Almannatryggingar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í umræðum þessum, þó ég því miður hafi ekki heyrt þær allar, ég heyrði því miður ekki nema hluta af framsögu 1. flm., hv. 3. þm. Vestf., þá höfum við áður í vetur átt viðræður hér í þinginu um mál skyld þessu sem hér er hreyft og hér er flutt frv. til laga um og var það út af fyrirspurn hv. þm. um tryggingasjóð sjúklinga.
    Það er rétt, eins og fram kemur í grg. með frv. þessu, að í heilbrmrn. liggja drög að tillögum um tryggingasjóð en þær tillögur þurfa að fá miklu betri meðferð og umfjöllun. Þær hafa verið til umsagnar hjá bæði ríkislögmanni og fleiri aðilum og á þeim umsögnum sem nú nýlega hafa borist kemur í ljós að aðilar hafa ýmislegt við málið að athuga eins og það er þar sett fram svo að það er ljóst --- og auðvitað reyndar af öðrum ástæðum einnig, kannski fyrst og fremst þeim hversu skammt er nú til þingloka --- að slíkt frv. verður ekki flutt á þessu þingi.
    Í öðru lagi vil ég segja það um breytingar á lögum um almannatryggingar, sem ég hef nú reyndar látið koma fram nokkrum sinnum áður í umræðum í þingi hér í vetur, að þau lög eru í heildarendurskoðun og þess vegna hef ég kosið að vísa t.d. öllum hugmyndum um breytingar á reglum um bætur hvers konar til þeirrar heildarendurskoðunar þannig að tryggara sé að fyllsta samræmis sé gætt milli einstakra bótaflokka, bótaþátta og þeirra atriða sem menn eru að setja inn í löggjöfina vegna þess að þegar eitt atriði er tekið út úr og ekki skoðað í fullu samhengi við annað sem þar er á ferðinni, þá er hætt við misræmi.
    Hins vegar er líka vitað að í þinginu er þrátt fyrir þessar yfirlýsingar mínar frv. sem ég hef flutt um breytingar á þessari löggjöf sem vörðuðu nokkur tæknileg atriði sem við töldum nauðsynlegt að koma fram í vetur og ég vona enn að takist að afgreiða fyrir þinglok. En þar var ekki tekið á einstökum bótaþáttum þannig að eftir sem áður stendur sú meginstefna mín eða skoðun að taka ekki einstaka bótaþætti út úr þeirri heildarendurskoðun sem er í gangi og ég hef von um enn þá að takist að ljúka í sumar þannig að hægt verði að leggja það fyrir næsta þing.
    Nú er hins vegar ljóst að hér er til umræðu frv. sem hefur fengið hljómgrunn og eins og kom fram kom hjá hv. seinasta ræðumanni eru margir þingdeildarmenn sem hafa gerst flm. að frv. þannig að það á greinilega mikinn stuðning í þinginu. Þess vegna er sjálfsagt og eðlilegt að skoða þetta mál og taka það fyrir sérstaklega.
    Ég vil þó gera nokkrar athugasemdir, hef reyndar látið hafa það eftir mér og rætt það við 1. flm. frv. að ég telji að ef samþykkja eigi þetta frv. eða efnislega það sem hér er verið að ræða um á þessu þingi, þá þurfi að gera á frv. nokkrar breytingar.
    Þar vil ég í fyrsta lagi nefna það að hér hefur flm. sett inn prósentutölu sem er 10% örorkuviðmiðun sem er þá ekki í samræmi við annað sem er um rætt í

þeirri grein sem hann vill þó bæta þessari málsgrein inn í, en þar er talað um að örorkubætur greiðist ekki ef örorkutapið er metið minna en 15%. Þetta er í fyrsta lagi eitt dæmið um þá hættu sem er á misræmi milli þátta þegar menn taka málið ekki fyrir í heild, heldur einn og einn þátt svona út úr. Þetta hefði ég í fyrsta lagi viljað að nefndin liti á. Nú getur vel verið að viðmiðunin eigi að vera 10% en þá ætti hún kannski að vera það við allt sem þarna er verið að fjalla um, ekki bara þennan eina þátt bóta sem hér er rætt um sérstaklega.
