríkisins greiðir nú fyrir vinnuslys. Ekkert er því til fyrirstöðu að sjúklingur geti höfðað bótamál á hendur þeim sem ábyrgð bera á læknisaðgerð og fengið hærri bætur ef það mál vinnst. Fjárhæð sú, sem Tryggingastofnun mundi hafa greitt, kæmi þá til frádráttar og gæti Tryggingastofnun ríkisins endurkrafið hana. Ákvæði þessu er ætlað að standa þangað til viðameira

frumvarp um tryggingasjóð sjúklinga verður tekið upp í almannatryggingalögin.
    Landlækni og tryggingayfirlækni er sameiginlega falið að meta hvort um bótaskylt tilfelli er að ræða og eins að ákveða örorkustigið. Hvort tveggja má teljast eðlilegt þegar litið er til þess að úrskurð þeirra má leggja fyrir tryggingaráð skv. 7. gr. eins og hún verður ef samþykkt verður stjórnarfrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi þar að lútandi.``
    Þetta segir að mínu viti kannski mest um það hvað hér er á ferðinni. Allir vita hv. þingdeildarmenn um það að mistök eiga sér stað, mannleg mistök geta alltaf átt sér stað. Þau geta átt sér stað hjá læknum eins og öðrum mönnum og við því er kannski oft ekkert að gera. Allt til þessa hafa viðkomandi einstaklingar sem orðið hafa fyrir slíku annaðhvort orðið að bera það tjón sem af því leiðir sjálfir eða orðið að fara dómstólaleiðina sem tekur yfirleitt frá a.m.k. einu upp í fjögur, fimm eða sex ár. Það er auðvitað sú leið sem almenningi í landinu er nánast meinað að fara bæði vegna tíma sem hún tekur og ekki síður vegna þeirra fjármuna sem þar þarf að inna af hendi til þess að ganga í gegnum slíkt mál.
    Það þarf líka mikið þrek til þess að ganga í gegnum slíka málsmeðferð. Það þykist ég geta metið sjálfur af eigin reynslu hversu slíkt kann að vera erfitt. Það er því full þörf á því að bæta það ástand sem við búum nú við og þó hér sé vissulega um lítið skref að ræða, þá er þetta þó skref sem gæti orðið mörgum til bjargar og hjálpar sem kynnu að lenda í þessum raunum hér eftir.
    Ekki skal ég um það segja, enda ekki gott, hversu miklar fjárhæðir hér kynni að vera um að ræða. Vonandi yrðu þær sem minnstar, að sem minnst af slíku gerðist. Við lauslega skoðun væri ekki ólíklegt að ætla að einstaklingur sem lenti í svona mundi geta fengið greiðslu allt frá 100 þús. upp í 500 þús. kr. samkvæmt þessu. Við skulum vona að það verði ekki mörg slík tilfelli á ári sem kæmu til í þessum tilvikum. En við skulum segja að það væru 10, 15, 20 tilfelli. Þá sjá menn af þessum upphæðum að hér er ekki um að ræða
fjárhagslega mikið spursmál fyrir Tryggingastofnun eða ríkissjóð. Hér er um að ræða nokkrar milljónir ef til þessa kæmi til að létta göngu þeirra sem hafa hrakist á þessum vegum eða kynnu að hrekjast á þeim eftir að þetta næði fram að ganga.
    Ég þykist vita, og tel mig hafa fundið þau viðbrögð hjá hv. þm., að það muni ekki á því standa að þetta frv. nái fram að ganga, enda er málið mjög einfalt og að ég best fæ séð engir gallar eða hnökrar sem koma í veg fyrir það að málið geti fengið fljóta meðferð hér í gegnum þingið. Við höfum hér í dag verið að ræða þrjú eða fjögur stórmál frá hæstv. ríkisstjórn sem ætlast er til að gangi í gegnum þingið á þeim tíma sem eftir er, mál sem mörg hver eru óskoðuð og eiga eftir að fá mikla umfjöllun. Ef það á að gerast, og þó svo væri ekki, þá tel ég að þetta mál hér sé þess eðlis, sé slíkt réttlætismál, siðferðislegt réttlætismál að Alþingi geti ekki látið það

