Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Frv. þetta er á þskj. 823 og meðflutningsmaður minn er hv. 6. þm. Reykv. Guðrún Agnarsdóttir.
    Frv. gerir ráð fyrir að felldur verði niður söluskattur af námsbókum. Við umræðu um söluskattsfrumvarp um síðustu áramót komu fram ýmsar athugasemdir við það frv. sem þá var afgreitt og hæst bar þar auðvitað umræðuna um matarskattinn, sem svo hefur verið nefndur. Það voru auðvitað fjöldamörg önnur atriði sem þingmenn voru ósammála um en allir flokkar í þáverandi stjórnarandstöðu mótmæltu matarskattinum og ýmsu öðru harðlega og það gerðum við kvennalistakonur einnig.
    Það vakti t.d. furðu okkar að afruglarar skyldu vera án söluskatts meðan söluskattur lagðist á matvæli og bækur. Nú er ástand ríkissjóðs talið vera dapurlegt og því höfum við verið hæverskar með flutningi þessa frv. og förum aðeins fram á að söluskattur verður felldur niður af námsbókum.
    Þann 15. des. sl. svaraði hæstv. fjmrh. fyrirspurnum sem ég bar fram í Sþ. Í fyrsta lagi, með leyfi forseta: ,,Hverju námu söluskattstekjur af námsbókum árið 1987?`` Og í öðru lagi: ,,Hverju nema áætlaðar söluskattstekjur af námsbókum árið 1988?`` Í svari hæstv. fjmrh. kom fram að söluskattstekjur ársins 1987 á námsbókum voru um 45--55 millj. kr. og voru á þeim tíma áætlaðar 60--70 millj. kr. árið 1988.
    Í greinargerð með frv. segir, með leyfi forseta:
,,Frumvarpi þessu er ætlað að draga úr þeim mikla kostnaði sem námsfólk hefur vegna kaupa á námsbókum.
    Meginverkefni Námsgagnastofnunar er að semja námsefni og sjá nemendum á grunnskólastigi fyrir námsbókum. Sú stofnun hefur búið við mikið fjársvelti um áraraðir og hefur því reynst erfitt að sinna því hlutverki sem henni er ætlað. Það gerist því æ algengara að nemendur, einkum í efri bekkjum grunnskólans, þurfi að kaupa bækur sínar sjálfir. Þess eru dæmi að grunnskólanemendur hafi keypt námsbækur fyrir allt að því 10 þús. kr. á yfirstandandi skólaári.
    Í mörgum nágrannalanda okkar tíðkast það að nemendum er séð fyrir bókum þar til þeir ljúka prófum framhaldsskóla, enda eru stjórnvöld víða farin að líta svo á að nám á framhaldsskólastigi sé í raun skyldunám. Hér á landi nýtur útgáfa námsbóka fyrir framhaldsskólastigið engra styrkja af hálfu yfirvalda og er kostnaður nemenda við bókakaup því umtalsverður. Þess eru dæmi að námsbækur nemenda fyrir eina önn kosti allt að því 20 þús. kr. þetta skólaárið.
    Það er nánast einsdæmi meðal þjóða að lagður sé söluskattur á námsbækur. Niðurfelling hans mundi draga verulega úr kostnaði nemenda við kaup á námsbókum, jafna möguleika þeirra til náms og lækka hlut bókakostnaðar við útreikninga á framfærslu þeirra nemenda sem njóta námslána.``

    Þegar skólar voru að hefja kennslu sl. haust var nokkuð fjallað um upphaf skólaársins og birtust þá m.a. viðtöl við nemendur. Langar mig að vitna til eins slíks viðtals sem ég rakst á í Þjóðviljanum 9. sept. sl., en þar segir einn nemandi, með leyfi forseta:
    ,,Hugsaðu þér bara þá staðreynd að ég er á síðasta ári í Menntaskólanum við Hamrahlíð og ég þarf að borga rúmlega 16 þús. kr. fyrir námsbækurnar fyrir aðeins eina önn. Þetta er hrikalegt dæmi fyrir utan allan annan kostað. Það er liðin tíð, ef hún hefur þá einhvern tíma verið, að skólinn sé einhver vin í eyðimörkinni. Kaldar staðreyndir efnahagslífsins blasa við okkur hvar sem er og þróunin virðist öll vera í þá átt að við erum látin borga allar hækkanir sem verða á verði námsbóka. Jafnrétti til náms óháð fjárhag og búsetu eru bara orðin tóm. Veruleikinn er því miður allt annar.``
    Það eru eflaust allir sammála um að í því þjóðfélagi sem við búum má nám aldrei verða munaður fárra. Sú var eitt sinn tíðin að menntunin var forréttindi fárra og blásnauður unglingspiltur grúfði sig niður á milli þúfnakollanna þegar ríks manns synirnir riðu hjá á leiðinni suður í Latínuskólann. Á þeim tíma leyfðu stúlkur sér ekki einu sinni að fella tár yfir slíku svo fjarlægt var að þær nytu réttinda til mennta. Nú á dögum á menntabrautin að vera öllum aðgengileg óháð kyni eða búsetu.