    Í öðru lagi vil ég geta þess að flm. fellir þetta, sem sjálfsagt er eðlilegt, undir slysatryggingar. Þetta fellur undir IV. kafla almannatryggingalöggjafarinnar sem fjallar um slysatryggingar. Þá er spurning hvort ákvæði um þessar bætur sem hér er fjallað um ættu ekki að koma undir 29. gr. laganna þar sem segir: ,,Slysatryggðir samkvæmt þessum kafla eru`` --- og svo kemur upptalning á nokkrum atriðum og þar ætti hugsanlega þessi skilgreining að koma að auki. Nú eru þetta út af fyrir sig tæknileg atriði en ekki efnisleg. En þetta finnst mér að nefndin ætti að skoða líka ef samkomulag er um að afgreiða málið.
    Í þriðja lagi vil ég nefna það að ég tel mjög orka tvímælis hvort landlæknir á að vera matsaðili eða ákvörðunaraðili um örorkustig eins og hér er kveðið á um. Það er verið að gera þetta að hluta af þeim bótaskilmálum sem falla undir Tryggingastofnunina og þá finnst mér eðlilegt að það séu tryggingalæknar Tryggingastofnunarinnar og síðan tryggingayfirlæknir sem fjalla um málin eins og um önnur bótaskyld mál, m.a. vegna þess að ég tel að landlæknir gæti þurft að koma að þessu máli eins og svo fjölmörgum öðrum á öðru stigi. Hann gæti t.d. þurft að hafa afskipti af þessum málum eða málum skyldum þeim sem hér er verið að fjalla um, auðvitað sem landlæknir í krafti síns embættis og einnig sem formaður læknaráðs samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Ég tel því að það orki mjög tvímælis að hans sé getið hér sérstaklega.
    Og svo að lokum, sem er kannski minnsta atriðið í sjálfu sér, það er seinasti málsliðurinn þar sem segir: ,,Leggja má úrskurð þeirra [þ.e. landlæknis og tryggingayfirlæknis] fyrir tryggingaráð samkvæmt ákvæði 7. gr.``
Er þá vitnað til þess frv. sem er til meðferðar í Nd. Það á auðvitað almennt við um öll ágreiningsmál, ef það frv. verður samþykkt, öll ágreiningsmál, sem skjólstæðingar Tryggingastofnunarinnar telja sig þurfa að fá úrskurð um, að það má leggja þau fyrir tryggingaráð verði það frv. samþykkt og þess vegna í sjálfu sér óþarfi að geta sérstaklega um það hér í þessari grein hvað þennan einstaka þátt bóta varðar.
    Þetta vildi ég láta koma fram og jafnframt láta það vera alveg ljóst í þessari hv. deild að ég hef ekki á móti því að deildin fjalli ítarlega um málið og menn átti sig vel á því hvort ástæða er til þess að taka þetta út úr núna og samþykkja þetta frv. Hv. 1. flm. nefndi hugsanlegar kostnaðartölur. Ég held að það sé mjög óvisst og nánast alveg útilokað að gera sér nokkra

grein fyrir því hvað þetta kunni að kosta. Vonandi er ekki um að ræða stórar tölur. Flm. nefndi aðeins örfáar milljónir en því miður vitum við ekki um það. Þetta gæti auðviðað orðið meira en ég er ekki að segja að það sé aðalatriðið heldur hvort mönnum finnst rétt og eðlilegt að taka þetta inn hér og nú í stað þess að bíða eftir þeirri heildarendurskoðun sem er í gangi. Verði það hins vegar ofan á held ég að hv. heilbr.- og trn. verði að taka frv. til endurskoðunar með tilliti til þeirra athugasemda sem ég hef hér sett fram sem eingöngu eru þó tæknilegar.