slys koma fyrir að það verði ekki samþykkt á þessu þingi.
    Ég sagði áðan að grg. þó stutt væri segði kannski mest um þetta mál. Ég sá í DV á laugardaginn viðtal við hæstv. heilbr.- og trmrh. sem ég vissi ekki annað um og veit ekki annað um enn en hann sé meðmæltur þessu máli og vilji það skoða. Þar er stór fyrirsögn sem segir, með leyfi forseta: ,,Hótanir alþýðuflokksmanna eru mikið umhugsunarefni, segir Guðmundur Bjarnason heilbrigðisráðherra.`` Í þessu viðtali segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Það er auðvitað mikið umhugsunarefni að einstakir þingmenn Alþfl. og þar með taldir ráðherrar skuli ítrekað nota svona aðferðir, þá á ég við að málflutningur þeirra byggist á slíkum hótunum til að knýja mál fram og þeir treysti ekki á að efnislega séu málin það góð að þau séu stuðningsins verð eins og er.``
    Ég þykist raunar vita að hæstv. ráðherra muni ekki hafa átt við þetta mál sem hér er nú til umræðu. Ég þekki hann að öllu góðu og veit ekki annað en að hann sé hlynntur því að bót verði ráðin á því ástandi sem nú ríkir að því er þetta varðar.
    Síðar í þessu viðtali, ef ég gríp aðeins víðar niður, þá er spurt: ,,Af hverju gat heilbrigðisráðherra ekki stutt þetta?`` Og svarið er: ,,Í fyrsta lagi má segja að ég hef tekið þá afstöðu að taka ekki inn breytingar á almannatryggingalögunum sem varða bótarétt. Þess í stað hef ég vísað í endurskoðun sem nú er í fullum gangi og viljað fá slík ákvæði inn í þá heildarendurskoðun bótaákvæðanna sem nú er unnið að.``
    Svo vill nú til eins og hv. þingdeildarmenn vita og hér kemur fram að í gangi er endurskoðunarnefnd til þess að endurskoða öll almannatryggingalögin. Ég fullyrði að þar hefur mjög lítið starf verið unnið. Á sl. ári var ekki haldinn neinn fundur í níu mánuði í þeirri nefnd. Lítið hefur verið gert í þeirri nefnd það sem af er þessu ári. Og án þess að ég sé að setja út á þetta út af fyrir sig, þá segir þetta okkur það að það verður löng bið á því að við fáum breytingu í þessa veru fyrir þá sem hér er verið að tala um í gegnum þetta endurskoðunarkerfi. Ég held því að menn eigi ekki að bera slíku við. Hér er tiltölulega einföld aðgerð til þess að bæta úr brýnni þörf og það veit ég raunar að Alþingi mun gera. Ég treysti á það að þingmenn og þar með Alþingi vilji styðja þessa einstaklinga sem þarna kæmu til með að verða fyrir slíku --- ég segi kæmu til, vonandi verður það enginn --- og þingið muni sjá til þess að þetta verði afgreitt.
    Það hefur líka verið sagt við mig, og það held ég að komi fram í viðtali við hæstv. heilbrrh., að tæknilegir annmarkar kynnu að verða á því að þetta gæti gerst. Ég veit ekki um neina tæknilega annmarka á því að vinnuslysin séu greidd út eða bætur vegna þeirra eins og lögin gera ráð fyrir. Eina viðbótin við þann kafla, við 34. gr. ef ég man rétt, er sú að inn komi 10% greiðsla ef fólk verður fyrir örorkutapi sem er yfir það. Og það er að sjálfsögðu metið eins og er gert ráð fyrir í greininni, þannig að ég tel ekki að

nein tæknileg vandamál geti komið til tals að því er varðar framkvæmd á þessum þætti. Auðvitað er mér ljóst að þegar menn ganga lengra en hér er um að ræða, stíga stærra skref sem þarf trúlega miklu meiri umhugsun og vangaveltur, þá kunna tæknileg vandamál að koma upp. En í svona einfaldri aðgerð sé ég engin tæknileg vandamál sem gætu komið í veg fyrir að þetta mál gengi allt saman eins og hér er gert ráð fyrir.
    Eins og hér hefur komið fram áður, þá er nú til meðferðar í Nd. Alþingis frv. frá ríkisstjórninni um breytingar á almannatryggingalögunum. Trúlega er það komið til nefndar þar. Ég vildi mjög gjarnan að þetta mál hefði samflot að því er það frv. varðar og gæti verið afgreitt hér á svipuðum tíma vegna þess að ég held að þetta fari saman og líka vegna þess að það er beinlínis vitnað í að ef það frv. nær fram að ganga, þá sé það enn frekari trygging fyrir því að hægt sé að framkvæma þetta frv. eins og hér er lagt til. Ég vil sem sagt ítreka það að í mínum huga, og ég þykist vita flestra flm., eiga ekki að þurfa að verða nein tæknileg vandamál sem hindri að þetta geti náð fram að ganga. Ég treysti því að hæstv. heilbr.- og trmrh., sem nú er kominn hér í salinn, greiði götu þessa máls. Ég veit að honum er ljóst hversu mikil þörf er á
þessu. Ég var, hæstv. ráðherra, að greina frá því áðan að hér væri ekki um peningaspursmál gagnvart Tryggingastofnun eða ríki að ræða. Hér gætu menn verið að tala um einhvers staðar á bilinu 4, 6 eða 8 millj., í verstu tilfellum, og það ríður ekki baggamuninn á rekstri Tryggingastofnunar ríkisins þó að reynt sé með þessum hætti að létta göngu þeirra sem verða fyrir svona áföllum og þurfa eins og nú er ástatt að fjármagna eða tapa því öllu, bæði andlega og líkamlega og síðan fjárhagslega til viðbótar ef svo illa tekst til eins og kannski allt of oft hefur gerst, ekki bara hér, trúlega einnig annars staðar, vegna þess eins og ég sagði að alls staðar geta mannleg mistök átt sér stað.
    Ég ítreka þá sérstöku ósk mína að þetta mál fái greiða götu í gegnum þingið. Sumir hafa haldið því fram að ég væri stórorður í þá veru að þetta mál fengi afgreiðslu. Svo kann vel að vera. Ég hygg þó að ef menn skoða þetta mál, skoða þörfina fyrir það, nauðsynina á því að það verði gert, þá komist menn að raun um það að það er nauðsynlegt að gera eitthvað í þá veru sem hér er lagt til og þetta gæti verið þokkaleg byrjun á því að koma til móts við það fólk sem hér kynni að vera um að ræða.
    Ég ítreka síðan að ég vonast sérstaklega eftir því að málið verði samferða frv. hæstv. heilbr.- og trmrh. sem er í Nd., líklega ekki komið úr nefnd, og legg síðan til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.