Almannatryggingar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til l. um breytingu á lögum um almannatryggingar, sem hv. 1. flm., 3. þm. Vestf., hefur nú mælt fyrir og hann flytur ásamt 11 öðrum hv. þm. þessarar deildar. Það eru sem sagt tólf þingmenn efri deildar sem flytja þetta frv. Þar sem ég er ekki einn af meðflm. frv., enda ekki verið til mín leitað um það, þótti mér rétt að gera grein fyrir afstöðu minni til frv.
    Ég lít svo á að þetta sé réttlætismál, þetta sé sanngjarnt mál og mér sýnist það vera einfalt í sniðum og ætti að vera auðvelt að leysa þetta mál, a.m.k. eins og fram kemur í grg., að þessu ákvæði er ætlað að standa þangað til viðameira frv. um tryggingasjóð sjúklinga verður tekið upp í almannatryggingalögin.
    Nú sýnist mér að það felist nú viðurkenning á því af hendi hæstv. heilbr.- og trmrh. að það sé þörf á að finna lausn á tilvikum sem þetta frv. fjallar um þar sem hann hefur upplýst í svari við fyrirspurn 1. flm. þessa frv. að það liggi drög að tillögum um þennan tryggingarsjóð í hans ráðuneyti. Mér sýnist að þetta sé sanngjarnt og ætti ekki að vera erfitt að fara þessa millileið sem þetta frv. gerir ráð fyrir.
    Ég vildi aðeins, hæstv. forseti, láta viðhorf mitt koma fram hér, eins og ég sagði áðan. Þar sem svo margir hv. þingdeildarmenn eru meðflm. að þessu frv. þá mætti skilja það svo að það sé ekki fullur stuðningur við það hér og þess vegna vildi ég lýsa stuðningi mínum við málið.