    Við höfum töluvert fjallað um skólamál í hv. deild í vetur. Lagt hefur verið fram frv. til laga um jöfnun á námskostnaði og hefur það verið afgreitt frá deildinni og fagna ég því og vona að það verði að lögum nú í vor. Eins og fram hefur komið í umræðu um það mál hefur svokallaður dreifbýlisstyrkur nemenda rýrnað mjög á undanförnum árum og það er óhjákvæmilega baggi á mörgum fjölskyldum, ekki síst úti á landsbyggðinni, að þurfa að senda nemendur sína í skóla. Í vetur mun fullt fæði við heimavist Menntaskólans á Akureyri kosta 110 þús. kr. og við það bætist húsaleiga. Þeir sem komast á heimavist teljast heppnir og sleppa með 10.400 kr. fyrir tveggja manna herbergi, en mjög margir þurfa hins vegar að leita út á almennan leigumarkað þar í bæ og einnig í öðrum bæjum, þó að víða hafi verið gert átak í að reisa heimavistarhúsnæði fyrir nemendur. Ástandið er þó allra verst hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef minnst á það oft í máli mínu um skólamál í vetur að það sé fyrir neðan allt velsæmi
hvernig að þessum málum er staðið á höfuðborgarsvæðinu, sem er þó sá staður á landinu sem býður upp á flestar námsbrautir og margir nemendur verða að sækja hingað þrátt fyrir fjölgun skóla og námsbrauta í heimabyggðum.
    Það hefur borið nokkuð á því á undanförnum árum að framhaldsskólanemendur og nemendur á æðri skólastigum hafi þurft að stunda vinnu samhliða námi sínu. Það hafa verið gerðar margar skyndikannanir við framhaldsskóla landsins og í ljós kemur að vinnuálag margra nemenda er óhóflegt. Mig langar til, með leyfi forseta, að vitna aðeins til könnunar sem gerð var í Menntaskólanum við Sund 10. nóv. 1987 þar sem

lagður var spurningalisti fyrir alla nemendur skólans, sem þá voru 795, og var svörun 89,7%. Einmitt vegna þessarar könnunar fluttu þingmenn allra flokka till. til þál. á síðasta þingi um að könnun yrði gerð á launavinnu framhaldsskólanema, en það var hv. 10. þm. Reykn. Kristín Halldórsdóttir sem hafði frumkvæði að þeim tillöguflutningi. Í framsögu með þeirri tillögu segir hún, með leyfi forseta:
    ,,Það sem stingur í augu þegar litið er á niðurstöður þessarar könnunar er sú staðreynd að á öllum aldursstigum vinna stúlkurnar talsvert meira en strákarnir, enda þótt þeir eyði svo samkvæmt könnuninni töluvert meira fé að jafnaði vikulega en stúlkurnar. Þetta minnir okkur á þá staðreynd að stúlkur eiga yfirleitt síður kost á vellaunaðri sumarvinnu og verða því hugsanlega að bæta sér það upp á þennan hátt.``
    Frv. sem ég mæli hér fyrir er eitt örlítið skref í þá átt að jafna aðstöðu nemenda á öllum skólastigum. Það fer auðvitað ekki hjá því að fyrst og fremst er þetta til hagsbóta fyrir þá sem þurfa að fara um langan veg til að sækja skóla, að ekki sé talað um þegar margir unglingar frá sömu fjölskyldu þurfa að yfirgefa heimili sín.
    Þá vil ég einnig minna á að ár eftir ár hefur það gerst að framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna er skert. Það hlýtur að vera mjög brýnt að reyna að draga úr kostnaði nemenda á þeim skólastigum þar sem námslán eru veitt til þess einmitt að draga úr námslánaþörfinni. Eitt atriði í því sambandi að mínu mati er að draga úr bókakostnaðinum. Það kemur til góða fyrir ríkissjóð á öðrum stað, en þar gildir auðvitað það sama og með hina að það verður líka að gera átak í húsnæðismálum nemenda, sjá þeim fyrir húsnæði á hagstæðara verði en nú þekkist.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri að sinni en legg til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar að lokinni þessari umræðu.